17.11.1971
Neðri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

74. mál, bann við losun hættulegra efna í sjó

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég get því miður litlar upplýsingar gefið um það á þessu stigi málsins, hvernig háttað yrði eftirliti, ef sú samþykkt næði fullgildingu, sem minnzt er á, að lögð voru drög að á Oslóarfundinum. Það kom fram á þeim fundi, að nokkur vandkvæði eru á því að ná samkomulagi um það, með hvaða hætti eftirlitið skuli framkvæmt. Því er þannig farið, þegar um það er að ræða, að margar þjóðir standi að því að setja reglur um að banna, að úrgangsefnum sé fleygt í hafið frá skipum á mjög víðáttumiklu hafsvæði, að það getur verið býsna flókið að koma því þannig fyrir, að allar viðkomandi þjóðir sætti sig við, að fullnægjandi eftirlit með þessu fari fram, og það liggur því engan veginn fyrir á þessu stigi málsins, að hægt sé að segja um það, hvernig þetta eftirlit yrði. En aðalatriði málsins eru þau, að þær þjóðir, sem sóttu ráðstefnuna í Osló, urðu ásáttar um að gera drög að alþjóðlegri samþykkt varðandi þessi mál. en það kom þó greinilega fram á þeim fundi, að enn telja þær, að allmikið sé óunnið í þessum efnum, bæði í sambandi við eftirlitsmálin og einnig að því leyti til, að talið er, að þarna þurfi að bætast í hópinn enn þá fleiri lönd en að þessum fundi stóðu. En það er enginn vafi á því, að með þessari ráðstefnu var stigið mjög þýðingarmikið og merkilegt skref í þessa átt. Út af fyrir sig er þetta frv., sem hér liggur fyrir, að miklu leyti óháð fundinum, sem haldinn var í Osló. Það er í framhaldi af áður gerðu samkomulagi á milli Norðurlandaþjóða og flutt hér, til þess að við gerum það fyrir okkar leyti, sem Norðurlandaþjóðirnar höfðu ákveðið að beita sér fyrir hver um sig, að setja hjá sér löggjöf, sem bannaði þegnum viðkomandi landa að sleppa í hafið hættulegum úrgangsefnum, sem gætu valdið mengun hafsins.

Ég vænti þess, að þegar þessum málum vindur nú nokkuð fram, þá komi það betur í ljós síðar, hvernig sú samþykkt kann að verða að fullu og öllu leyti, sem hér er minnzt á, að samkomulag hafi orðið um í meginatriðum á Oslóarfundinum, og þar með liggi það þá fyrir einnig, hvernig ætlað er að reyna að tryggja framkvæmdina á þessari samþykkt. En það er rétt að gera sér alveg grein fyrir því, að það eru margvísleg vandkvæði við það að tryggja framkvæmd á slíkum samþykktum. En um þetta mál get ég, því miður, ekki gefið frekari upplýsingar á þessu stigi.