09.03.1972
Efri deild: 53. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá atriði, sem mig langaði til að minnast á hér. Stjórnarsinnar gera mikið úr því, að það sé tvennt, sem þeir vinni að með þessu frv. Í fyrsta lagi öryggi sveitarfélaganna og í öðru lagi lækkaðir skattar á láglaunafólki. Í raun og veru telja þeir, að þær brtt., þær 18 eða 19 brtt., sem þeir hafa komið fram með, hafi ráðið úrslitum, að nú væri þetta komið í bezta lag. Mig langar aðeins til að geta þess, að varðandi þá lægst launuðu hafa þau undur skeð, að t.d. útsvar hjá einstaklingi, sem er með 200 þús. kr. árstekjur, sem verður að telja þá lægst launuðu í landinu, hækkar um 50% við brtt. Ég held, að það fari heldur ekki á milli mála, að á hjónum með 400 þús. kr. árstekjur, þar sem konan vinnur jafnmikið inn eins og eiginmaðurinn, sem er ekkert óalgengt t.d. í frystihúsum og heldur ekkert óalgengt í sveitum, hækki útsvarið einnig um 50% frá hinum gildandi lögum. Ef við tökum þá atvinnustétt, sem er talin sú lægst launaða í landinu, bændurna, fæ ég ekki betur séð en að þetta komi mjög illa við þá. 23. gr. hefur að vísu verið lagfærð nokkuð, þ.e.a.s. það er lagt í vald sveitarstjórna, hvort þær áætli þeim tekjur. En það þarf líka að taka það til athugunar, að bændur eru elzta stétt landsins, að þar eru fleiri 67 ára og eldri en í nokkurri annarri stétt. Þegar þetta kemur til viðbótar, er auðsjáanlegt, að fjöldi af bændaheimilum fer mjög illa út úr þessu frv., ef að lögum verður. Eins og öllum er kunnugt, fengu þeir aðilar í lög á s.l. ári, að mikill aukafrádráttur er veittur til tekjuskatts hjá þeim, sem eru 67 ára og eldri. Þetta mundi hafa komið sér einkar vel fyrir bændaheimili, en nú er sýnilegt, að þetta verður afnumið. Ég held, að sveitarstjórnir lendi í miklum örðugleikum með að ákvarða, hvort þær eigi að nota heimildarákvæði 23. gr. eða ekki, vegna þess að vinnuálag á bændaheimilin er mest, þegar árferði er slæmt, og þá er líka slæmur hagur hjá sveitarfélögunum. Þá verða þau að gera það upp við sig, hvort þau eigi að sleppa þessum tekjumöguleikum og láta þá börnin og unglingana eða aðra, sem þurfa á bættri aðstöðu að halda, gjalda þess, eða hvort þau eigi að notfæra sér þessa heimild beinlínis til þess að áætla sjálf tekjur þessara heimila, og þá er það augljóst, að því verra sem árferðið hefur verið, þeim mun meiri hefur vinnan verið og heimilisfólkið orðið að leggja meira að sér og hafa sveitarstjórnir heimild til þess að áætla því tekjur eins og það hefði unnið hjá öðrum fyrir fullu kaupi.

Loks vil ég geta þess, að í þessu frv., eins og það er í dag, er óvenjumikið um heimildarákvæði. Þetta hlýtur að skapa tvennt, það skapar mikið öryggisleysi í tekjuöflun og það skapar líka mikið öryggisleysi fyrir þegnana. Ég held því, að eitt af því bezta, sem sagt hefur verið hér, sé það, þegar 1. þm. Vesturl. taldi það einn af höfuðkostunum, að halda skyldi áfram að endurskoða frv.