16.12.1971
Efri deild: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Þar sem ég á ekki sæti í þeirri hv. n., sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, þótt ekki sé það ljóst enn, þá leyfi ég mér að segja hér örfá orð við 1. umr. þessa frv. nú. En svo sem fram hefur komið í umr. um fjárlög hér á hv. Alþ. undanfarna daga, er það frv., sem hér er til umr., frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga, aðeins einn liður í afgreiðslu þeirra laga, þ.e. fjárlaganna.

Þótt allir séu sammála um það, jafnt þeir, sem frv. sömdu, og hinir, sem nú eru fyrst að sjá það, er ómögulegt að átta sig á því, að hér sé um einn liðinn í því þrístirni að ræða, sem eru fjárlög og skattalög ásamt þessu frv. Í fyrsta lagi, vegna þess hvað það er seint fram komið. Í öðru lagi, vegna þess að hitt aðal-fylgifrv. við fjárlögin, skattamálin, sem í dag er til umr. í hv. Nd. og er þó talið enn þá umfangsmeira, er einnig að sjá dagsins ljós hér á hv. Alþ. nokkrum dögum fyrir þinghlé. Ríkisstj. heldur hins vegar fast við að afgreiða fjárlögin fyrir áramót og þar með öll útgjöld ríkisins fyrir næsta ár, án þess að minnsta tilraun sé til þess gerð að skýra, hvað þessi tvö frv. eiga að útvega í tekjur til framkvæmda á væntanlega lögboðnum ákvörðunum fjárlaga fyrir næsta ár.

Í sambandi við þennan skrípaleik hæstv. ríkisstj. kemur mér í hug saga, sem á sínum tíma var fleyg meðal sjómanna, en hún var í fæstum orðum þessi: Skipverji á fiskiskipi fékk skipun um það frá skipstjóra sínum að finna tiltekinn enda á tógi, sem var mjög mikilvægt að finna, og festa hann hið bráðasta, því að mikið var talið við liggja, ef veiðiferðin atti að heppnast vel. Eftir vandlega leit skipverjans um allt þilfar, gat hann samt ekki fundið umræddan enda og sagði því við skipstjórann að leit sinni lokinni: „Ég get ekki fundið bölvaðan endann, hann hlýtur að hafa verið skorinn af.“

Við getum alveg eins hugsað okkur í sambandi við afgreiðslu fjárlaga nú og umr. tveggja frv., sem því fylgja, að þessi saga hafi gerzt um borð í þjóðarskútunni: Forsrh. fyrirskipar skipverjum sínum að finna grundvöll til fjárlaga, tekjuöflun til að mæta útgjöldum, sem væntanlega verða ákveðin endanlega innan tveggja til þriggja daga. Frá 14. júlí í sumar hefur vandlega verið leitað að þessum enda, — þar á ég við enda fjárlaganna, — án þess að hann fyndist. Hvort endinn verður bölvaður, þegar hann finnst, ef hann þá finnst nokkurn tíma, skal hér látið ósagt. Enn þá er hann a.m.k. ekki fundinn og hefur ekki fundizt í svörum hæstv. ráðh.

Hæstv. núverandi félmrh., sem fylgdi þessu frv. úr hlaði áðan, hefði í stöðu stjórnarandstæðings a.m.k. ekki sleppt því fram hjá sér að minna á við slíkar aðstæður, að nú væri þörf á ... Þetta er nú um broslegri hlið þessara mála. Því er nú verr, að ekki er unnt að skoða þá mynd, sem ríkisstj. sýnir Alþ. þessa dagana, lengi í þessum gleraugum, svo dökk er hún og alvarleg, að mínu áliti, fyrir lýðræðislega kjörið þjóðþing, löggjafarþing heillar þjóðar, að ekki má láta átölulaust.

