07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Ég veit, að það er áliðið kvölds, komin nótt, og ég skal reyna að stytta mál mitt. En ég vildi ekki láta þessum umr. ljúka, án þess að ég mótmælti hér þeim dylgjum, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa haft uppi um tillöguflutning Þórarins Þórarinssonar, form. þingflokks Framsfl., um skattvísitölu á undanförnum árum. Engum er það skyldara en mér að halda uppi vörnum í þessu máli fyrir hann. Hann er fjarstaddur og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, en ég hef tekið sæti hans hér í hv. d. í fjarveru hans.

Það mátti skilja orð hv. 2. þm. Vestf. og orð hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen á þann veg, að Þórarinn Þórarinsson hefði flutt hér á undanförnum þingum till. um, að skattvísitölu yrði breytt og þá höfð einhver önnur viðmiðun, einhver hærri og hagstæðari fyrir skattþegna en núv. ríkisstj. hefur beitt í þeim samanburðarútreikningum, sem hún hefur verið að færa rök fyrir hér í þessum umr., samanburði á gamla kerfinu og hinu nýja. Þetta eru algjörlega staðlausir stafir. Þórarinn Þórarinsson hefur alltaf lagt áherzlu á, að skattvísitala fylgdi framfærsluvísitölunni og að persónufrádrættir og skattstigar breyttust í samræmi við framfærsluvísitölu. Segja má, að það skipti ekki máli, hvort miðað er við framfærsluvísitölu eða kaupgjaldsvísitölu, þegar kaupgjaldsvísitalan fylgir framfærsluvísitölunni. En af hverju eru þessar dylgjur hér fluttar? Það er verið að reyna að færa rök fyrir því með þessum hætti, án þess að vitnað sé í einhver þau þskj., sem Þórarinn Þórarinsson hefur lagt hér fram, að það sé einhver grundvöllur, sem Þórarinn Þórarinsson hafi átt þátt í að leggja, fyrir þeirri tölu, 21.5%, sem hv. stjórnarandstæðingar segja, að skattvísitalan eigi að hækka, áður en samanburðarútreikningar á gamla kerfinu og því nýja fari fram. Þessi tala, 21.5%, er algjörlega úr lausu lofti gripin, og það er ekki hægt að færa nein skynsamleg rök í samhengi við það, sem menn eru almennt sammála um, að miða beri við, fyrir þeirri tölu.

En þetta gefur vissulega tilefni til þess að minna á, hvernig hæstv. fyrrv. ríkisstj. fylgdi skattvísitölu við framkvæmd sinna skattalaga. Við upphaf viðreisnar 1960 var hin markaða skattastefna, eins og hv. 2. þm. Vestf. hefur kallað stefnu Sjálfstfl. s.l. áratug, í bókinni Viðreisn á þann veg, að afnumdir skyldu skattar af almennum launatekjum, en jafnframt var rofið það samband, sem hafði verið á milli kaupgjaldsvísitölu og skattvísitölu og sett hafði verið í lög 1953 í fjármálatíð Eysteins Jónssonar, hv. 1. þm. Austf., þáv. fjmrh., og gilti alveg til ársloka 1958, eða í hans fjmrh.-tíð.

Ein afleiðing þess, að þetta samband milli kaupgjaldsvísitölunnar og skattvísitölunnar var rofið, varð sú, að skattbyrðin jókst sífellt í hlutfalli við dýrtíðina, sem var mikil, og þetta endaði með sprengingu sumarið 1964, þegar menn fengu skattseðla sina. Þá skrifaði reyndar málgagn þáv. fjmrh., dagblaðið Vísir, þegar menn fengu skattseðlana í hendur, og sló upp á forsíðu, að nú væru allir menn ánægðir með skattana sína. En þetta varð svo óskapleg sprenging, þegar menn fengu þessa skattseðla í hendur, að það endaði með því, að efnahagsráðgjafar hæstv. þáv. ríkisstj. lögðu til, að skattþegnum yrðu veitt opinber lán, svo að þeir gætu staðið undir þessum skattgreiðslum. En þetta leiddi til þess, að hæstv. þáv. ríkisstj. komst ekki hjá því á árinu 1965 að taka upp skattvísitölu að nýju. Það var þó ekki gert á þann veg að hafa beint samband, annaðhvort við kaupgjaldsvísitölu, sem fylgdi framfærsluvísitölu, eða við framfærsluvísitöluna eina, heldur voru sett ákvæði í lög þess efnis, að fjmrh. skyldi ákveða skattvísitölu hvers árs að fengnum till., að mig minnir, hagstofustjóra, kauplagsnefndar og ríkisskattstjóra.

