18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh, óskaði eftir því í dag, þegar hann hóf mál sitt, að þetta mál mætti komast í gegnum Alþ. helzt í dag. En hæstv. ráðh. byrjaði með því að flytja langa ræðu og lesa upp úr skjölum. Aðrir hæstv. ráðh. hafa einnig haldið nokkuð langar ræður í þessu máli. Getur það ekki verið til þess að greiða fyrir framgangi þess eða flýta fyrir því, að það megi fram ganga. Ég hafði hugsað mér, að það væri eðlilegt að verða við óskum forsrh., þegar hann bar þessa ósk fram í dag, og taka ekki til máls við þessa umr. En þegar ég hafði hlustað á hæstv. ráðh. og málflutning þeirra, gat ég ekki orða bundizt, eins og þar stendur. Málflutningur þeirra var í senn ósanngjarn og óskynsamlegur. Ég verð að segja, að alveg eru undur, hvað þessir hæstv. ráðh. geta verið kotrosknir, þegar þeir standa hér á Alþ. frammi fyrir þingheimi og alþjóð með þetta frv. í höndum sér. Frv. er afleiðing af því, að gengi íslenzkrar krónu hefur verið fellt í því góðæri, sem nú er í landinu. Það eru engin dæmi til þess áður, að á Íslandi hafi gjaldmiðillinn verið felldur í góðæri, þegar ekkert bjátar á. Það eru engin dæmi til þess heldur í vestrænum löndum á friðartímum, að þetta hafi átt sér stað.

Þess vegna er það, að menn eru farnir að segja, að hæstv. ríkisstj. sé dæmalaus.

Menn leita eftir orsökum að því, hvernig á því stendur, að nú er verið að glíma við efnahagsvanda, þegar vel árar, bæði til lands og sjávar. Vissulega er það rétt, sem hv. 3. þm. Sunnl. sagði hér áðan og hafði eftir aflaskýrslum Fiskifélagsins, að aflamagnið hefur ekki minnkað, og þess vegna er ekki hægt að afsaka þessar gerðir með aflabresti, eins og hæstv. ráðh. leitast við að gera. Ekki er heldur hægt að afsaka þær með því, að verðlækkun hafi orðið á útflutningsafurðum þjóðarinnar. Verðlag á útflutningsafurðum landsmanna hefur aldrei verið hærra en nú, og verðmætisaukningin á útflutningnum er geysilega mikil. Ef við tökum árið 1970, þá er útflutningsverðmæti rúmlega 10000 millj. kr., 1971 11500 millj., og talið er, að það verði í ár 12500 millj. og e.t.v. meira, vegna þess að fiskverðið hefur enn verið að hækka, einnig lýsið og þó sérstaklega mjölið. En samt sem áður er verið að lækka gengi íslenzkrar krónu. Dettur nokkrum manni í hug, að það hafi verið rétt stjórnað, þegar þarf að grípa til þessara ráða eins og nú stendur á? Dettur nokkrum manni í hug, að það hefði þurft að lækka gengi íslenzkrar krónu með vaxandi útflutningsverðmæti þjóðarinnar og góðæri, ef ekki hefði verið illa stjórnað undanfarin missiri?

Það hefur oft verið vitnað til þess, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir hér í hv. Alþ., að það hefði engum dottið í hug að lækka gengi íslenzku krónunnar sumarið 1971 við stjórnarskiptin. Það voru vitanlega engar fréttir, þótt hæstv. forsrh. lýsti því yfir, vegna þess að allir vissu, að ástand þjóðmálanna var þannig þá, að slíkra aðgerða var ekki þörf. Þá var þjóðarhagur með blóma. Þá höfðu atvinnuvegirnir góða afkomu, og þá hafði fólkið í landinu fengið óumdeilanlega 19.5% kaupmáttaraukningu frá hausti 1970 til vors 1971. Þannig stóðu málin, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Hún hefur sjálf viðurkennt, að hún hafi tekið við blómlegu búi, að hún hafi fengið góðan arf frá fyrrv. stjórn. En hvað hefur gerzt á þessum þremur missirum? Hvernig stendur á því, að við erum nú að glíma við stóran efnahagsvanda? Hæstv. ríkisstj. hefur haft fjölmenna sérfræðinganefnd í sinni þjónustu frá því í sumar til þess að benda á leiðir til lausnar vandanum, ágæta menn, eins og hæstv. ríkisstj. hefur lýst þeim. En þeir voru ekki eins góðir að áliti fyrrv. stjórnarandstöðu, þegar hinir sömu menn voru að vinna fyrir viðreisnarstjórnina. Ég býst við því, að þessir ágætu sérfræðingar hafi unnið sitt verk af þekkingu og beztu sannfæringu. Og þeir hafa vissulega viðurkennt, að það sé efnahagsvandi á ferðum. Þeir hafa bent á, að stjórnarathafnirnar og stjórnarstefnan væri e.t.v. ekki í lagi.