Það er viðtekin venja hér á hv. Alþ., að stjórnarflokkarnir reyni að semja fyrir jólaþinghlé þm. við stjórnarandstöðu hverju sinni um framgang þeirra mála, sem nauðsynlega þurfa fram að ganga fyrir áramót, og gildistaka þeirra er við það bundin, þótt síðbúin sé. Hvað Alþfl. áhrærir hefur a.m.k. ekki á honum staðið, og nægir í því efni að minna á yfirlýsingu varðandi tryggingalögin og Framkvæmdastofnun ríkisins, þótt flokkurinn hafi ýmsar mikilvægar aths. við þessi mál að gera í einstökum atriðum, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir. En að bjóða þm. upp á að samþykkja fjárlög heils árs upp á 13–16 milljarða kr. útgjöld, sem eðlilega verða af skattþegnum þjóðfélagsins tekin nú sem fyrr, án þess að hafa á hendi minnstu grg. um það, með hvaða hætti það skuli gert, aðra en þá, að næsta ár eigi að verða prufuár. Það eigi að verða prufuár um það, hvernig þessi nýja stefna komi í raun og sannleika út. Stjórnarandstæðingar áttu að sjálfsögðu ekki von á sérlega lýðræðislegum vinnubrögðum hjá hæstv. núv. ríkisstj. almennt. Stuðningsmenn stjórnarinnar hefðu hins vegar átt kröfurétt á því að vita, hvaðan peninga átti að taka, en jafnvel þeir virðast hafa verið meðhöndlaðir eins, a.m.k. lætur enginn þeirra enn þá á sér heyra, að þeir viti, hvar tekjustofnarnir séu. Svo sem fyrr er sagt, á þetta að verða einn liður í því tilraunaári, sem árið 1972 á að verða um fjármál ríkisins og þar með skattþegna ríkisins alls.

Aðalinntakið í hinum þætti þessa tilraunaárs á svo að vera áðurgreint skattafrv., sem eins og ég áðan sagði er til I. umr. í hv. Nd. í dag. En aðalatriði þess virðast við fljótlegan yfirlestur, — annað hefur ekki komið til greina, — eiga að vera að þyngja opinber gjöld á hinum svo nefndu millitekjumönnum, þeim, sem hafa tekjur beggja megin við miðju í launakerfi hins opinbera, iðnaðarmönnum og fiskisælum sjómönnum, ásamt þeim öðrum, sem tekjur hafa af svipuðum launaupphæðum.

Hlutfallslega virðist svo þeim, sem hæstu launin hafa, vera hlíft. Eini ljósi punkturinn virðist þar vera sá, að þeim, sem lifa á nauðþurftartekjum, verður hlíft við hækkun útgjalda, frá því sem nú er. Þessi sanngjarni vottur skattafrv. virðist þó deyfast nokkuð, þegar á það er litið, að í tryggingalöggjöfinni eða frv., sem lagt hefur verið fram um þau efni, í bótahækkun þess frv. er ákveðið, að fjölskyldubætur skuli ekki hækkaðar einar allra bóta. Þá er þar einnig hætt að miða bætur eða hækkun þeirra við fólk, sem vinnur við fiskvinnslu í landi, heldur laun verkamanna almennt. Þessi ráðstöfun kann við fyrstu sýn að virðast eðlileg, en þegar betur er að gáð og til úrslita síðustu vinnudeilu er litið, kemur í ljós, að einmitt fólk við fiskvinnslu í landi fékk mestu launahækkunina. Þá fer dæmið að skýrast.

Gott væri að fá skýringu á því við tækifæri og helzt sem fyrst, hvers vegna breytt var um viðmiðun í þessu efni, og fá samanburð á útkomu bóta þeirra í báðum tilfellum.

Eitt af því, sem fyrrv. ríkisstj. var talið til tekna, var, að kaupgjaldsvísitölunni var breytt á þann veg, að hún mældi rétta neyzlu fólks og þar af leiðandi einnig laun. Það er því freistandi að hugsa sem svo, að af því að fjölskyldubæturnar eru inni í vísitölunni í dag, þá skuli þær nú ekki hækka, því að út úr því kynnu að koma hækkuð laun til almennings og auknar bætur til stærri eða fjölmennari fjölskyldna. En það virðist m.ö.o. ekki mega gerast, a.m.k. ekki á því herrans prufuári 1972.