Stuttu síðar urðu fjmrh.-skipti. Við embætti fjmrh. tók Magnús Jónsson af Gunnari Thoroddsen. Í framkvæmd rauf Magnús Jónsson að nýju samband milli framfærslukostnaðar eða dýrtíðarbóta og skattvísitölu. Og á árunum 1966–1971, þegar verðbólgan tók stærstu stökk s.l. áratug og framkvæmdar voru tvær stórfelldar gengislækkanir, þá hækkaði vísitala framfærslukostnaðar um 96%, en skattvísitalan var aðeins hækkuð af fjmrh, um 68%, eða um þriðjungi minna en rétt hefði verið til þess að koma í veg fyrir, að beinar dýrtíðarbætur vegna verðlagshækkana af völdum verðbólgu yrðu til þess að auka skattbyrðina, teygja raunverulega skattstigana neðar, lækka raunverulega persónufrádrætti og þannig þyngja ekki sízt skattbyrðina á þeim, sem höfðu nauðþurftatekjur. Þannig reyndist í framkvæmd fagra fyrirheitið, að afnema skatta af almennum launatekjum.

Með þetta í huga og í ljósi þessarar reynslu hefði kannske verið hið sanngjarnasta gagnvart hæstv. fyrrv. ríkisstj. í útreikningum á samanburði á gamla kerfinu, eins og það var í framkvæmd, og þessu nýja, sem nú á að taka við, að miða ekki við þá hækkun, sem varð á vísitölu framfærslukostnaðar á árinu 1971, eða 6.5%, eins og hæstv. núv. ríkisstj. hefur gert í þessum samanburði, sem hún hefur verið að gera hér á hv. Alþ., heldur að miða við, hvernig þessi skattvísitala, eins og hún var ákveðin af fjmrh. hæstv. fyrrv. stjórnar, reyndist í framkvæmd og miða þá t.d. við meðaltal milli ára s.l. 5 ár. Og þá væri samanburðurinn miklu hagstæðari en núv. ríkisstj. miðar þó við í útreikningum sínum. Hækkunin ætti þá ekki að vera 6.5%. Hún ætti að vera talsvert lægri eða rúmlega 4% miðað við t.d. árin 1966–1971, miðað við þá framkvæmd, sem hæstv. þáv. fjmrh. hafði á þeim málum.

En þegar við höfum þetta allt í huga, þá kemur þessi till. þeirra hv. stjórnarandstæðinga, um að skattvísitölu skuli hækka um 21.5%, áður en mönnum leyfist að gera samanburð á gamla kerfinu og nýja, eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Og það er engin tilraun gerð til þess að rökstyðja það, hvernig þessi tala er fengin. Hún hefur verið eitthvað skrýtin sú skepna, sem mötuð var, þegar þessi tala fékkst. Ég veit ekki, hvort það var hv. 2. þm. Vestf., sem tók að sér þessa reikningslist, en það gæti þó vel fremur verið, að það hefði verið hv. 7. þm. Reykv. og hann hafi reiknað þetta um svipað leyti og hann samdi þessa till. um það, hvernig skattleggja bæri hjón, sem hvorugt ynni úti, sitt í hvoru lagi. Ekkert skal ég um það fullyrða.