Hæstv. ríkisstj. var bjartsýn, þegar hún tók við völdum, og það var eðlilegt. Það var eðlilegt, að hún væri bjartsýn, miðað við allar aðstæður. Vitanlega hafa þessir ráðh. ætlað sér að vinna störfin vel, ekki dettur mér annað í hug. En giftan hefur ekki verið með þeim. Það hefur elt þá lánleysi. Það er vissulega raunalegt, þegar mönnum er gefið tækifæri og aðstaða til þess að vinna vel, ef allt fer úrhendis og illa er gert, þegar vel mátti gera. Ég býst við því, að hæstv. ráðh., sem reyna í dag að vera kotrosknir og herða sig upp, séu ekki eins hraustir, ef það mætti skyggnast inn í þeirra sálarlíf. Mér dettur ekki í hug annað en að þeir sjái, að þeir hafi illa gert, og þeir hafi tilhneigingu til þess að iðrast þess að hafa ekki staðið betur í starfinu heldur en raun ber vitni.

Hæstv. ríkisstj. hefur frá því fyrsta, að hún kom til valda, unnið beint eða óbeint — við skulum segja óviljandi eða af fávísi — að því að kynda undir dýrtíðina. Það byrjaði strax á miðju sumri 1971. Það hefur verið sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi þá slegið upp veizlu mikilli og hún hafi bundið fyrir augun og ekki gert sér grein fyrir því, að þegar ausið er úr sjóðum, hvað sem þeir heita, þá tæmast þeir. Ríkissjóður stóð vel við stjórnarskiptin, og það var stefnt að því á árinu 1971 að hafa greiðsluafgang hjá ríkissjóði, eins og var á árinu 1970. Það var mikið af fjármunum einnig í öðrum sjóðum, sem nú eru tæmdir. Þegar átti að fara að afgreiða fjárl. fyrir árið 1972 á haustnóttum 1971, var stjórnin enn bjartsýn. Hún lagði fram fjárlagafrv. greiðsluhallalaust og sagði, að það mætti afgreiða fjárl. fyrir næsta ár án þess að leggja á nýja skatta. Þannig var það í okt., þegar frv. var lagt fram. En þá var ekki reiknað með, að það þyrfti að borga fyrir veizluna, sem byrjaði í júlímánuði. Hún stóð í 5 mánuði af árinu, og hún kostaði geysilegar fjárfúlgur. Það var þess vegna, sem það kom á daginn seint í nóv. og í des. 1971, að það þurfti að afla fjár til þess að fá fjárl. greiðsluhallalaus 1972, a.m.k. á pappírnum, þótt hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert sér grein fyrir því í okt. Fjárl hækkuðu 1972 um 6500 millj. kr. eða 50% frá því árið áður. Hæstv. ríkisstj. vildi kenna fyrrv. ríkisstj. um þetta. Fyrrv. fjmrh. gerði grein fyrir því, hvað það var, sem núv. ríkisstj. hafði tekið við vegna aðgerða fyrrv. stjórnar. Það voru um 1000 millj. kr. En umfram tekjur fjárl. 1971 höfðu orðið um 1700 millj. kr., svo að það var ekki erfitt að taka við því, — að fá 1700 millj. til þess að borga 1000 millj. En ekkert dugði hæstv. ríkisstj. Fjárl. hækkuðu, og hæstv. ríkisstj. og málgögn hennar kenndu fyrrv. ríkisstj. um.

