09.03.1972
Neðri deild: 49. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eru þeir staddir í húsinu, hæstv. sjútvrh. og félmrh., eða eru þeir í lagningu? — Vegna tilmæla forseta skal ég reyna að stytta mál mitt eins og ég get, en það verður þó að segjast um leið, að það er harla erfitt, þegar haft er í huga, að sjálfir tveir hæstv. ráðh., frsm. meiri hl. fjhn. og reyndar hv. þm., ritstj. Tímans, hófu hér mikið málþóf við 2. umr. og maraþonræður til þess að réttlæta það frv., sem hér er til umr., sem þó tókst heldur illa, en þeir þurftu þess vegna að fara að ræða, sem þeir náttúrlega að sjálfsögðu gerðu, um starf fyrri ríkisstj. og hin og þessi mál, sem full ástæða hefði verið til að taka fyrir og svara nú við 3. umr. Ég skal þó láta það eiga sig að sinni og snúa mér að því málinu, sem er mitt meginmál og er í sambandi við þá brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 429 um skattfrádrátt sjómanna.

Það hefur verið venja eða skylda um 20 ára skeið, að útgerðarmenn hafa borgað sjúkrasamlagsgjöld, iðgjöld fyrir lögskráða sjómenn, en með niðurfellingu svo kallaðra nefskatta nú er þessi skylda úr sögunni, og það er í sjálfu sér ekki ástæða til að harma, þótt þessum pinkli sé létt af útgerðinni, en þessi upphæð, sem svarar til nefskattanna, verður að nást inn til að standa undir nauðsynlegum gjöldum trygginganna. Þeim verður náð með tekjuskattinum, sem leggst á alla skatthorgara jafnt, hvar í stétt sem þeir standa, sjómenn sem aðra.

Þessi baggi útgerðarinnar er því óbeint færður yfir á sjómenn sjálfa. Á árinu 1971 var sjúkrasamlagsgjaldið kr. 4 020 óniðurgreitt hér í Reykjavík. Það má ætla, ef miðað er við fjárhagsáætlun Sjúkrasamlags Reykjavíkur, að það hefði þurft að vera í ár um það bil 5 þús. kr. Þessari upphæð á mann verður að ná inn í tekjuskattinum vegna sjúkrasamlagsiðgjaldanna, og stjórn hinna vinnandi stétta hefur því lagt þennan nýja 5 þús. kr. bagga á alla sjómenn, sem lögskráðir eru. Ég skal ekki fara út í það að rekja nákvæmlega hin áhrifin, sem þetta hefur á vísitöluna, kaupgjaldsfalsið vegna niðurfellingar nefskattanna. Framfærsluvísitalan er lækkuð úr 161 stigi í 133, og kemur það auðvitað aftur til miska þessum sömu mönnum, sem fá þetta gjald á sig vegna þessara fyrirkomulagsbreytinga.

En það er fleira, sem sjómenn geta þakkað þessari hæstv. ríkisstj. fyrir í sambandi við þetta frv. og þau frv., sem hér liggja fyrir í hv. Nd. og Ed. Það mátti sjá, þegar þau voru lögð fram, að ríkisstj. var ákveðin í því að stórskerða þau skattfríðindi, sem sjómenn hafa haft til þessa. Þessi frádráttur frá tekjum sjómanna í gildandi lögum er hlífðarfatafrádráttur, frádráttur vegna fæðis, sem þeir greiða sjálfir, og sérstakur sjómannafrádráttur fyrir þá, sem skráðir eru 6 mánuði eða lengur. Þessara hlunninda njóta allir lögskráðir sjómenn og reyndar stór hluti hinna tryggingaskyldu líka og þá auðvitað með þeim takmörkunum, sem lögin setja. Upphaflega munu þessi fríðindi, sem voru miðuð við fiskimenn, til komin svo að laða mætti þá um borð í fiskiskipin, og það er alls ekki í fyrsta skipti nú, sem illa hefur gengið að manna þann flota. Í tíð fyrrv. ríkisstj. fengu farmenn smám saman þessi hlunnindi líka, um leið og frádráttarupphæðirnar voru hækkaðar í krónutölu. Nær undantekningarlaust fengu farmenn þessi hlunnindi. Í fyrsta lagi vegna viðurkenningarinnar á þeirri staðreynd, að þessi atvinnustétt er meir fjarverandi frá heimilum sínum en nokkur önnur. Og sem endahnútur voru þessar ákvarðanir teknar til lausnar á mjög viðkvæmum kaupgjaldsdeilum. Farmenn munu því líta á þessi hlunnindi í dag sem hluta af umsömdu kaupi og kjörum.

