26.01.1972
Neðri deild: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

137. mál, skipan dómsvalds í héraði

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Dómaskipunin á Íslandi þarfnast endurskoðunar. Það er raunar vikið að því í grg. þessa frv., að samþykkt þess þurfi ekki að tefja eða trufla slíka allsherjarendurskoðun. En slík endurskoðun dómaskipunar er nauðsynleg af mörgum ástæðum. Ein er sú, að það þarf að kanna það til hlítar, hvort sé æskileg skipan til frambúðar, að margir dómendur í landinu hafi önnur störf að aðalstarfi, eins og er með flesta bæjarfógeta og sýslumenn og hefur löngum verið. Það er mjög til athugunar, hvort ætti að taka dómsmálin þar frá og skipa sérstaka dómara, sem hefðu dómsstörfin að aðalstarfi og þá að sjálfsögðu með miklu stærri umdæmi en sýslurnar og kaupstaðirnir eru nú. Í öðru lagi er gerbreyting orðin hin síðustu ár á málafjölda og tegundum mála, og eru þar sérstaklega umferðarmálin, umferðarslysin, bóta- og tjónamál, sem þarfnast endurskoðunar, hvernig þeim yrði bezt fyrir komið. Þannig mætti nefna fjölmörg önnur rök fyrir því, að allsherjarendurskoðun á dómaskipun landsins er aðkallandi. En þetta frv. út af fyrir sig þyrfti ekki að tefja eða trufla neitt slíka endurskoðun.

Það, sem þetta frv. fer fram á eða felur í sér, er að ýmsu leyti til bóta, en þó þarfnast þar ýmis ákvæði nánari athugunar. Það er kunnugt mál. að sum dómaraembætti hér á landi eru ofhlaðin störfum, þannig að þau hafa ekki möguleika til þess að afgreiða mörg mál frá sér með þeim hraða, sem æskilegt væri. M.a. eru tvær dómsstofnanir hér í Reykjavík, sem kunnugt er, að vantar mannafla til þess að anna þeim mikla málafjölda, sem þangað berst. Þetta frv. bætir ekki úr þessum vanda, en hér á ég sérstaklega við embætti yfirborgardómara og yfirsakadómara. Hér er að vísu gert ráð fyrir að fjölga borgardómurum og sakadómurum, en fækka fulltrúum að sama skapi, þannig að starfskraftar aukast ekki, starfsmönnum fjölgar ekki. Út af fyrir sig yrði því engin breyting til bóta að því leyti, að embættum gætu skjótar og betur annað þeim miklu verkefnum, sem á þeim hvíla.

Þetta frv. felur það í sér, að í stað löggiltra dómarafulltrúa, sem nú eru, komi bæði í Reykjavík við þau embætti, sem hér eru, og utan Reykjavíkur dómarar, héraðsdómarar. Þetta er að vissu leyti spor í rétta átt, og það er kunnugt, eins og ég ætla, að hafi komið fram í ræðu hæstv. forsrh., að dómarafulltrúar hafa verið ákaflega óánægðir um langt skeið með sitt hlutskipti. Og óánægja þeirra beinist að tvennu, annars vegar því, að þeir eru löggiltir til að hafa dómsstörf með höndum, en hafa ekki sjálfstæða tilveru, heldur gera þetta á ábyrgð héraðsdómarans, og í annan stað er og hefur verið mikil óánægja með starfskjör og þeirra launakjör. Þetta hvort tveggja mundi náttúrlega lagast að vissu leyti með þessari breytingu, sem hér er á gerð. En þó er hér athugandi, að um leið og þetta frv. er, að mér skilst, flutt til þess að verða að einhverju leyti við óskum dómarafulltrúanna, sem ég tel mjög réttmætar, þá finnst mér þeir að sumu leyti hart leiknir. Í ákvæði til bráðabirgða er svo fyrir mælt, að þar sem héraðsdómurum verður fjölgað samkv. lögum, skuli jafn margar fulltrúastöður lagðar niður. Það er ætlunin, eins og sjálfsagt er, að auglýsa þessi nýju dómarastörf. Og það er tekið fram í grg., sem einnig leiðir af eðli málsins, að þeir fulltrúar, sem nú starfa í þessum fulltrúaembættum, hafa að sjálfsögðu engan forgang að þeim. Útkoman getur því orðið þessi: Fulltrúi, sem kannske um nokkurra ára skeið hefur starfað með prýði við dómaraembætti, sækir að sjálfsögðu um þetta nýja héraðsdómaraembætti þar. Það sækja fleiri og aðrir, sem kannske eftir eðlilegum reglum hafa meiri starfsreynslu og —aldur, og annar maður fær þetta nýja embætti. Það er því ekki aðeins, að fulltrúinn missi af þessari kjarabót að fá hið nýja embætti, heldur missir hann stöðuna líka, því að það á að leggja niður fulltrúastöðuna hans. Þetta finnast mér harðir kostir og óviðunandi með öllu. Ég vil benda á þetta til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, og ég vil ítreka það, að ég tel, að sem fyrst þyrfti að stofna til allsherjarendurskoðunar á dómaskipan landsins. Ég tel, að ýmislegt í þessu frv. sé til bóta, en þó séu ákvæði þar, sem þurfi mjög miklu nánari athugunar við. Og ég vil undirstrika það, að ég er því mjög hlynntur, að reynt verði að verða við óskum dómarafulltrúanna, sem þeir hafa borið fram að undanförnu og sem eiga að mínu áliti mjög mikinn rétt á sér.