17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. skal ég forðast að fara hér út í umr. Ég skal geta þess, að ég hef gert ráðstafanir til þess, að hver þm. fái í sínar hendur þær töflur, sem Reiknistofnun Háskólans hefur gert um þessa útreikninga og þær forsendur, sem fyrir þeim eru. Það hefur aldrei verið hugsun mín, að nein leynd gæti verið þar um. Nefnd sú, sem vann að þessu, óskaði eftir framkvæmdinni í þessu máli, og það er heldur ekki hugsun mín að koma í veg fyrir, að hv. alþm. hafi aðgang að þeim ríkisstofnunum, sem um þessi mál fjalla. Ég skal því hafa samband við ríkisskattstjóra út af þessari fsp. hv. 11. landsk. og biðja hann um álit á þessu máli. Ég hafði gert ráð fyrir því, að fjhn. fengi umsögn hans um það og mat á útreikningunum, en samkv. þeim forsendum, sem töflurnar gefa, þá skýra þær sig nú sjálfar að minni hyggju. Enn fremur hef ég látið athuga málið í Efnahagsstofnuninni og einnig fengið þar niðurstöður. En að sjálfsögðu skal þetta mál verða athugað.