13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins hér örfá atriði, sem ég vildi gera stutta aths. við, áður en mál þetta fer í n. Ég spurðist fyrir um það hjá hæstv. félmrh., hvernig hann liti á ákvæði frv. varðandi útsvarsskyldu, t.d. af tekjum barna, sem væru undir 16 ára aldri, útsvarsskyldu af tekjum, sem raunar eru ekki tekjur, en eru fram taldar teknamegin, greiðslur fyrir bifreiðir og síma og slíkt, og vaxtatekjur, sem eru sambærilegar við vaxtagjöld. Hæstv. ráðh. virtist ekki hafa skilið þessa spurningu mína nægilega vel. Ég tel mig hafa lesið 23. gr. frv. rækilega og komizt að raun um það, að í henni sé ekkert að finna, sem hægt sé að fóta sig á í þessu efni annað en það, að t.d. tekjur barna, sem eru á framfæri foreldra og eru innan 16 ára, séu útsvarsskyldar um 10%. — Nú vinna t.d. tvö börn, 13 og 15 ára, fyrir um 70 þús. kr. tekjum, sem taldar eru fram teknamegin á framtali foreldra. Þá eru foreldrar útsvarsskyldir um 7 þús. kr. fyrir þessar tekjur umræddra barna. Þannig skil ég 23. gr. Ég skil hana einnig þannig, að greiðslur fyrir síma og fyrir bifreið, sem eru raunar greiðslur fyrir útlagðan kostnað, þessar greiðslur, sem eru taldar teknamegin á framtali, séu útsvarsskyldar um 1056, þannig að ef einhver maður fær 10 þús. kr. bílastyrk, þá fái hann 1000 kr. útsvar vegna þessa. Eins skil ég þetta þannig, að nú á maður skuldabréf, vegna þess að hann hefur selt húseign sína upp á 500 þús. kr. og fær af því 10% vexti, 50 þús. kr. í vexti. Ef hann hefur selt sína eign og er fluttur í aðra íbúð og skuldar þar 500 þús. kr. í þeirri íbúð og borgar 50 þús. kr. í vexti vegna þeirrar íbúðar, þá fær hann 5 þús. kr. í útsvar af þessu einu saman, að hann er ekki í upphaflega húsinu. Hann hefur selt það og á skuldabréf upp á 500 þús. kr. og hefur af því 50 þús. kr. vaxtatekjur, en greiðir síðan 50 þús. kr. í vaxtagjöld vegna síðara húsnæðisins. Þetta eru hlutir, sem ég vildi í allri vinsemd benda hv. heilbr.- og félmn. Nd. á að kanna, hvort eru réttir og hvort hægt er að finna lausn á.