20.12.1972
Efri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., liggja hér fyrir þrjú nál. við 2. umr. og er ég með nál. á þskj. 223. Ég vil biðja þm., ef þeir nenna að lesa það, að veita því athygli, að það er ritvilla á tveimur stöðum. Á fyrstu síðu á auðvitað að standa „21/4%“ og á miðri annarri síðu, í miðmálsgreininni, á auðvitað að standa „rekstur iðngreina“, en ekki „rekstrar iðngreina“.

Hér er búið að tala langt mál og tími kannske ekki mikill til að hafa tölu langa í viðbót. Þó ætla ég að ræða málið með nokkrum orðum.

Mig langar fyrst til að spyrja hæstv. forsrh. þess, hvaða gengi komi á morgun? Það skiptir mjög miklu máli, þar sem augljóst er, að verði ákvæði í 3. gr. lögfest, er Seðlabanka Íslands veitt miklu meira vald en hann hefur haft áður. Talsmenn Framsfl. vildu oft áður á Alþingi draga mjög úr valdi Seðlabanka Íslands og meira að segja svo, að þeir fluttu um það till. oftar en einu sinni, að gengisskráningin væri tekin úr höndum bankans og færð inn í þingsalina, þeir höfðu mörg orð um ofurvald Seðlabankans, en nú standa þeir fyrir því, að vald hans sé aukið. Þetta skiptir miklu máli í áframhaldandi umr. hér. Það hlýtur að liggja fyrir, hvaða gengi á að nota á morgun. Það er alveg óhugsandi, að það liggi ekki fyrir. Dollarinn getur verið frá 96 kr. og 34 aura upp í 100 kr. og 78 aura. Ef farið er í hámarkið, eins og einn stuðningsflokkur stjórnarinnar vildi, — hann vildi meiri gengisfellingu, það hefur formaður flokksins viðurkennt í sjónvarpi, — skiptir það miklu máli vegna áhrifanna út á við. Það skiptir líka máli, hvort farið er í lágmarksgengisfellingu, eins og annar af stjórnarflokkunum vildi, og helzt enga gengisfellingu, heldur millifærsluleið, en hefur þó fallizt á gengisfellinguna til málamynda. Það er augljóst mál, að þessi gengisfelling er málamiðlun, til þess að stjórnin riðlist ekki.

Ég ætla ekki að vera með vangaveltur um, hvaða gengi kemur á morgun, en það skiptir mjög miklu máli vegna þess, að ef fólk sér, að það verður farið í lágmarkið, verður engin trú á gengisfellingunni. Það er raunverulega það versta, a.m.k. er það mín persónulega skoðun, sem henti þjóðina, ef fólkið tryði því ekki, að þær ráðstafanir, sem nú eru gerðar með birtingu nýs gengis á morgun, hefðu ekki tilætlaðan árangur, a.m.k. út vertíðina, ef þyrfti að fara að hreyfa gengið strax þegar líður á vertíð, vegna þess að í ljós kæmi að of skammt væri stokkið, fyrst á annað borð er verið að reyna að stökkva yfir gjána. Það var einu sinni talað um það af hv. þm. Framsfl., sem hefur ekki treyst sér til þess að sitja í Nd., að of stórt stökk hefði verið tekið af viðreisnarstjórninni á sínum tíma. Því var svarað til, að ekki væri hægt að stökkva yfir gjána nema í einu stökki. Nú verður reynt að komast yfir gjána í áföngum. Framtíðin sýnir það, hvort þeir hafi lagt þar eitthvert tré yfir, sem heldur eða ekki. Ég skal ekki fjölyrða hér meira um það út af fyrir sig. En ég vildi einnig vekja athygli á því, að það mun líka verða tekið eftir því erlendis, hvernig staðan er skráð hér heima á íslenzku krónunni. Það skiptir okkur líka miklu máli, hvernig skráning íslenzkrar krónu er í erlendum bönkum.

