15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég bið um orðið vegna þess, að það hefur fallið niður af einhverjum ástæðum, að í þeim brtt., sem heilbr.- og félmn. bar fram, er vitnað í vitlausa gr. Það hefur fallið einhvern veginn niður og þess vegna verð ég að koma hér fram í nafni n. með þá breyt. við ákvæði til bráðabirgða, að í stað 36. gr. í 1. tölul. komi: 38. gr. Þar sem þessi till. er of seint fram borin og skriflega flutt, þá verð ég að óska eftir, að forseti leiti afbrigða fyrir henni.

En af því að ég er kominn hingað upp á annað borð, langar mig til að segja örfá orð vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram. Hv. 12. þm. Reykv. komst þannig að orði, að það væri enginn þm. ánægður með þessi frv. og það væru því eðlilegustu viðbrögðin að vísa málinu frá, eins og hv. sjálfstæðismenn hafa lagt til að gert yrði. En ég vil bara minna hv. þm. á það, að þessi breyting varð að fara fram, vegna þess að eftir gildandi lögum var ekki hægt að fara, miðað við þá breytingu, sem við erum búnir að gera og vildum gera í sambandi við almannatryggingakerfið. Það var ekki hægt. Það er því auðvitað alveg út í hött að leggja til að vísa málinu frá. Hins vegar erum við menn til þess að játa það, að við hefðum viljað hafa ýmislegt á annan veg en í frv. er. Samt sem áður hefði eiginlega verið sama, hvernig þau hefðu verið, sjálfsagt hefðu einhverjir verið óánægðir með sum atriðin, og þannig er þetta oft.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan, að ég mundi ekki geta tekið frá Alþfl. það, að þeir hefðu tekið það upp sem sitt baráttumál að berjast fyrir þeirri breytingu, að hjón telji nú hér eftir fram í tvennu lagi. Ég vil nú segja: Batnandi manni er bezt að lifa. Þegar ég var að ræða um þetta í fyrra, tók hv. þm. ekki undir það. Nú er hann ekki lengur maðurinn sem ræður, og þess vegna er hægt að fara að berjast fyrir góðum málefnum. En það hefði bara átt að gera það fyrr.