17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

4. mál, kaup á skuttogurum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 550, undirritaði ég nál. Ég hreyfði því í n., hvort ekki væri eðlilegt, að áður en n. afgreiddi málið frá sér yrði reynt að fá frá rn. upplýsingar um áætlun, sem kynni að hafa verið gerð um væntanlegan rekstur þessara skipa. Það liggur alveg ljóst fyrir, að Alþ. þarf nú og á næstunni að veita verulega fyrirgreiðslu eða veita viðkomandi rn. heimild til verulegrar fyrirgreiðslu í sambandi við skuttogaramálið í heild, ef svo má segja, en ég hygg, að það kunni að skipta kannske milljörðum. sem þarna er um að tefla. Þetta eru mjög stórvirk og án efa mjög þýðingarmikil atvinnutæki í framtíðinni, og verður maður að vona, að þau beri þann árangur og skili bæði eigendum og þjóðarbúinu þeim arði, sem við vonum að verði. Ég vildi leyfa mér að fara fram á það við hæstv. sjútvrh., að hann við 3. umr. gerði ráðstafanir til þess, að fram kæmi hér á Alþ. grg. eða áætlun um rekstur skuttogara af hinum ýmsu stærðum. Ég hef séð grg. um stærri gerð þessara skipa, 811 tonna skipanna, en hún er það gömul. 3–4 ára gömul, að ekki verður á henni byggt. Það er vitað, að Landssamband ísl. útvegsmanna gerði rekstraráætlun um afkomu minni skipanna. Sú rekstraráætlun var nokkuð rædd opinberlega, og skilst mér, að þar hafi kannske hverjum sýnzt sitt. En ég mundi telja mjög eðlilegt, þar sem hér er um geysilega mikilvægt mál að ræða og þar sem ríkissjóður sjáanlega þarf á ýmsan veg að veita stórkostlegar ábyrgðir, jafnvel milljarða, eins og ég sagði áðan, að þá kæmi ráðh., áður en málið er endanlega afgreitt út úr Alþ., með upplýsingar um það, hvernig fróðustu menn telja, að afkoma þessara stórvirku atvinnutækja muni verða.