Hæstv. forsrh. sagði, hvað hefði skeð, ef stjórnin hefði ekki leyst. þennan hnút. Það er von, að hann spyrði um það, hvað hefði skeð. Það er viðurkennt af hagrannsóknarstjóra, að þetta sé margþætt, og aflabrestur er einn þátturinn. Hann vill ekkert segja um, hvort hann sé stór eða lítill, stærsti eða minnsti þátturinn. Hann er einn þátturinn. Þensla innanlands og of mikil kaupgeta, a.m.k. á vissum sviðum, viðurkennir hann, að sé einn þátturinn. Allt eru þetta samverkandi áhrif hér heima. Allt er þetta viðurkennt samt sem áður að verulega miklu leyti. Því er haldið fram af stjórnarandstöðunni, að hetta sé heimatilbúinn vandi að mestu leyti. Hæstv. forsrh. spyr: Hvað hefði skeð, ef við hefðum ekki leyst þennan hnút? — Sjálfsagt var að höggva á hnútinn.

Við erum allir sammála um það, að atvinnulífið verður að snúast. Full atvinna verður að vera eða eðlileg atvinna a.m.k., þannig að hver vinnufær hönd og vinnufús hönd hafi vinnu við sitt hæfi. En ég fyrir mitt leyti er óánægður með gengisfellinguna. Ég var það á sínum tíma og margþvældist þá hér eins og ég gat fyrir gengisfellingunni 1968, Ég tel einnig núna, að þetta sé óskynsamlegt. Vegna hvers er það óskynsamlegt að fara alltaf þessa troðnu slóð? Það er ósköp einföld staðreynd. Það er vegna þess, eins og kemur fram í nál. mínu og síðasti ræðumaður drap á, að það er þrátt fyrir allt margt fólk í landinu, sem vill fara gætilega, spara, fara vel með og leggja fé til hliðar, sem er lífsnauðsynlegt atvinnulífinu. Því miður hefur enginn stjórnarflokkur séð sér annað fært en að ráðast að þessu fólki. Það harma ég alveg hreinskilinslega. Það fær aldrei umbun sinna verka að mínu mati. Þetta hefur gengið svona raunverulega frá stríðsbyrjun.

Það er ekki samstaða innan launþegastéttanna um að hamla á móti verðbólgunni, því að þrátt fyrir allt eru margir, sem skulda. Við höfum ekki borið gæfu til þess hér á Alþingi enn þá að binda skuldir raunverulegri verðlagsþróun. Þannig er það hagkvæmt að ná í lán og fá að borga það með verðminni krónum, þegar frá líður. Þrátt fyrir allt er, eins og ég hef einu sinni sagt, sómasamleg verðbólga æskileg fyrir nokkuð stóran hluta þjóðarinnar. Þessi stóri hluti hefur þau áhrif enn í dag, að verðbólgan hnígur áfram með mismunandi miklu skriði. Við erum ekki menn til þess, enn þá á Alþingi að hefta hana. Við erum ekki einu sinni menn til að hemla, svo að hún fari ekki miklu hraðar en nú gerist í nágrannalöndum okkar. Þrátt fyrir það að þar sé veruleg vaxandi verðbólga núna síðustu mánuði. Þetta harma ég. En líklega má segja, að jafnvel launþegasamtökin, því miður, eigi hér einnig hlut að máli. Þau eru ekki tilbúin eða forsvarsmenn þeirra eru ekki tilbúnir að draga neitt úr topplaunum. Ég nefni hér sem dæmi í nál., hvað launin kosti ríkissjóð frá 17. launaflokki og upp úr á ársgrundvelli. Það eru 2.4 milljarðar. Fólk í 17. flokki hefur 34.960 kr., ef ég man rétt, og þingmannalaunin eru um 65 þús. og þykir allnokkuð. Gæti þetta fólk ekki sætt sig við beina launaminnkun? Þarf virkilega að koma aftan að fólki, til þess að það skilji. hvað er að ske í þjóðfélaginu?

