19.12.1972
Neðri deild: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Frsm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Iðnn. Nd. hefur athugað frv. til l. um undirbúning að þörungavinnslu að Reykhólum og er sammála um að mæla með samþykkt þess, eins og það liggur fyrir á þskj. 136 og 176. Ein aths. kom fram í n., en hún var um nafn væntanlegs fyrirtækis eða verksmiðju. N. var sammála um að gera þá ábendingu, að nafnið verði tekið til nánari athugunar, þegar að því kemur, endanlegt fyrirtæki verði sett á stofn. Nafnið þörungavinnsla er mjög víðtækt, og það mun þannig til komið, að um er að ræða annars vegar þangvinnslu og hins vegar þaravinnslu. Með þessu nafni er reynt að ná yfir hvort tveggja. En nafnið er álíka víðtækt frá grasafræðilegu sjónarmiði og ef sauðfjárrækt væri kölluð hryggdýrarækt. Þessi aths. kom fram í n., og henni er hér með komið á framfæri til athugunar fyrir þá, sem síðar kynnu að geta fundið heppilegra nafn.