19.12.1972
Efri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

131. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það er öllum dm. vitanlegt, að tíminn, sem gefst til þess að gaumgæfa þetta frv., er miklu minni en æskilegt hefði verið, eins og fram kom raunar í máli frsm. meiri hl. Hann hafði orð á því, að það hefði verið nauðsynlegt að hafa lengri tíma til þessara hluta, m.a. til þess að átta sig á þeirri stefnu, sem bæri að taka um fjáröflun til vegasjóðs. Þetta má ugglaust til sanns vegar færa. En ég vil að það komi fram í þessu sambandi, að ég álít von á því, að þm. hafi almenn verið búnir að gera sér grein fyrir því, að öllu lengra yrði ekki haldið á þeirri hraut að fjármagna vegaframkvæmdir með vegasköttum og að það yrði ekki gripið til annars ráðs en þess, að ríkissjóður eða hinn almenni sjóður landsmanna fjármagnaði þær framkvæmdir í ríkari mæli en verið hefði, enda hefur verið að því stefnt á undanförnum árum. Ég mun koma nánar að þessu atriði síðar.

Vegna þess, hversu tími hefur verið hér naumur, hefur þannig tekizt til. að nál. minni hl. samgn. liggur ekki enn fyrir prentað, en vegna þess að ég hef hér afrit að því, tel ég rétt að ég lesi nál. og kynni það deildarmönnum:

„Samgn. hefur rætt frv. á einum fundi og fengið til fundar við sig vegamálastjóra og ráðuneytisstjórann í samgrn., sem gáfu n. svör við margvíslegum spurningum nm.

Minni hl. n. telur, að svo langt sé gengið í skattlagningu á bifreiðanotkun og bifreiðakaup, að ekki megi ganga lengra í því efni, þar sem bifreiðin er mikilvægt þjónustutæki alls almennings í landinu og aukin skattheimta muni því koma harðast niður á þeim, sem sízt hafa bolmagn til að standa hana af sér. Hækkun þessa skatts, 2 kr. hækkun benzíngjalds og tilsvarandi hækkun þungaskatts og gúmmígjalds, mun nema um 230 millj. kr., en þessi breyting mun leiða af sér frekari hækkanir aðrar, sem renna í ríkissjóð, en um þær hækkanir er ekki vitað enn, en líklegt er, að útsöluverð á benzíni verði 20 kr. á litra. Við viljum minna á það, að ríkisstj. hefur nýlega hækkað innflutningsgjald af bifreiðum, og rennur sá skattur beint í ríkissjóð. Auk fyrrnefndrar hækkunar munu bifreiðar hækka enn í stofnkostnaði vegna þeirrar gengislækkunar, sem þegar hefur verið ákveðin. Þannig gefur umferðin meiri tekjur í ríkissjóð en nokkru sinni fyrr. Það er skoðun okkar, og fellur hún saman við skoðun allra þeirra, sem gerðu tekjuöflun vegasjóðs að umræðuefni við gerð vegáætlunar 1971, að ekki væri fært að hækka innflutningsgjald af benzíni til þess að standa undir vaxandi vegaframkvæmdum, heldur yrði til að koma aukið fjárframlag úr ríkissjóði, enda ætti það að vera fært, ef litið væri til þeirra tekna, sem hann hefði í vaxandi mæli tekið til sín af umferðinni.

N. gat ekki náð samstöðu um afgreiðslu frv. og leggur undirritaður minni hl. til, að frv. verði fellt.“

Undir nál rita: Steinþór Gestsson, Jón Árm. Héðinsson, Ásgeir Pétursson.

Ég sagði hér áðan, að ég teldi, að stefnan í fjáröflun til vegasjóðs hefði verið mörkuð fyrr, og við þyrftum þess vegna ekki lengi að velta vöngum yfir því núna, hvaða stefnu við ættum að taka. Ég vil minna á það í því sambandi, að þegar unnið var að gerð vegáætlunar 1971, viðhafði þáv. samgrh. þessi orð 19. marz 1971: „Ég hygg, að fæstir leggi það til að auka tekjur vegasjóðs á næsta hausti með því að hækka benzíngjald og þungaskatt. Það væri ekki skynsamlegt.“ Auk þess kom það fram í ræðu hans, að hann teldi sjálfsagt að hækka framlag ríkisframlög úr ríkissjóði, og hefur þeirri hækkun verið fylgt síðan.