Eins og síðasti ræðumaður drap réttilega á hér áðan, hljóta allir að viðurkenna, þó að þeir geri það ekki opinberlega, að það er hér um millifærslu að ræða og rýrnun á lífskjörum. Það er tilgangslaust að vera að blekkja sig með öðru. Annars er enginn tilgangur í verknaðinum. Þó að vísitalan sé látin haldast og kaupgreiðsluvísitalan fari upp í 123–124 stig, eins og efnahagsstofnunin lagði fyrir okkur í fjvn., sem enn þá er trúnaðarskjal, en mun koma í ljós síðar, þá held ég, að það brjóti engan trúnað að segja frá því, að hér sé reiknað með 123–124 stigum út næsta ár. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir enn víxlhækkanir. Og hver verða áhrifin? Eru forsvarsmenn launþega tilbúnir að reyna að hamla nú á móti, þegar þeir eiga aðild að vínveittri ríkisstj.? Þá er það alveg ný stefna. Hún er raunsæ, en þá er verið að hjálpa fólkinu, sem hefur lægri launin. Hvað getum við kallað lægri laun? Fjöldi verkamanna í dag hefur 20–28 þús. kr. laun, Það eru lág laun, miðað við það, sem gerist í framfærslukostnaði í dag. Það þarf auðvitað að hjálpa þessu fólki. Hvernig gerum við það? Með millifærslu í gegnum almannatryggingakerfið og skattalögum. Hinir verða að taka á sig meira, af því að þegar á sér stað mikil spenna í launahækkun. Margir hafa komið ár sinni vel fyrir borð. Ymis þjónusta hefur hækkað gífurlega á einu og hálfu ári. Við erum að glíma við þessa gömlu verðbólgu í einni eða annarri mynd. Hæstv. ríkisstj. sér sig tilknúna, þrátt fyrir margar yfirlýsingar í kosningabaráttunni um, að þeirra leið væri aldeilis ekki gengisfellingarleiðin. Vissulega uppskáru þeir árangur. Það er gefið mál. Fólk trúði því, að þessir menn mundu ekki gripa til gengisfellingar sem hagstjórnartækis, á kjörtímabilinu, hvað þá ef einhver hefði verið svo forsjáll að segja, að svo mundi fara eftir 16–17 mánaða stjórnartímabil. Sá hefði verið rifinn niður, hvar sem hann hefði reynt að halda slíkri skoðun fram. Hann hefði ekki verið talinn spámannlega vaxinn. Enda man ég eftir því, að Tíminn birti forsíðufyrirsögn 19. okt. 1971, eftir að hæstv. forsrh. hafði flutt sína fyrstu stefnuræðu: „Gjörbreytt stjórnarstefna í þjóðfélagsmálum.“— Gjörbreytt? Já, hún er líklega breytt á mörgum sviðum, en þó lent hina gömlu leið í þessu tilfelli. Hún lenti yfir í gengisfellingu. Hún er kannske ekki mikil, ekki í þetta skipti. En það kom fram hjá öðrum hér áðan, 5. þm. Vestf., að hún hefur verið meiri en á að verðfesta hér í nótt og tilkynna á morgun. Það var í fyrra tilkynnt með látleysi nýtt stofngengi ísl. krónunnar. Dollaranum fylgdi fall um tæplega 7–8%, þannig að þá er gengisfallið, ef það fer í hámark á morgun, sem ég veit ekki um, en fæ vonandi svar við bráðum, komið í 20% gagnvart Evrópugjaldeyri, þrátt fyrir mjög gott verðlag á útflutningsafurðum okkar og að sala afurðanna hefur gengið vel á öllum sviðum nema einu. Það er á þurrfiski til Brasilíu. Þó hefur rætzt úr því nokkuð núna og er um helmingur seldur af fiskinum, eftir því sem ég veit bezt. Verðmæti þess þurrfisks mun vera eitthvað um milljarður. Hins vegar er lítil verðhækkun eða engin á hluta afurðanna, þannig að framleiðendur, sem eru margir hverjir smáir, eiga í erfiðleikum með að standa undir þessum rekstri. Það er mikil vinna við þurrfiskinn, sérstaklega hér á Suðurnesjum, fiskframleiðendur eiga í erfiðleikum og hafa ritað hæstv. ríkisstj. um erfiðleika sina. Ég vona, að hún hlusti á þetta.