En nú mundi einhver vilja spyrja: Ætlar hæstv. ríkisstj. að reyna að kenna fyrrv. ríkisstj. nm hækkun fjárlaga ársins 1973 frá árinu 1872? Nei, hæstv. ráðh. reyna það ekki. Þeir vita, að það er tilgangslaust. En þar sem þeir reyna ekki að kenna fyrrv. ríkisstj. um hækkun næsta árs fjárl., geta þeir engum öðrum kennt en sjálfum sér. Þetta er einn vitnisburður um það, hvernig þessir hæstv. ráðh., sem í eðli sínu eru góðir menn, hafa unnið öfugt og illa og skapað erfiðleika og öngþveiti, sem við nú erum að basla við að greiða úr. Þetta er ekkert gamanmál. Það er ekki eðlilegt, þótt hæstv. iðnrh. reyni að brosa, bros hans er ekki eðlilegt, heldur er það mjög kuldalegt.

En hæstv. samgrh. talaði hér af hreinskilni áðan, — ég skrifaði það eftir honum, — hæstv. ráðh. sagði: Ríkisstj. er e.t.v. völd að gengislækkuninni nú. Hæstv. ráðh. kinkar kolli og samþykkir, að hann hafi sagt þetta, enda var það rétt skrifað: e.t.v. völd að því, að við þurfum að fara í gengislækkun nú. — En ég var ekki samþykkur að öllu leyti því, sem hæstv. ráðh. sagði á eftir. Hann sagði, að það væri vegna mikilla kauphækkana. Það má vel vera, að það megi rekja það að einhverju leyti til kauphækkana. En ég held, að kauphækkunin sjálf, grunnkaupshækkunin, sé ekki völd að þessu. Ef dýrtíðarhjólið hefði ekki verið látið snúast hömlulaust og vísitalan vinda upp á sig í heilt ár, án þess að nokkuð væri gert, þá held ég, að það hefði verið hægt að sigla fram hjá efnahagsvandanum þrátt fyrir kauphækkunina. Þá hefði fólkið fengið kaupmáttaraukningu á árinu 1972, eins og það fékk 1970–1971. En vegna verðbólgunnar og aðgerðaleysis ríkisstj. í dýrtíðarmálum hefur þessi kauphækkun, sem átti að verða kaupmáttaraukning og kjarabót, runnið út í sandinn að langmestu leyti. Hafi það ekki gerzt að fullu nú, þá er hætt við, að það litla, sem eftir er, fari með þeim aðgerðum, sem nú er verið að gera. Ég held satt að segja, að það hefði vel verið unnt að halda vísitölunni niðri, eins og gert var frá hausti 1970 fram í júlí 1971, ef ríkisstj. hefði beitt skynsamlegum aðgerðum, eins og fyrrv. ríkisstj. gerði.

Hæstv. samgrh. nefndi kauphækkun til sjómanna og sagði, að hún væri 30%. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé rétt, sem hæstv. ráðh. sagði. En mig undrar það ekkert, þótt sjómenn fái 30% hækkun, á sama tíma sem fiskverðið hefur hækkað í markaðslöndunum um 35–40%. Það hefur hækkað um það á þessum tíma. Það er sannarlega ekkert hrósvert, þó að sjómenn hafi notið þess að einhverju leyti, og hefði ekki átt að setja efnahagskerfið úr skorðum, þótt sjómenn nytu þess, að fiskverð hækkaði erlendis. Þessi rök hæstv. ráðh. eru þess vegna út í hött, og satt að segja er ég dálítið undrandi á því, að hann skuli bera þetta fram. Kaupgreiðsluvísitalan er 117 stig, eins og menn vita, en í rauninni er hún talsvert meira. Með verðstöðvunarl. í sumar var frestað 2.5 vísitölustigum, með því að Alþýðusambandið lét það átölulaust, þótt það biði til áramóta. Sama gerðu bændur. Þeir létu það átölulaust, að frestað væri að endurskoða verðgrundvöll búvara til áramóta, enda þótt fjármagnskostnaður hjá bændum hafi aukizt mikið upp á síðkastið og er augljós, eftir að nýja fasteignamatið tók gildi. Það verður því að ætla, að nú við áramót komi 2.5 stiga vísitala, sem var geymd s.l. sumar, og hækkun búvara, sem einnig var geymd til áramóta. Má því ætla, að vísitalan sé nú raunverulega 122 stig.

