13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Eftir að ég lauk ræðu minni áðan var mér bent á það, að þm. hafi spurt annan, hvort ég hafi reiknað með greiðslu nefskatta í fyrra, þ.e. í þeirri skattupphæð, sem ég sagði, að menn hefðu raunverulega greitt í fyrra, og bar saman við þá skattupphæð, sem menn koma til með að greiða í ár. Að sjálfsögðu voru nefskattarnir meðtaldir í skattgreiðslunni í fyrra, að öðrum kosti hefði allur samanburðurinn verið algjörlega rangur. Greiðsla nefskatta, eins og þeir voru í reynd, var meðtalin í skattgreiðslutölunni í fyrra, en var að sjálfsögðu ekki talin með í skattgreiðslutölunni, eins og hún verður í sumar, enda hafa þeir verið felldir niður.