19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Þó að vissulega væri tilefni til þess, að málið væri rætt allítarlega, ætla ég samt ekki að gera það, svo liðið sem er á fundartíma, en það eru nokkrar leiðréttingar, sem ég ætla að koma hér á framfæri.

Það er í fyrsta lagi það, að ég sagði fyrr í þessum umr., að það hefði verið fullkomin samstaða um það hér á Alþ. fyrir ári að fresta þá lagasetningu um nýtingu okkar á fiskveiðilandhelginni, en að athugun á þessum málum starfaði sérstök n., sem skipuð hafði verið í því skyni. (Gripið fram í.) Ég skal lesa bæði hvað hv. þm. sagði sjálfur í þessu máli og eins hvað sá nefndarformaður sagði, sem skilaði af sér, svo að það fari ekkert á milli mála, enda var það verkefni þeirrar n. að koma með reglur varðandi nýtingu okkar fiskveiðilandhelgi, um skipulag þessara mála, ekki um sérstakar friðunarráðstafanir, sem ættu að koma í staðinn fyrir almenna útfærslu á landhelginni, eins og till. sjálfstæðismanna fjölluðu um. Þær voru um allt annað. Það kom sem sagt alveg skýrt og greinilega fram hér fyrir ári, og ég skal víkja að þeim umr., sem þá fóru hér fram. Formaður n, sagði þá í umr. á Alþ. m.a. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það kom vissulega til mála og var rætt í n., hvort ætti að fara inn á þá braut að gera minni háttar tilfærslur eða breytingar á togveiðiheimildunum. En niðurstaðan varð sú, bæði vegna naums tíma og vegna þess að n. telur óhjákvæmilegt að taka öll þessi mál til rækilegrar endurskoðunar þegar á næsta ári, að flytja þá breytingu eina, að togveiðiheimildirnar skuli gilda í eitt ár í viðbót eða til ársloka 1972.“

Eins og ég sagði áðan, hnigu öll ummæli þeirra aðila, sem til var leitað, svo sem Landssambands ísl. útvegsmanna, Fiskifélags Íslands og þeirra samtaka sjómanna, sem létu uppi álit sitt um málið, í þá átt, að rétt væri að framlengja þessar togveiðiheimildir lítt eða ekki breyttar um eitt ár. En jafnframt kom fram, eins og n. leggur ríka áherzlu á, að nú þyrfti að nota tímann vel á næsta ári, bæði með tilliti til þeirrar reynslu, sem þegar hefði fengizt af fiskveiðiheimildum, sem gilt hefðu frá 1969, og alveg sérstaklega með tilliti til fyrirhugaðrar útfærslu fiskveiðilögsögunnar á næsta ári, til þess að undirbúa löggjöf til nokkurrar frambúðar um hagnýtingu fiskimiðanna innan fiskveiðilögsögunnar og hvernig við ætlum að hagnýta fiskimiðin okkur til handa. Á þetta leggur n., sem undirbjó frv., ríka áherzlu. Um þetta var fullkomin samstaða og svo rík samstaða, að hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, kom rétt á eftir og bað menn mjög að standa nú einhuga að þessari frestun á málinu í eitt ár, svo að tími ynnist til þess að undirbúa góða löggjöf um málið, og lagði á það alveg sérstaka áherzlu. Ég get lesið hér nokkur atriði úr ræðu hv. þm., enda var hér fullkomin samstaða um þetta og ekki nokkurt minnsta rifrildi um þessi mál þá. En hv. þm. segir hér m.a.:

„En ég vil mjög undirstrika það, sem kom fram hjá hv. frsm. hér áðan, að ef á að fara að gera breytingar á frv. nú, þá er alveg fyrirsjáanlegt, að það mun ekki ná fram að ganga fyrir áramót, og teldi ég það miður farið, því að vitaskuld þurfa að gilda ákveðin lög í sambandi við þessar veiðar, og ég vildi ekki eiga það á hættu, að þar yrði stigið neitt skref aftur á bak. Ég hef þess vegna, þrátt fyrir það að ég er með ákveðnar og tilteknar breytingar á l. í huga, gerzt hér meðflm. að þessu frv. og mundi mjög vilja fara fram á það við aðra hv. þm., að þeir tækju þá afstöðu að samþykkja þetta frv., sem er um það eitt að framlengja lögin óbreytt í eitt ár, til þess að betri tími gefist til þess að vinna að breytingum á því og skipuleggja þessar veiðar að fenginni þeirri reynslu, sem þegar er komin, og að fenginni þeirri reynslu, sem án efa mun koma fram á næsta ári“ o.s.frv.

