02.02.1972
Efri deild: 42. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

153. mál, umferðarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð hér út af þeim málum eða út af því atriði, sem laut að fræðslu í skólunum. Ég vil alveg sérstaklega lýsa yfir ánægju minni yfir því framtaki, sem hæstv. menntmrh. hefur séð til þess að komið væri á varðandi Ríkisútgáfu námsbóka um bækur í þessum efnum, því að skólana hefur tilfinnanlega skort þessar bækur og allir skólar, sem hafa haft heldur lakari fjárráð, hafa hreinlega engar bækur haft nema þá síðustu tvö árin, þegar umferðarráð hefur hlaupið að nokkru leyti undir bagga.

En það var annað atriði alveg sérstaklega, sem líka var komið inn á af hæstv. menntmrh. Það er í sambandi við þá umferðarfræðslu, sem fer fram í sjálfum Kennaraskólanum hjá því fólki, sem á svo að taka sér fyrir hendur að leiðbeina hinum ungu. Ég dreg það stórlega í efa, að þar hafi verið nógu vel að unnið að undanförnu, og a.m.k. var það svo í mínum skóla, að þegar til átti að taka og við áttum að fara að sinna þessu máli af töluverðri alvöru fyrir fjórum árum síðan, þá var eini maðurinn, sem treysti sér í þetta og gerði það með miklum sóma, réttindalaus kennari, sem var nýbúinn að taka meira próf og vissi þess vegna öllu meira um umferð og ýmislegt annað heldur en aðrir kennarar við skólann.

Og svo er það eitt atriði enn, sem mig langar til, úr því að þetta hefur verið framkvæmt svona myndarlega varðandi námsbækurnar, að koma á framfæri, og það væri beinlínis það atriði, ef hæstv. menntmrh. gæti beitt sér fyrir því, að umferðarfræðslan væri beint sett inn á stundaskrá skólanna, að hún kæmi beint þar inn, henni væri ætlaður þar staður af þeim, sem dæma um þessar stundaskrár. Á stundaskrá minni skólanna er þetta a.m.k. mjög erfitt. Það verður þá hreinlega að taka frá öðrum námsgreinum, þar sem stundafjöldi þeirra er svo knappur, og þessir skólar taka örugglega ekki þessa kennslu upp í nægilega ríkum mæli, fyrr en henni er þar alveg ákvarðaður skýrt afmarkaður staður.