Vísitalan fer óhjákvæmilega upp við þær aðgerðir, sem nú er verið að gera, og dýrtíðin hlýtur að magnast. Það hefur verið reiknað út, hvað þetta kynni að verða á tímabilinu janúar–júlí 1973. Það er gert ráð fyrir því af reikningsfróðum manni, að kaupgreiðsluvísitalan mundi verða 126 eða 127 stig á miðju næsta ári með sömu niðurgreiðslum og nú gilda. Þá eru það 9 eða 10 stig, sem þarf að greiða niður til þess að halda kaupgreiðsluvísitölunni óbreyttri. Nú sögðu hæstv. ráðh, í dag, að það mundi kosta 1000 millj. kr. að halda vísitölunni niðri. Að vísu koma þessi 3 eða 10 stig ekki á allt árið, en á meiri hluta ársins, að ég hygg. Ég veit ekki nákvæmlega, hvað kostar að greiða niður hvert vísitölustig til jafnaðar, þetta hefur breyzt dálítið á síðustu tveimur árum, en mér var sagt í dag, að það mundi vera til jafnaðar 200 millj. Ég vil ekki ábyrgjast það. Segjum, að það væri eitthvað minna og að þessi 9–10 stig séu ekki allt árið, heldur sem svarar 3/4 úr ári. Segjum, að það væru bara 7–8 stig, sem þyrfti að greiða allt árið, og hvert stig kostaði ekki nema 200 millj. kr. Þá verða þetta 1400–1600 millj. kr. Til viðbótar kemur niðurgreiðsla skv. brbl. um verðstöðvun til áramóta. Þá upphæð vantar einnig í fjárlfrv. Mér er alveg ljóst, að þetta getur munað 100, kannske 200 millj. En þessi stærðargráða er það sem næst. Verði vísitalan ekki greidd niður, hækkar dýrtíðin og atvinnuvegirnir geta stöðvazt.

Útgerðarmenn og aðrir, sem eru kunnugir útgerð og fiskverkun, hafa fullyrt við mig í dag, að þessi gengislækkun sé ekki nóg fyrir útveginn. Það eru ekki mín orð, og ég vil ekkert fullyrða um það. Ég segi aðeins það, sem kunnugir menn telja vera. Talið er, að bátaflotinn geti ekki farið á sjó eftir áramótin, ef hann fær ekki eitthvað meira en þessa gengislækkun, og það muni verða taprekstur hjá frystihúsunum þrátt fyrir gengisbreytinguna, ef ekkert kemur annað til.

Nú sagði hæstv. samgrh. hér í kvöld, — þegar hann var að lýsa valkostunum og umr. í ríkisstj. um þessi mál, að hann hefði ekki viljað dansa eftir þeirri leið, sem verst var. Eftir að hann hafði sagt þetta, lýsti hann því, hvaða leið hæstv. forsrh. hefði viljað fara. Það var að hækka söluskattinn um 5% og taka innflutningsgjald. Þetta var versta leiðin, sagði hann. Hæstv. ráðh. sagði þetta. (Félmrh.: Það var Alþýðubandalagsleiðin með innflutningsgjaldið) — Alþb.-leiðin, jæja. Þá hafa báðir flokkarnir, sem styðja hæstv. samgrh., viljað fara verstu leiðina. Nú var hæstv. samgrh. að lýsa sínum samstarfsmönnum með þessu. Hann vildi ekki dansa verstu leiðina. Þess vegna kom hann með gengislækkun. En það skyldi nú ekki vera, að bæði Alþb.- menn og framsóknarmenn hafi fengið nokkuð af því, sem þeir hafa óskað, söluskattinn eða yfirfærslugjaldið, uppbótaleiðina? Það skyldi ekki vera, að hæstv. ríkisstj. ætli að gera hvort tveggja, að lækka gengið og fara í uppbótakerfið? Það kemur á daginn, hvað verður. En ef útgerðinni nægir ekki gengislækkunin, þá verður hún að fá eitthvað meira, því að útgerðin verður þó að fara af stað. Hæstv. sjútvrh. hefur oft sagt, að það væri óverjandi, að bátaflotinn færi ekki af stað strax við áramót. (Sjútvrh.: Ég vil segja það enn þá.) Og þá er það, að hæstv. viðskrh. fær ósk sína uppfyllta að halda uppbótakerfinu við, a.m.k. að einhverju leyti, þrátt fyrir gengislækkunina, ef það er rétt, sem reyndir útgerðarmenn halda fram í sambandi við þetta. Þá er það ekki gæfulegt, sem er að gerast. Það hleður allt utan á sig.