Ég veitti því athygli, að hæstv. félmrh. sagði í gær í ræðu sinni: „Kaupið hefur verið geysihátt.“ Hins vegar man ég eftir því, að hæstv. forsrh. hefur sagt það hóflegt. Ég skal ekki vera að eltast við þennan túlkunarmismun. Þeir um það, hvernig þeir túlka hlutina misjafnlega eftir því, hvernig aðstæður eru. Þessi orð eru sögð með alllöngum tímamismun hér á Alþingi. Nú þykir hæstv. félmrh. henta að tala um geysiháa kauphækkun til þess að réttlæta þessa gengisfellingu. Ég er viss um, að þetta hefði hann ekki sagt, ef þing hefði t.d. setið hér í september eða júní. Þá hefði hann ekki talað svona hátt, að kaup hefði ekkert hækkað, vegna brb1. frá 11. júlí í sumar. En menn geta beitt þannig orðanna hljóðan eftir því, hvað við á í það og það skiptið.

Í sambandi við frv., sem var hér til umr. fyrir rúmlega tveimur árum, um verðlag og atvinnuöryggi, minnir mig, að það hafi verið í nóvember 1970, voru hér langar umr. Ég hef farið í gegnum þessar umr., og það er allt of langt mál að rekja þær, þó að það væri mjög gaman, sérstaklega vegna tengsla vissra manna hér í dag við ríkisstj. og alþýðusamtökin. En þeir hefðu gott af því að fletta upp í eigin umr. þá og hugleiða aðeins, hvað þar stendur á tugum blaðsíðna. Ég ætla mér ekki að rifja þetta upp, það er bezt, að þeir geri það í einrúmi. Já, ég veit ekki, hvort þeir mundu hafa lyst á Hólsfjallahangikjöti eftir að vera búnir að lesa þetta við núverandi aðstæður, en ef svo er, renna þeir mörgu niður.

Það var nefnilega tilkynnt í kvöld hækkun á víni og tóbaki. Vín á að hækka um 30% og tóbak á að hækka um 25%. Einhvern veginn hefur það síazt út hér í þingsölunum, að þetta eigi ekki að koma beint inn í vísitöluna og hafa full áhrif. Ekki veit ég, hvað þetta verkar inn í vísitöluna, en fljótt á litið kynni þetta að nálgast 2 stig. Hvernig var það nú með vesalings viðreisnarstjórnina? Var hún ekki að berjast við hækkun á vini og tóbaki á sínum tíma, í þessu frv., sem ég vitnaði til hér áðan? Var hún þá ekki talin óferjandi að öllu leyti? Var þá ekki kallað á verkföll og vandræði? En hvað ætli gerist núna? Nú er þetta bara einn þáttur í tekjuöflun ríkisstj. Það kemur líka fram í trúnaðarplaggi, sem fjvn. var sýnt í kvöld, að það muni kosta um 1000 millj. kr. að halda vísitölunni innan þeirra marka, að hún fari ekki yfir 124 stig á komandi ári. Þó er ekkert tillit tekið til þeirra kjarasamninga, sem verða á komandi hausti. Það er heldur ekkert tillit tekið til þeirra áhrifa, sem nokkur verkalýðsfélög eða launþegafélög kynnu að ná í gegnum samninga, sem ganga yfir núna, m.a. við farmenn, vélstjóra og flugmenn. Gagnvart verkalýðshreyfingunni eru þetta hátekjumenn. Þeir knýja e.t.v. fram umtalsverða launahækkun í gegnum verkfallsréttinn. Dettur þá nokkrum manni í hug, að forsvarsmenn láglaunafólksins geti verið rólegir? Sagt er, að tengslin verði ekki rofin á einn eða neinn hátt við vísitöluna og hún eigi að mæla eðlilegt gildi kaupsins. En þrátt fyrir það ætlar hæstv. ríkisstj, að nota a.m.k. 1000 millj. til þess að draga úr þessum áhrifum og halda kaupinu þannig innan viss ramma. Þetta eru ósköp skiljanleg vinnubrögð og raunar líklega alveg óhjákvæmileg vinnubrögð. Við hinir flokkarnir, sem erum í stjórnarandstöðu, höfum verið að baksa við þetta, þá sagt í fullri andstöðu við launþegasamtökin á sínum tíma, en nú er dæminu aðeins snúið við. Nú er kallað, að hér sé vinveitt ríkisstjórn. Hún segir það á pappírnum, að tengslin verði ekki rofin. Við fáum ekkert að vita um, hvaða bandormar fylgja þessari gengisfellingu. Við höfum ekki hugmynd um það. Það er ekkert látið uppi um það á einn eða annan hátt. Við verðum því bara að vona, að þeir komi með þá bandorma, sem verkalýðssamtökin sætta sig við. Þeir treysta sér víst ekki til þess að skýra frá því. En það er til margrómaður stjórnarsáttmáli, sem menn eiga að lesa, eftir ráðleggingum hæstv. forsrh., kvölds og morgna til þess að skilja. En skyldu nú ekki flestir hafa skilið hann svo hingað til. þangað til þessi ósköp dundu yfir, sem gengisfelling væri ekki á næsta leiti? Ég man eftir því, þegar ég var að berjast í kosningabaráttunni, lítið reyndur, á móti þessum snillingum í mínu kjördæmi, að þá var helzt sagt: Það eru þreyttir menn í ráðherrastólunum, úrræðalausir, lofum þeim að hvíla síg. Lofum nýjum mönnum að koma inn, sem hafa ferskar hugmyndir og leysa málin á annan hátt en viðreisnarstjórnin gerir. — Ef maður drægi þessi plögg upp, sem dreift var um Reykjanesið, og færi að lesa úr þeim núna, þá veit ég ekki, hvort þeir hefðu gleðileg jól. þrátt fyrir það að hæstv. forsrh. hafi tilkynnt þjóðinni, að það skyldi halda jól í ró og næði.