Það var ekkert um að villast, að það kom bæði fram í umr. mjög almennt, eins og ég hef sýnt fram á, og einnig var það samdóma álit manna hér á Alþ., að það ætti að fresta lagasetningu um þetta um eitt ár, til ársloka 1972. Og sú n., sem starfaði að þessum málum á s.l. hausti, bað um frest til þess að geta unnið frekar að þessum málum. N. átti að starfa áfram, og ég óskaði eftir því á s.l. hausti, að hún tæki upp þetta starf, og hún hefur þegar unnið mikið verk. En ég er ekkert hissa á því, þó að hún hafi ekki lokið starfi sínu.

Það var, eins og ég sagði fyrr í þessum umr., mjög eðlilegt að nú var lagt til. ekki ósvipað og á s.l. hausti, að n. fengi frekari tíma til að undirbúa löggjöf á svo víðáttumiklum grundvelli sem hér er um að ræða, og menn gætu sameinazt án mikilla almennra umr. um málið, þar sem það er á þessu vinnustigi, um þessar tiltölulega einföldu og sjálfsögðu till., sem hér liggja fyrir frá fiskveiðilaganefnd. En þá gerist það sem sagt, að hér koma fram nokkrir sjálfstæðismenn og halda feikilegan reiðilestur yfir mér, að ég hafi engan áhuga á friðunarmálum. Jafnvel prófessorar frá háskólanum, sem varla þekkja þorsk frá ýsu, halda hér reiðilestur og segja, að ég vilji ekkert hafa með friðun að gera. Slíkir prófessorar geta auðvitað gert sig hlægilega með því að þylja upp svipað og sá gerði, sem hér talaði í kvöld. Það hefur afskaplega lítil áhrif á mig.

En það liggur líka alveg ljóst fyrir, að sjálfstæðismenn eru afskaplega órólegir yfir því, sem hefur gerzt í landhelgismálinu. Hv. 3. þm. Sunnl., sem hefur unnið mjög vel. bæði með mér og öðrum, að því í nefndum að reyna að koma skipan á þessi mál varðandi veiðiheimildir í okkar fiskveiðilandhelgi, gerist líka órólegur með sínum flokksbræðrum og fer að leika hér alveg sérstakan friðunarpostula, eins og hann vilji meiri fiskfriðun en allir aðrir. Hann vill t.d. endilega taka allt Þistilfjarðarsvæðið og loka því, ekki bara í tvo mánuði á ári, apríl og maí, eins og sjútvrh. vill, — nei, hann býður upp á það að loka öllu þessu svæði allt árið, í tvö ár. En þegar kemur að því, að minnzt er á það við hann, hvort það ætti ekki að banna togveiðar og aðrar slíkar veiðar innan við 3 mílur í kringum Vestmannaeyjar eða úti fyrir kjördæmi hans uppi á landinu, þar sem menn mega veiða upp í harðagrjót, ærist hann og neitar allri samstöðu um slíkar till. En hann þarf bara að koma hér og leika þetta hlutverk, að hann sé sérstakur friðunarpostuli umfram allt. Við vitum mætavel af hverju þetta stafar. Sjálfstæðismenn, sem svona haga sér, meira að segja þeir, sem þekkja vel til þessara mála og hafa vel staðið að þeim áður, eru svona órólegir yfir sínum hlut í landhelgismálinu. Þeir eru svo órólegir, að þeir eyða hér löngum tíma í að segja, að við verðum að friða, við verðum að setja reglur, og eru svo að halda einhvern reiðilestur yfir mér, vegna þess, að ég sé líklega á móti því að setja reglur um þetta.

Svo kemur hv. 3. þm. Sunnl. og segir okkur sögu af því, að það hafi komið fram, að fiskárgangurinn frá 1964 hafi verið veiddur upp, á meðan hann var smáfiskur, það verði að koma í veg fyrir þetta. Ætli hv. þm. viti ekki mætavel, að opinberar skýrslur sýna, að það eru útlendingar, sem hafa veitt meira en sem nemur 3/4 af þessum stofni, þeir sem við erum að berjast við að reka út fyrir landhelgismörkin og koma þannig fyrst og fremst í veg fyrir þetta smáfiskadráp. Þeir, sem eiga heima í kringum Þistilfjörðinn og veiða þar á bátum sínum, eiga ekki afskaplega stóran hlut í því að hafa drepið þennan stofn. Það er alveg ástæðulaust að rjúka hér upp, þegar aðeins er um bráðabirgðatill. að ræða, áður en megintillögurnar verða lagðar fram, og ætla að loka stóru hafsvæði árið um kring á þessum stöðum, áður en menn koma sér saman um þær meginfriðunarráðstafanir, sem hér eiga að gilda, og á meðan hv. 3. þm. Sunnl. er ekki einu sinni viðbúinn því að banna veiðar með botnvörpu innan þriggja mílna markanna, t. d. í kringum Vestmannaeyjar. Ég veit, að þetta er viðkvæmt fyrir suma menn. Það er ekki langt síðan ég var á fundi í Vestmannaeyjum, og þá komu þar ýmsir menn, sem lögðu mjög mikla áherzlu á, að þessar veiðar innan við 3 mílur yrðu bannaðar. En það komu aðrir fram og sögðu, að það ætti alls ekki að banna þær. Ég veit, að þetta eru viðkvæm mál alls staðar, og því hélt ég satt að segja, að hv. þm. Sunnl. skildi vel. að það er ekki eðlilegt að koma fram með till. af þessari gerð, sem hann hefur gert hér, enda rekur hann sig strax á það, að einn af þm. Sjálfstfl. hér, hv. 9. landsk. þm., varaði við þessari till. En hv. 3. þm. Sunnl. var fljótur að afgreiða hann og sagði honum, að hann hefði ekkert vit á þessu, hann væri alveg ókunnugur fiskveiðum og hann skyldi athuga sinn gang betur. En þessi hv. þm. hefur auðvitað fundið það og veit mætavel, að hér er um viðkvæmt mál og hreint efnahagsmál að ræða líka fyrir þá, sem hér eiga beinan hlut að máli, ekkert síður en hjá þeim í Vestmannaeyjum.