Það, sem er plúsmegin í þessu frv., eru auknar tekjur, sem af næsta ræðumanni hér á undan voru þó allverulega vefengdar, og ef það stenzt, sem hæstv. ríkisstj. hefur fullyrt um það, þá ættu auknar tekjur og þar af leiðandi aukin fjárráð einstakra hæjar- og sveitarfélaga að geta átt sér stað. Og það út af fyrir sig væri mjög ánægjulegt, ef satt reyndist, því að sannleikurinn er sá, að áður voru kröfur almennings yfirgnæfandi þær, að byggðar yrðu fleiri íbúðir, og því miður er þeim kröfum enn ekki fullnægt. Nú hafa kröfur fólks hins vegar í vaxandi mæli hallast að því að fá umhverfi sitt og aðstöðu bætt verulega frá því, sem áður hefur verið, og samgöngur innan sveitarfélaga og ætti þetta þá, samkv. yfirlýsingum ríkisstj., — ég tek það skýrt fram, að það eru þeirra orð, en ekki mín, — að gefa sveitarfélögunum betri möguleika til að sinna þessum breyttu viðhorfum.

Eins og fyrr er getið, er frv. svo viðamikið, að til einstakra efnisatriða verður vart tekin afstaða á svo skömmum tíma, sem til hefur gefizt að athuga það, enda yfirlýst af hæstv. ríkisstj., að hún ætlist til þess, að hátíðarnar verði notaðar til athugunar á málinu. Ég vildi nú eindregið gera það að minni till. og áskorun til þeirrar n., sem málið fær til umráða, að hún sendi sveitarfélögum landsins frv. til umsagnar, svo að þær umsagnir gætu legið fyrir, þegar þing kemur saman að nýju, og spyr hæstv. félmrh., hvort hann geti ekki á það fallizt. Fjárlögin á að afgreiða og þar með ráðstafa þeim tekjum, er af þeim eiga að gefast samkv. þeim tilfærslum, sem í þessu frv. eru ætlaðar á milli bæjar- og sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hins vegar og á að vera meginefni frv.

Alþfl. tekur af fyrrgreindum ástæðum ekki efnislega afstöðu til þessa máls á þessu stigi, þar sem nauðsynlegt er að gera sér ljósa mynd af frv. öllum þremur, í fyrsta lagi fjárlagafrv., í öðru lagi frv. um tekju- og eignarskatt og í þriðja lagi þessu frv. um tekjustofna sveitarfélaga.

Ég ítreka svo það, sem ég sagði í upphafi, að vinnubrögð og málatilbúnaður hæstv. ríkisstj. verður vart talinn orka til fylgisaukningar við þessa víðtæku málaflokka alla og nægir í því efni að vísa til ákvæðisins til bráðabirgða, er í frv. felst, því að eftir nákvæma athugun þeirrar nefndar, sem var undir forustu þess ágæta embættismanns Hjálmars Vilhjálmssonar, — ég hygg, svo sem áður hefur komið fram hér í umr., að starf nefndarinnar hafi að mestu hvílt á honum, — þá efast nefndin sjálf um, hvernig frv. muni í raun og sannleika reynast, því að í 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ef í ljós kemur, að ákvæði laga þessara reynast þeim óhagstæðari,“ — þ.e. sveitarfélögunum, — „en lög nr. 51/1964, þá skal endurskoða“ o.s.frv.

Hæstv. félmrh. taldi, að þrjú væru meginatriði í uppistöðu þessa frv., og að óreyndu skal ég ekki um það efast, en tel nauðsynlegt, að þau séu ítrekuð. Það er í fyrsta lagi það, að öll samskipti ríkis og sveitarfélaga verði gerð einfaldari. Í öðru lagi, að minni sveiflur verði í tekjum sveitarfélaga, og verður það þó vart ljóst, a.m.k. hjá þeim sveitarfélögum, sem nánast eingöngu byggja afkomu sína á afkomu sjómanna. Í þriðja lagi, að skattabyrðin ætti að vera réttlátari.

Ég leyfi mér að efast um a.m.k. 2. og 3. lið og óska nánari skýringa frá hæstv. ráðh. en fram komu í framsöguræðu hans hér áðan, áður en ég læt sannfærast í þessum efnum. Ég hef við fljótlegan lestur frv. talið, án þess að ég hafi getað haft aðstöðu til að leita á náðir sérfróðari manna, að þessum fullyrðingum ráðh. væri á allt annan veg farið. En það er rétt að hafa það, sem sannara reynist, og ég geri það að mínum lokaorðum, að ég skora á ráðherrann og nefndina að samþykkja það, að sveitarfélögin öll fái að segja sitt álit á þessu frv., svo miklu varðar það hag þeirra og íbúa þess hvers um sig. Í auðveldari tilfellum hefur verið leitað umsagnar hlutaðeigandi aðila heldur en í því víðtæka frv., sem hér er flutt.