Hins vegar finnst mér, að hv. stjórnarandstæðingar komist ekki hjá því, áður en þetta frv. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt verður afgreitt hér frá hv. d., að gera nánari grein fyrir því, í fyrsta lagi, hvað þeir eiga við með þeim dylgjum um tillöguflutning Þórarins Þórarinssonar um breytingar á skattvísitölu á undanförnum árum, og í öðru lagi, hvernig þeir telja réttlætanlegt miðað við fyrri reynslu og miðað við fyrri málflutning að krefjast þess, að skattvísitalan sé hækkuð um 21.5%, þegar gerður er samanburðarreikningur á gamla kerfinu og hinu nýja.

En fyrst ég er kominn hingað í ræðustól og þar sem deilt hefur verið mjög á hæstv. ríkisstj. fyrir það, hvernig hún hefur staðið að þeirri endurskoðun, sem hún hefur nú hafið, allsherjarendurskoðun á skattkerfinu og almannatryggingakerfinu, — og hluta af þeirri endurskoðun erum við hér að fjalla um, og í rauninni eiga þessi frv., sem nú eru hér til meðferðar, aðeins að gilda fyrir þetta ár, — þá þykir mér rétt að rifja hér upp í stuttu máli, hvernig hæstv. fyrrv. ríkisstj. stóð að síðustu endurskoðun sinni á skattalögunum. Þar voru embættismenn valdir til þeirra starfa, og það mun hafa verið í apríl 1969, sem þáv. fjmrh. skipaði nefnd embættismanna, sem var falið það verkefni að athuga sérstaklega skattgreiðslu fyrirtækja með tilliti til þess, að skattgreiðslur þeirra yrðu ekki hærri eða svipaðar og í öðrum þátttökuríkjum EFTA. Nefnd þessi skilaði skýrslu til ráðh. í marz 1970. En nefndin hafði þá aðeins lokið þeim hluta verkefnisins, sem náði til tekju- og eignarskattslaga. Í samræmi við það hafði hún samið frv. um breytingu á þeim lögum, sem eingöngu snerti skattlagningu fyrirtækja, og þetta frv. var lagt fyrir Alþ. 1970. En það náðist ekki samkomulag um afgreiðslu þessa frv. þá, þótt það hefðu eingöngu verið embættismenn, sem það sömdu. En ástæðan til þess, að ekki náðist samkomulag um afgreiðslu þessa frv., var ekki sízt sú, að Alþ. leit svo á, að athuga ætti skattamál atvinnufyrirtækjanna í heild, þ.e.a.s. öll gjöld, sem atvinnuvegirnir greiða til ríkis og sveitarfélaga og annarra opinberra aðila, þ. á m. til almannatryggingakerfisins. Þá mun og mörgum þm. hafa fundizt við umr. og athugun á þessu frv., að aðalefni frv. fjallaði meira um mál hlutafjáreigenda en sjálfra fyrirtækjanna.

En í framhaldi af þessu setti þáv. hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, enn þessari sömu embættismannanefnd nýtt erindisbréf, sem er dags. í maí 1970. Þar var þessari embættismannanefnd falið að framkvæma heildarathugun á skattalögunum með það að markmiði að gera skattakerfið sem einfaldast, og hins vegar að gera þær breytingar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt varðandi skatta einstaklinga, er nefndin teldi sanngjarnar og eðlilegar, eins og sagði í erindisbréfi til nefndarinnar.

Árangurinn af þessu starfi embættismannanefndarinnar var það frv., sem lagt var fyrir síðasta Alþ. í fyrra og afgreitt var sem lög frá Alþ. í fyrravor. En það var mjög athyglisvert í sambandi við afgreiðslu á því frv., að fimm stærstu samtök atvinnurekstrarins í landinu voru ekkert sérlega ánægð með þetta frv., og í erindi, sem barst til fjhn. Alþ., þegar þetta frv. var til athugunar þar í fyrra, sagði m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Samtökin telja nauðsyn á, að endurskoðun laga um tekjuskatt og eignarskatt og laga um tekjustofna sveitarfélaga fylgist að. Frá sjónarmiði fyrirtækisins er tekjuútsvar og tekjuskattur í raun og veru sami skatturinn, en ráðstöfunin aðeins misjöfn. Þetta mál tengist svo spurningunni um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og á hvern hátt fullnægja eigi tekjuþörf þeirra síðarnefndu. Það snertir svo aftur álögur aðstöðugjalda og fasteignaskatta, en þessi gjöld til sveitarfélaganna skipta fyrirtæki almennt miklu meira máli en tekjuskattur til ríkissjóðs. Er því lagt til, að málið verði afgreitt í einni heild.“

En það er einmitt í anda þeirra skoðana, sem þarna eru látnar í ljósi, sem hæstv. núv. ríkisstj. gekk að endurskoðun skattalaga og laga um tekjustofna sveitarfélaga og laga um almannatryggingar. Hæstv. ríkisstj. taldi nauðsynlegt að skoða þessi mál öll í heild, og það hefur hún reynt að gera. Það hefur margoft komið hér fram, að tími var naumur, en undan því varð ekki komizt að gera ráðstafanir strax varðandi skattálagningu á tekjur ársins 1971, vegna þess að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir töldu nauðsynlegt að fella niður nefskattana, og það er búið að færa margföld rök fyrir því, að það var ekki hægt að fresta því, fyrst menn voru búnir að stórauka bætur almannatrygginga. En þess vegna get ég ekki séð betur en flestar þær ádeilur hv. stjórnarandstæðinga á málsmeðferð hæstv. núv. ríkisstj. á þessari endurskoðun séu ákaflega veigalitlar og raunar hlægilegar sumar, þegar reynsla sögunnar og reynslan af þeirra stjórnarathöfnum er höfð í huga.

En ég vil aðeins að lokum, herra forseti, lesa hér eina setningu til víðbótar úr bréfi fimm stærstu atvinnurekendasamtakanna til fjhn. hv. Nd. og Ed. Alþ. í fyrra um meðferð skattalaga þá, sem snertir mjög þær spurningar, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa hér verið með á vörum um afturvirkni laganna í sambandi við þá lagasetningu, sem hér er verið að gera. En í áliti þessara atvinnurekendasamtaka á frv. fyrrv. ríkisstj. í fyrra sögðu þessi fimm atvinnurekendasamtök, sem eru Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband ísl. útvegsmanna, Verzlunarráð Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands, m.a. á þessa leið:

„Þá er á það bent, að aðalákvæðum frv. er ekki ætlað að koma til framkvæmda fyrr en við álagningu á árinu 1972. Sýnist því ekki brýn nauðsyn að ljúka afgreiðslu þess á því Alþ., sem nú situr.“

Ég veit, að ég þarf ekki að hafa mörg orð til þess að skýra, hvað í þessum setningum felst. Ég veit, að hv. dm. skilja það fullkomlega án frekari skýringa, en þarna segir beinlínis, að atvinnurekendasamtökin telji það fullkomlega víðunandi og meira en það, telji það æskilegt, að þessi breyting, sem þarna er verið að leggja til og þarna var gerð, komi síðar til afgreiðslu á Alþ. og nánari athugunar, þar sem álagningin á að fara fram á árinu 1972, en gildir um tekjur ársins 1971. En hefði þessu máli verið frestað, eins og þeir lögðu til, en álagningin engu að síður farið fram á þessu ári, þá hefðu þau rök, sem hv. stjórnarandstæðingar flytja nú og segjast vera að flytja í nafni atvinnurekstrarins í landinu, ekki átt við, og þarna voru atvinnurekendur sjálfir beinlínis að leggja það til, að sett yrðu ný skattalög seint á árinu 1971, sem giltu við álagningu 1972 og hefðu afturvirkni um skattálagningu á allar tekjur og eignir ársins 1971.