Ekki ætla ég, eins og hv. 7. þm. Reykv., að spá neitt um það, hvenær hæstv. ríkisstj. leggur upp laupana, hve lífdagar hennar verða langir. En eitt vil ég segja, að það er alvarlegt mál fyrir íslenzku þjóðina, ef þessi hæstv. ríkisstj. ætti eftir að sitja lengi og stjórna eins og hún hefur gert að undanförnu. Ég get vel trúað því, að hæstv. ríkisstj. reyni að sitja svo lengi sem sætt er. Hún ætlar sér að gera bráðabirgðaráðstafanir í ýmsum sviðum. Hún er að ýta þungu hlassi á undan sér, og hún getur það eitthvað, næstu mánuði, kannske lengur. En þetta hlass verður þungt og óviðráðanlegt, áður en lýkur. Hæstv. ríkisstj. mun gera það, sem hún getur, til þess að innheimta skatta, tolla og álögur af þjóðinni til að viðhalda sem lengst því stjórnarfari, sem nú er hafið í þessu landi.

Hæstv. ráðh. hafa talað um, að hún væri allt annars eðlis, þessi gengislækkun, heldur en gengislækkanir viðreisnarstjórnarinnar. Þetta er rétt. Hún er allt annars eðlis. Viðreisnarstjórnin hefði aldrei farið að lækka gengið á góðæristímum, og það er hraustleikamerki hjá hæstv. ráðh., þegar þeir eru að tala um það sem einhverja sök viðreisnarstjórnarinnar, að gengisskráningin var leiðrétt 1960 eftir valdaferil fyrri vinstri stjórnarinnar, sem ýtti á undan sér hlassinu, á meðan hún gat, og yfirfærslugjaldið var orðið 55%. í bönkum var krónan skráð á margföldu gengi. Þegar viðreisnarstjórnin tók við og fór að byggja á rústum vinstri stjórnarinnar og skrá gengið eins og allar menningarþjóðir gera, skrá það rétt, þá er það notað sem sakargift á viðreisnarstjórnina.

Þá er það gengislækkunin 1961. Það var kallað hérna fram í. Það hefur verið upplýst svo oft, og ég veit, að einnig sá, sem kallaði fram í, eða þeir vita, að sú gengislækkun byrjaði með gengisbreytingu pundsins og of miklum kostnaði, sem orðinn var við framleiðsluna.

Svo er það 1967 og 1968, þegar útflutningsverðmætið minnkaði um nærri 50%. Hvaða ráðstafanir mundi núv. hæstv. ríkisstj. gera, ef það vildi aftur til eitthvert slíkt óhapp sem þá var? Við skulum vona, að það komi ekki fyrir aftur. En hvað mundi núv. ríkisstj. gera, ef slíkt óhapp kæmi, þegar hún þarf að ráðast í það að lækka gengið, á meðan útflutningsverðmætið er stígandi, eins og nú er, og vel árar á flestum sviðum? Það verður að viðurkenna það, — enda veit ég, að hæstv. ráðh. og stjórnarflokkarnir gera það sín á milli, — að það var ekki mögulegt annað 1967 og 1968 heldur en að lækka gengið, — viðurkenna það, vegna þess að það hafði lækkað vegna rýrnunar á aflaverðmæti og geysilegrar verðlækkunar á útflutningsafurðum.

Það hefur verið rætt um tekjuþörf ríkissjóðs, og það kemur í ljós, hve mikil hún er, sennilega á morgun. Hæstv. fjmrh. hefur lofað að láta a.m.k. fjvn. fá lista yfir tekjuöflunarráðstafanir fyrir ríkissjóð. En það er vonandi, — ef fjárl. á að afgreiða á þessum dögum fyrir jólin, sem ég sé erfiðleika á, en reynslan sker úr því, að hæstv. ríkisstj. hafi þá gert sér grein fyrir tekjuþörfinni fyllilega, gert sér grein fyrir því, hversu mikils fjár þarf að afla, til þess að fjárl. geti orðið greiðsluhallalaus. Ég skal ekki fara nánar út í það mál. Það gefst tækifæri til þess við fjárl., þegar gögnin hafa verið lögð á borðið. En það fer ekki hjá því, að fjárl muni verða 22–23 þús. millj. kr. það minnsta, og er það þá meira en 100% hækkun frá fjárl. ársins 1971. Það er enginn vafi á því, að þetta er met í hækkunum á fjárl. Slíkt hefur aldrei gerzt á Íslandi áður, og ég hygg, að slíkt hafi aldrei gerzt í nokkru öðru landi á friðartímum. Að þessu leyti á hæstv. ríkisstj. met í verðhækkunum. Því miður er útlit fyrir, að þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. nú er að gera, verði til þess að kynda undir áframhaldandi verðbólgu og leiði til kjaraskerðingar fyrir almenning.

Hæstv. samgrh. spurði að því, hvað stjórnarandstaðan mundi leggja til að gera, hvort hún væri á móti því, sem hér er um að ræða, eða ekki. Ég hef lýst því, að við hefðum ekki viljað setja fótinn fyrir þetta frv. En krónan hefur verið felld, og því verða ekki greidd atkv. um það. Við viljum sjá öll gögn á borðinu. Þau hafa ekki komið enn. Það mun ekki standa á okkur sjálfstæðismönnum að segja okkar skoðun á málinu, hverju við fylgjum og hverju við erum á móti. En hæstv. ráðh., sem voru 12 ár í stjórnarandstöðu, ættu að minnast þess, að þeir fengust aldrei til þess að gera nokkra till. í efnahagsmálum á 12 ára tímabili. Það er kokhreysti hjá sömu mönnum að krefjast þess skilyrðislaust af stjórnarandstöðunni nú, að hún komi með gagntill., áður en öll gögn hafa verið lögð á borðið. Þótt stjórnarandstaðan hafi fengið gögn frá valkostanefndinni, þá er þar ekki allt, sem við þurfum að sjá. Það kemur kannske á morgun. Hæstv. ráðh. skyggnast inn í fleira en við höfum aðstöðu til að gera, óbreyttir alþm. En það væri gott fyrir hæstv. samgrh. og fleiri hæstv. ráðh. að minnast þess, að þeir fengust aldrei til þess að gera till. í efnahagsmálum, á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu í 12 ár. (Gripið fram í.) Það er alveg öruggt, að sjálfstæðismenn taka afstöðu. Það þarf hæstv. samgrh. ekki að óttast. Við munum taka afstöðu, og við munum taka ábyrga afstöðu.

En það er sú hætta á ferðum nú, að það sé nokkurn veginn sama, hvers konar till. hæstv. ríkisstj. fær í hendur. Jafnvel þótt þær væru ágætar, þá er hætt við, að framkvæmdin verði þannig, að þær verði vondar í reynd. (Gripið fram í: Við erum svo óvanir að framkvæma. gengislækkun, að við verðum að fá menn að láni.) Óvanir? Eitt er víst, að hæstv. ráðh. hefur ekki heppnazt að gera það, sem nauðsynlegt er að gera. Og þegar hv. 3. landsk. þm. játar mistökin hreinlega frammi fyrir þingheimi, þá er það viðurkenning, sem síður verður rengd heldur en þótt hún kæmi frá stjórnarandstöðunni, því að hv. 3. landsk. ætlar að styðja hæstv. ríkisstj. þrátt fyrir skyssurnar. Það er svipað því, sem einn hv. þm. sagði hér á síðasta ári, þegar var verið að afgreiða fjárl.: Mér er alveg sama, hvað þessi fjárlög eru vitlaus, ég ætla samt að greiða atkv. með þeim. — En ég hefði nú unnað kunningja mínum hv. 3. landsk. betri kosta en að styðja hæstv. ríkisstj., hvað sem hún gerir.