Ég vil minna á, að þegar benzínskattur eða benzíngjald var hækkað síðast í des. 1970, við hafði núv. hæstv. fjmrh. þessi orð í ræðu, sem hann flutti við 1. umr. um vegalögin, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil svo enda þessi orð með því að endurtaka það, að ég tel, að það eigi að stefna að því, að ríkissjóður leggi fram meira fé til vegamála, vegna þess að vegagerð í landinu er það arðsöm fjárfesting fyrir ríkissjóð, að hann gæti þess vegna lagt þar meira til.“

Þetta geri ég ráð fyrir, að ýmsum komi dálítið á óvart, að vegagerð sé talin arðsöm framkvæmd fyrir ríkissjóð og þess vegna beri að leggja á það áherzlu, að hann leggi meira til þessara mála, en ugglaust má þetta til sannsvegar færa.

Við síðari umr. um vegáætlunina 5. apríl 1971 viðhafði talsmaður stjórnarandstöðunnar þessi orð einnig:

„Það er ekki heldur rétt stefna að gera hvort tveggja í senn að hafa há aðflutningsgjöld á bifreiðum og háa skatta á rekstrinum.“

Ég vil benda á þetta til þess að undirstrika það, sem við í minni hl. n. segjum í nál., að við teljum, að svo langt hafi verið gengið á það lag núna nýlega með innfl.gjaldi á bifreiðar og við þær ráðstafanir, sem áformaðar eru, muni hækka svo mikið verð á bílum, að það sé hæpið að fara út í það að auka skatta á umferðina, eins og það er kallað. Ég vil geta þess einnig, að þegar vegáætlunin var gerð 1971, ræddu talsmenn stjórnarandstöðunnar eðlilega um tekjur vegasjóðs. Þá sagði m.a. talsmaður stjórnarandstöðunnar þessi orð í ræðu 19. marz, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirstaðan undir þeim framkvæmdum, sem af vegagerðinni verða gerðar á næstunni, er fjármagnið, eins og ég sagði áðan, og því verður að ná með því, að ríkissjóður láti vegagerðinni meira í té af þeim tekjum, sem umferðin færir nú. Hjá þessu verður ekki komizt, og það má vel vera, að skynsamlegasta leiðin í því, á meðan verið er að færa þetta til baka, verði sú, að ríkissjóður taki að sér lán vegna vegagerðarinnar og dreifi þannig byrðinni á lengra tímabil, enda gæti það komið vegasjóði að sömu notum, en að marka stefnu um það, á hve löngu tímabili það taki, að vegasjóður fái allar tekjur af umferðinni, það verður að gera nú þegar og mæta því m.a. í sambandi við lán til vegagerðarinnar.“

Þetta sagði hæstv. núv. fjmrh. 19. marz 1971. Ég er nú ekki svo kröfuharður, að mér detti í hug að fara fram á það, að ríkissjóður skili öllum þeim tekjum, sem hann hefur nú af umferðinni. Ég held, að það sé á engan hátt eðlilegt að fara fram á slíkt, því að það er alveg sama hvers konar umsetning það er með þjóðinni, að hana verður á einhvern hátt að skattleggja til ríkisins, til þess að ríkið geti staðið undir þeirri þjónustu, sem hinir einstöku málaþættir þurfa að fá hjá því opinbera. Bílaeigendur og vegirnir, umferðin, þurfa nokkra opinbera þjónustu, og því ætla ég ekki að fara fram á það, að ríkissjóður skili öllu því fé, sem hann fær af umferðinni, það finnst mér allt of djúpt tekið í árinni, en ég vil leggja á það áherzlu, að það er eðlilegt, að ríkissjóður leggi meira af mörkum til þessara sameiginlegu þarfa borgaranna heldur en hann gerir nú, og ég fellst á þá skoðun hæstv. fjmrh. 19. marz 1971, að það sé mjög eðlilegt að jafna þetta átak með því að taka lán, meðan mestu framkvæmdirnar standa yfir, til þess að jafna það átak, sem þetta yrði ríkissjóði, ef hann þyrfti að leggja í þetta í einu lagi.

Árið 1971 mun ríkissjóðsframlagið hafa verið 125 millj. kr., ef ég man rétt, — ég hef ekki þessar tölur, en það væri ugglaust hægt að fá þær upp, — en ég vildi segja annað, að það er ekki aðalatriðið, hvað var gert á einhverju ákveðnu árabili, heldur er hitt aðalatriði, að hverju við eigum að stefna og hvernig við eigum að standa að greiðslum nú. Ég vil vekja athygli á því, að með þessu 2 kr. gjaldi, sem verið er að leggja á benzínið að þessu sinni, er ekki verið að bæta hag vegasjóðs á nokkurn hátt. Hann á ekki að fá krónu meira en hann hefði annars fengið. Það er gert ráð fyrir því í vegáætluninni, að þessar framkvæmdir, sem kosta nálægt því þessa upphæð, séu fjármagnaðar með lántökum á vegum ríkisins, svo að það er ekki hægt að tala um, að það sé verið að draga úr framkvæmdum hjá vegagerðinni, þó að lagt sé á móti því að fara slíka fjáröflunarleið sem þessa.