Á síðasta Alþ. tók svo fjhn. þessarar hv. d. upp í till. sínar efni frv., sem ég hafði flutt um, að full skattvísitala kæmi á þennan frádrátt. Átti ákvæði þetta að koma til framkvæmda við álagningu nú í ár.

Þá er rétt í þessu sambandi að geta þess, að um langt árabil hafa allflest a.m.k. hinna stærri sveitarfélaga veitt sams konar frádrátt til sjómanna og veittur er samkv. gildandi lögum um tekju- og eignarskatt. Er þetta byggt á heimild í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

En hverjar eru svo fyrirhugaðar breytingar hæstv. ríkisstj. samkv. till. hennar? Samkv. tekjustofnafrv. falla þessi fríðindi niður, því að engin heimild er í frv. nú til að veita slíkan frádrátt, og þar með fór helmingurinn af þeim skattafrádrætti, sem sjómenn viðkomandi sveitarfélaga hafa haft til þessa. Þess utan hefur ríkisstj. ákveðið að svíkja sjómenn um hækkun á skattvísitölunni, sem áhrif hefði haft á frádráttarupphæðirnar.

Við 2. umr. þess máls, sem hér er til umr. nú, báru fulltrúar ríkisstj. fram brtt. við þetta ákvæði laganna þess efnis, að auk gildandi ákvæða um skattafrádrátt sjómanna skuli draga frá heinum tekjum fiskimanna 8% af tekjum þeirra. Þetta er auðvitað til bóta fyrir fiskimenn, þótt ég dragi mjög í efa, að það jafnist upp á móti því, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að taka af þeim. Alla vega eru þessi fríðindi farmanna stórskert, og verður að telja um leið, að verið sé að breyta gildandi samningum þessara manna. Það eru því ekkert annað en ósannindi, sem hæstv. sjútvrh. sagði í umr. í fyrrakvöld, að skattfríðindi sjómanna væru stóraukin með frv. og brtt. ríkisstj., ekkert annað en ósannindi. Það er engu líkara en þeir tveir hæstv. ráðh., sem hvað mest reyndu að hafa áhrif með alls konar ráðum á samninganefnd farmanna í verkfallinu í vetur, séu nú að hefna sín á þeim, vegna þess að þeir voru ekki nógu talhlýðnir við þá þá.

Við sjálfstæðismenn flytjum brtt. um frádrátt sjómanna, sem byggður er á frv. því, sem við fluttum á s.l. hausti um þetta mál. Einnig er reiknuð inn í frádráttarupphæðir þeirrar till. okkar sú skattvísitala, sem við teljum eðlilegt, að gildi í ár. Enn fremur flyt ég brtt. á þskj. 429 til vara, ef sú till. verður felld, með þeirri breytingu einni, að farmenn fái notið sambærilegra hlunninda og fiskimenn, eins og þeir hafa haft undanfarin ár. Ég á bágt með að trúa því, að handjárnun hv. þm. stjórnarflokkanna sé svo sterk, að þeir brjóti ekki af sér ráðherrahlekkina að þessu sinni, þegar gengið verður til atkv., og styðji a.m.k. þessa varatillögu, svo að ekki verði sagt bæði um þá og hæstv. ríkisstj., að hún sé að leggja í einelti í hefndarskyni þessa stétt manna vegna einarðlegrar framkomu þeirra í kaupgjaldsbaráttu sinni. Það má þá vera, að hv. þm., ritstjóri Tímans, geti skrifað skelegga forustugrein í blað sitt og reyndar ritstýrendur málgagns Frjálslyndra líka þess efnis, að þetta hafi nú eiginlega verið slys, allt hafi þetta verið að kenna stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur.