15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessa 2. umr. málsins, þannig að málið komist ekki til 3. umr. nú fyrir kvöldmat, þó að að ýmsu leyti væri freistandi að gera það. En fyrir þeirri freistni skal ég ekki falla, — það verður nægur tími til að ræða skattamalin almennt og þau grundvallaratriði, sem hér er um að ræða, — ég skal ekki tefja afgreiðslu þessa máls með því.

Það var augljóst af stuttri ræðu hv. 4. landsk. þm., frú Svövu Jakobsdóttur, að hún hafði ekki heyrt ræðu mína í dag. Ég sagði það aldrei, að frúin ætti ekki að skipta sér af skattamálum, það munu allir hv. þdm. hafa heyrt, ég sagði hins vegar, að tillöguflutningur hennar hefði annan árangur, hann þýddi annað en hún sjálf hefði eflaust ætlazt til, vegna þess að ef hennar till. væri framkvæmd, þá mundi skattgreiðsla, eins og ég sýndi fram á, þá mundi skattgreiðsla giftrar konu, sem vinnur utan heimilis, þyngjast frá því, sem verið hefur undanfarinn hálfan annan áratug, og til þess hefur hún án efa ekki ætlazt. Og þess vegna … (Gripið fram í.) Já, þetta er dæmi frá skattstofunni, reiknað af skattstofunni, sem ég nefndi í dag og þm. getur kynnt sér í handriti ræðu minnar hvenær sem er, þegar það mun liggja fyrir. Það, sem ég sagði, var, að það væri eflaust ekki hægt að ætlast til þess, að ágætur rithöfundur væri sérfróður um skattamál, við það hefði ég ekkert að athuga, en þá fyndist mér, að hún ætti ekki að vera eins stóryrt og hennar blað hafði sagt hana vera í ræðu sinni hér um daginn. Þetta var það, sem ég sagði og endurtek hér til að fyrirbyggja allan frekari misskilning varðandi þetta mál.

Það er líka algjör misskilningur hjá hv. þm., að í þeirri hugmynd, sem við höfum hreyft hér, þm. Alþfl., felist það, að maðurinn eigi að greiða konunni laun. Í henni felst það, að konu, þó hún vinni heima, skuli reiknaður tiltekinn hluti af tekjum heimilisins, sem er auðvitað allt annar hlutur. Það kom því miður fram í þessari ræðu hv. 4. landsk. þm., að hún hefur ekki enn áttað sig á því fyllilega, um hvað hér er raunverulega að ræða, og er ekkert við því að segja, það getur tekið tíma, að menn átti sig á jafnflóknum málum og þessi mál eru. Það er ekkert gagnrýnisefni af minni hálfu. En að hún hafi ekki fullkomlega áttað sig á því, um hvað fræðilegt vandamál er hér að ræða, segi ég af því, hvernig hún talar um sérsköttun, hvernig hún notar það hugtak. Hún notar það í þeirri merkingu, sem það hefur yfirleitt verið notað á Norðurlöndum og Vesturlöndum í skattamálaumr. Það, sem þar hefur verið um að ræða, er, að konan, sem vinnur utan heimilisins, greiði gjöld af sínum tekjum. Þetta er það vandamál, sem hefur verið rætt fram og til baka, kostir þess og gallar, á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu. Þetta er það, sem menn hér eiga við, þegar menn tala um sérsköttun hjóna. Að hvort hjónanna um sig greiði tekjuskatt og útsvar af sínum eigin tekjum. En það er mér nýmæli í þeirri hugmynd, sem ég og við fleiri höfum hér verið að mæla fyrir og ég er enginn höfundur að, heldur hefur líka verið rædd, og þó miklu minna, á öðrum Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu yfir höfuð að tala, að láta ekki eingöngu konur, sem vinna utan heimilis, njóta skattfríðinda, heldur láta skattfríðindin einnig taka til kvenna, sem vinna á heimili. Ekki að maðurinn greiði þeim laun, heldur að þeim yrði reiknaður tiltekinn hluti af tekjum heimilisins.

M.ö.o., hér er um þrjár reglur varðandi skattamál hjóna að ræða. Í fyrsta lagi þá reglu, sem hér hefur verið í gildi í næstum hálfan annan áratug, að veita sérstakan frádrátt vegna tekna, sem gift kona aflas utan heimilis. Það er sú regla, sem við höfum fylgt og ýmsar aðrar þjóðir hafa tekið upp.

Í öðru lagi er reglan um sérsköttun hjóna, sem hv. þm. gerði hér áðan að umtalsefni. Sem sagt, ef hjón afla sér bæði tekna hvort um sig, þá skuli þau hvort um síg vera sjálfstæður skattaðili. Þetta er sérsköttunin.

Þriðja hugmyndin er svo sú, að reikna giftri konu ákveðinn hluta af tekjum heimilisins vegna heimilisstarfanna, jafnvel þótt hún afli sér ekki sjálfstæðra tekna utan heimilisins. Þetta er sú hugmynd, sem er róttækust og erfiðast að framkvæma, en hún hefur engu að síður verið þrautrædd af skattafræðingum á Norðurlöndum og víðar í Vestur-Evrópu. Það er þessi hugmynd, sem við höfum leyft okkur að hreyfa hér, ekki í tillöguformi, vegna þess hve vandfarið er með hana og hversu margar hliðar eru á henni. Þess vegna höfum við beint því til hæstv. ríkisstj., að hún athugi einnig þessa þriðju hugmynd, ef svo mætti segja, þessa þriðju leið í skattamálum hjóna, og fyrir því hefur fengizt vilyrði af hálfu hæstv. fjmrh., að það skuli gert, og fyrir það er ég þakklátur, eins og ég tók skýrt fram í ræðu minni í eftirmiðdag.