Ég kom inn á það lauslega í nál., að útlit væri fyrir það, að benzínverðið mundi verða um 20 kr. á lítra, þegar upp væri staðið eftir þessa lækkun. Þetta er tala, sem ekki er hægt að fullyrða, að sé örugglega rétt. Frsm. meiri hl. gat um, hvernig þessar hækkanir ættu sér stað, og eru þær upplýsingar vafalaust réttar. Hækkanir, sem verða vegna beinna áhrifa þessara frv., eru, eins og hann sagði, á milli kr. 2.30 og 2.40 á lítra, en hins vegar er líklegt, að aðrar orsakir verði til þess, þegar gengisfellingin er komin með í dæmið, að þá verði verðið tæpar 20 kr., 19.87 eða eitthvað því um líkt, sem gert er ráð fyrir. Og ég vil halda því fram, að það muni hafa snöggt um minni áhrif á hag almennings í landinu að fara að þeim ráðum, sem gert er ráð fyrir í vegáætluninni, en að hverfa að því, sem er lagt til í þessu frv.

Ég tel, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð enn um þetta. Ég held, að málið liggi ljóst fyrir, og á að vera mjög auðvelt fyrir alla dm. að gera sér hugmynd um, hvernig málið stendur. Þetta er aðalefni málsins, þ.e. fjáröflunin í þessu skyni, sem ég hef hér minnt á. En mér þykir rétt að minna enn á nokkur orð úr ræðu hæstv. núv. fjmrh., sem hann flutti 19. marz 1971, þar sem hann segir í lok ræðu sinnar:

„Meginmálið, undirstaðan undir þessu öllu saman er þó það, að hér verði fylgt þeirri efnahagsstefnu, að stöðugra verðlag verði í landinu og að gengisbreytingarnar tvöfaldi eða þrefaldi ekki erlendu lánin, sem vegagerðin hefur nú á sinni könnu og mun hafa á næstu árum. Ef svo fer, þá horfir illa um vegagerð okkar. Þess vegna er það stærsti þátturinn í vegamálum þjóðarinnar.“

Ég vil nú ekki segja, að þetta sé stærsti þátturinn í vegamálum þjóðarinnar, en þetta er mikilvægt atriði. Þetta ræður að verulegu leyti þeim framkvæmdahraða, sem við getum viðhaft á hverjum tíma í vegagerðinni, einkum að því er lýtur að því, sem þarf að kaupa til þeirra erlendis frá, og eftir því sem þenslan eykst í landinu sjálfu og spennan, verður hvað erfiðara sem gengisfellingar eru tíðari. Ég hefði talið, að það hefði verið mjög ákjósanlegt, að ekki hefði þurft að koma til aðgerða á sama hátt og gert er nú, og það hefði vissulega auðveldað róðurinn í vegamálum, eins og hæstv. fjmrh. benti á á sínum tíma.

En áður en ég skilst við þetta mál, langar mig örlítið að minnast á 4. gr. þessa frv., sem hefur það innihald, að þar er gert ráð fyrir að draga verulega úr þeirri heimíld, sem var til þess að endurgreiða eigendum jeppabifreiða, sem notaðar voru við framleiðslustörf, þungaskatt af af jeppabifreiðunum. Það var áður heimilt að endurgreiða hann að fullu, en með þessari breyt. virðist mér vera gert ráð fyrir því, að heimild sé að endurgreiða helming skattsins. Ég tel það illa farið. Ég held, að þetta muni áreiðanlega ekki stórum upphæðum í fjármunum, og ég tel það illa farið, ef horfið er frá því að hafa þessa heimild í fullu gildi.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að ég tel, að ekki hafi verið ástæða til þess að fara að gera sér grein fyrir nýrri stefnu í þessum málum, hvernig ætti að fjármagna vegasjóðinn og vegagerðina í landinu. Ég hygg, að sú stefna hafi verið mörkuð núna síðustu árin, og það hefði áreiðanlega verið hagfelldara og eðlilegra fyrir okkur að halda okkur að þeirri stefnu heldur en að taka upp nýja. Hins vegar er það rétt, að svo skammur tími gefst að þessu sinni, að mjög erfitt er fyrir okkur að átta okkur til fulls á málinu, og það sannar það betur en allt annað, að svo hratt er unnið að málinu, að ekki er komið fram nál. minni hl., þó að því væri skilað hér inn á skrifstofuna laust fyrir hádegi í dag.

Minni hl. leggur sem sagt til, að frv. verði fellt.