Það var auðvitað algerlega rangt hjá hv. 3. þm. Sunnl., þegar hann sagði, að hann væri ekki aðeins með sínum till., að loka svæðum við Þistilfjörðinn, hann væri að loka aðalveiðisvæðum Vestmannaeyinga, þar sem aðalnetaveiðin færi fram. Segir hv. þm. þetta af einhverjum kunnugleika? Ætlar hann að halda því fram, að hann sé að loka aðalveiðisvæðunum? Því fer vitanlega víðs fjarri. Þannig liggja málin ekki fyrir. En hann getur kannske sagt hv. 9. landsk. þm. það, sem hann heldur, að þekki ekki til málsins, en hann getur ekki sagt mér það, það er alveg útilokað. Till., sem hann flytur, er að mestu sýndartill. Í landhelgisreglugerðinni er lagt til. að tiltekið svæði á Vestmannaeyjamiðum, svæðið, sem Vestmannaeyingar sjálfir mörkuðu, verði lokað fyrir togveiðum yfir aðalhrygningartímann, 20. marz til 20. apríl. En hv. þm. kemur svo með till., sem segir ekki 20. marz, heldur 10. marz, þar náði hann í 10 daga til að sýnast, og svo ekki til 20. apríl, heldur til aprílloka, þar náði hann í aðra 10 daga. Hann ætlað að halda því fram, að þetta hafi einhverja verulega þýðingu. (Gripið fram í.) Þetta hefur enga þýðingu á hrygningartímum. Jæja, ég skal nú ekki vera að stríða hv. þm. meira með því, sem hann hefur verið að segja. Það skiptir litlu máli. Ég tek það fram, að það er liðið svo langt fram á nótt, að ég vil hvorki þreyta mig né aðra með frekari umr. um þetta mál. Ég hef aðeins bent á, að till. þær, sem hér liggja fyrir frá fiskveiðilaganefndinni og sjútvn. flytur, eru fullkomlega eðlilegar miðað við allar kringumstæður og aukatill. eru ekki bornar fram af heilum hug eða undir eðlilegum kringumstæðum. Það eru sýndartill., þær till., sem þessir tveir hv. þm. Sjálfstfl. eru hér að flytja, hreinar sýndartill., og hefði þeim verið sæmara að taka þær til baka.

Varðandi brtt. mína um það, að framlengingin standi til 1. júlí í stað 15. maí, þá er hér að vísu ekki um neina stórvægilega till. að ræða. En ég segi, að það eru ekki eðlileg vinnubrögð að tilkynna mönnum um mikilvægar lagabreytingar varðandi vinnuaðstöðu með kannske tveggja vikna fyrirvara eða svo. Það er eðlilegt, ef lög verða sett um þetta í aprílmánuði eða sennilega ekki fyrr en í apríllok, að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. júlí. Hér skipta vertíðarskil engu, enda eru þau í langflestum tilfellum orðin óglögg. En ef hv. alþm. sýnist miklu hentugra, að ný lagaákvæði, sem væntanlega verða mjög víðtæk og grípa mjög inn í starfsemi manna, séu lögtekin, tilkynnt mönnum og komi til framkvæmda með örfárra daga fyrirvara, þá er ekkert við því að segja. Ég tel það óeðlilegt, og það hefur yfirleitt ekki verið siður að standa þannig að verkum. Því er það, að ég hef flutt þessa till.

Ég vænti þess, að þessum umr. sé að ljúka, og þeir sjálfstæðismenn hafa víst fulla aðstöðu til þess að skrifa í sitt stóra Morgunblað um það, að ég sé vondur maður og vilji enga fiskfriðun. En þeir þurfa ekki að vera að halda vöku, hvorki fyrir mér né öðrum hér, við að hlusta á ræðumennsku af þessu tagi, ekki einu sinni frá hv. prófessor.