Auðvitað þarf að taka tillit til mismunandi barnafjölda, eins og hv. þm. tók fram, og til fjölmargra annarra atriða. Það er verkefni þeirra sérfræðinga, sem fá þessa hugmynd til nánari athugunar. En það bar og vott um, að hv. þm. hafði ekki heyrt ræðu mína, að hún gerði mér upp þá skoðun, að ég gerði ráð fyrir því, að vinna konu hátekjumannsins væri meira metin en vinna konu lágtekjumannsins. Það er algjör misskilningur. Ég tók það þvert á móti skýrt fram, að einn meginvandinn í sambandi við þessa þriðju hugmynd er sá að finna út skynsamlega, hversu mikinn hluta af tekjum heimilisins á að áætla konunni sem tekjur fyrir hennar heimilisstörf. Auðvitað á það, að vera jafnt, auðvitað eiga allar konur að sitja við sama borð, allar heimavinnandi konur að sitja við sama borð.

Að því er snertir þá hugmynd, sem hreyft hefur verið af hálfu þm. Sjálfstfl., að leysa þetta vandamál með heimavinnandi konurnar þannig, að skipta skattskyldum tekjum til helminga, þá erum við í Alþfl. algjörlega andvígir þeirri hugmynd, vegna þess að við getum ekki fellt okkur við þá hugmynd, að málið verði leyst þannig, að t.d. tekjum manns, sem hefur í millj. kr. tekjur, verði skipt í tvennar 1/2 millj. kr. tekjur. Með því móti mundi vera dregið með óeðlilegum hætti úr stighækkun tekjuskattsins og það teljum við ekki vera réttlátt.

Það voru heldur harðir kostir, sem okkur þm. Alþfl. voru settir, að við ættum að hætta að hugsa um konur. Ég verð að segja, að af tvennu illu vil ég heldur að frú Svava viðhafi órökstudd stóryrði um skattamál en að við þurfum að hætta að hugsa um konur.

Að síðustu vil ég aðeins segja örfá orð í tilefni af ræðu hv. þm. Tómasar Karlssonar. Ég endurtek, að ég vil ekki efna til neinna almennra umr. um skattamál við hann á þessu stigi, það gefst nóg tilefni til þess seinna. Það kom raunar ekkert nýtt fram í ræðu hans, aðeins þetta vildi ég segja, af því að hann beindi til mín um það beinni fsp. Hann spurði, hvernig má koma því heim og saman, að við skulum flytja till. um að halda núgildandi frádráttarheimildum í lögum annars vegar og svo hins vegar að varpa fram hugmyndinni um þessa þriðju leið, ef ég svo mætti taka til orða til að gera mál mitt sem stytzt. Það er vegna þess, að þegar um 50% frádráttarheimild er að ræða, er um að ræða ákveðin lagaákvæði, sem í gildi hafa verið undanfarin ár. Ákvæði, sem meiningin er að halda í tekjuskattslögunum, en fella niður í útsvarslögunum. Og það er ósköp einföld afstaða, að segja: þetta á að vera eins og það hefur verið síðan 1957, þangað til ný og skynsamlegri skipan er fundin upp.

Ég er ekki reiðubúinn til að gera till. um það á þessari stundu, hvernig þessi nýskipan á skattamálum hjóna eigi að vera í einstökum atriðum, vegna þess hve gífurlega flókið mál þetta er. En þangað til athugun á því hefur farið fram og fundin er skynsamleg lausn, þá tel ég, að sú skipan eigi að haldast, sem verið hefur síðan 1957 og var mikil bót frá því sem áður var fram að þeim tíma, því að það var hróplegt ranglæti ríkjandi í þessum efnum. En það hef ég viljað benda á, að sú leið, sem hv. 4. landsk. þm. hreyfði, að ætla að leysa málið allt saman eingöngu á grundvelli sérsköttunar hjóna, þ.e. að láta hvort hjóna um sig greiða tekjur og útsvar af þeim tekjum, sem þau afla sér utan heimilisins, það leysir ekki málið, og það sýndi ég fram á með mjög einföldu dæmi hér í dag, sem ég held, að allir hv. þm. hafi skilið. Og ég er sannfærður um, að frú Svava Jakobsdóttir hefði skilið það líka, ef hún hefði bara heyrt það. Ég vona, að hún eigi eftir að lesa þetta í handriti ræðunnar, þá verður það áreiðanlega algjörlega ljóst, í hverju vandinn raunverulega er fólginn. Hann er þar skýrður og það á grundvelli mjög einfalds dæmis. En það er flókið að leysa þann vanda. Enginn skal játa það fúslegar en ég, að lausn vandans er ekki auðfundin. Hún er þvert á móti mjög torfundin. Ég hef lesið það mikið af umr. frá það mörgum löndum, að ég geri mér það algjörlega ljóst, að málið er torleyst. En það er ekkert ósamræmi í þessari afstöðu okkar að vilja annars vegar halda því, sem verið hefur, sem var þó bót frá því, sem áður var, en vilja jafnframt láta leita að skynsamlegri lausn á miklu vandamáli, sem er það, að koma á fullkomnu jafnrétti í skattgreiðslumálum kvenna, hvort sem þær eru giftar eða ógiftar, hvort sem þær vinna utan heimilisins eða á heimili. Þetta er kjarni málsins.