Það er ljóst, og það er ekki hægt fyrir það að þræta, að þeir erfiðleikar, sem við erum nú að glíma við, eru heimatilbúnir. Það getur enginn með sannfæringu fyrir það þrætt, vegna þess, að þegar hæstv. ríkisstj. kom í valdastólana, voru atvinnuvegirnir í blóma og þjóðarbúið var gott, ríkissjóður með góðan fjárhag og aðrir sjóðir með mikla fjármuni. (Grípið fram í: Og þó var nefnd hrollvekja.) Og síðan hefur verið góðæri. Ja, hrollvekjan var fyrir hendi. Ef ekki væri haldið rétt á málim, þegar verðstöðvuninni lauk haustið 1971, þá hlaut að vera hrollvekja fram undan, ef ekki væri áfram haldið að hamla gegn verðbólgu. Hrollvekjan kom með núv. stjórn, það held ég, að engum geti dulizt. Það er hætt við því varðandi þær efnahagsráðstafanir, sem nú er verið að gera, að framkvæmdin fari þannig úr hendi, að vandinn aukizt. Loforð hæstv. ríkisstj. hafa ekki verið efnd, og það hefur verið á það minnt, að hún hafi lofað því að lækka ekki gengið. Hæstv. forsrh, kannast ekki við, að það hafi verið meint í stjórnarsamningnum, að ríkisstj. ætlaði alls ekki að lækka gengið, þótt hún sæti lengi að völdum og hvernig sem áraði. Látum það vera, hæstv. ráðh. segir að það beri að skilja stjórnarsamninginn þannig. Flestir munu hins vegar þó skilja stjórnarsamninginn þannig, að í honum felist loforð um að lækka ekki gengið á kjörtímabilinu, ef stjórnin situr svo lengi. En látum það vera og vitnum aðeins í það, sem hæstv. ráðh. hafa sagt síðan frammi fyrir alþjóð í sjónvarpi, í hljóðvarpi, og það, sem er birt eftir ráðherrunum innan tilvitnunarmerkja í blöðum. Fyrir það verður ekki þrætt. Nú skal ég ekki deila sérstaklega á hæstv. ríkisstj. fyrir það, þótt hún bregðist þessu loforði, vegna þess að það er í svo mörgum öðrum málum, sem hún hefur einnig brugðizt og ekki staðið við, eins og að halda verðbólgunni niðri, þannig að það verði ekki meiri verðhækkanir hér en í nágrannalöndunum, að bæta kjör almennings, auka kaupmáttinn um 20% á 2 árum, — það sjá vist allir, að það hefur verið svikið, ekki verið efnt. Hæstv. ráðh. eru að mestu hættir því að hrósa sér af kaupmáttaraukningunni, sem þeir voru svo oft að tala um fyrir hálfu ári.

Það er nauðsynlegt, að hæstv. ráðh. skoði huga sinn og geri sér grein fyrir því, að það fylgir því ábyrgð að vera í ríkisstj. Ríkisstj. hefur ekki tekizt að vinna að málunum á farsælan hátt, eins og hún hefði viljað og eins og hún hefur lofað. Það er nauðsynlegt, að núv. ráðh. hætti stjórnarstörfum sem allra fyrst. Það er nauðsynlegt, að þeir taki hug sinn til endurskoðunar og gefi þjóð inni tækifæri til þess að kjósa nýjan þingmeirihluta, svo að unnt verði að mynda starfhæfa meirihlutastjórn í landinu sem allra fyrst.