Nei, ég get raunverulega sagt og við allir í stjórnarandstöðunni kinnroðalaust, að hér eru svik á ferðinni, — svik, sem koma fram furðulega snemma miðað við kosningaloforðin, furðulega snemma, þegar þess er gætt, að afurðaverð í útflutningsgreinum okkar er mjög gott og meira að segja vaxandi útflutningur fyrir margar iðngreinar, sem skiptir afar miklu máli, þar sem iðnaðurinn er orðinn svo stór þáttur atvinnulega séð fyrir fólkið í landinu. En því miður, gengisfellingin var eina úrræðið, sem hæstv. ríkisstj. sá. Hún fékk spekinga, 7 minnir mig, til þess að fara ofan í efnahagsástandið, gaumgæfa það í rólegheitum í margar vikur. Þeir virtust ekki sjálfir geta hugleitt málið í ró og næði, þeir þurftu að láta embættismenn gera það og völdu einnig pólitíska fulltrúa í n. Það er gott og vel að láta embættismenn vinna fyrir sig og benda á vissar leiðir og þora svo ekki að velja neina þessara leiða, sem embættismennirnir benda sjálfsagt á eftir beztu samvizku, búa til einhvers konar kokkteil, sem enginn þeirra veit, hvað heitir.

Ég get ekki stillt mig um að lesa hérna smáklausu, með leyfi forseta. Það eru aðeins nokkur orð úr grein, er einn af hagspekingum þessarar stjórnar hefur skrifað í Þjóðviljann 24. okt. 1972, bara til þess að sýna viðhorfið og það sundurlyndi, sem hlýtur að ríkja í þessum efnum. Hann segir, með leyfi forseta, varðandi landbúnaðarstefnuna:

„Landbúnaðarstefnan er stolt einkenni sóunarinnar. Við hendum fyrir hana árlega 2 milljörðum í uppbætur og niðurgreiðslu. Stór hluti þessara tveggja milljarða er hrein sóun verðmæta og veldur mikilli efnahagslegri röskun.“

Svo mörg voru þau orð. Það hefur ekkert komið fram, hvernig vandamál landbúnaðarins verða leyst eftir gengisfellinguna. Hvað fær bóndinn? Hvað fær hann í afskriftir? Hvernig kemst hann í gegnum aukinn rekstrarkostnað. Sú var þó tíðin, að hér töluðu forsvarsmenn bænda, og hér er núna í deildinni formaður Búnaðarfélags Íslands, — er það ekki rétt hermt? Hann hafði á sínum tíma mörg orð um það, að farið væri illa með bændur. Ekkert væri á móti því, að hann léti nú nokkur orð falla, þó að komið sé á nýjan sólarhring í þessum umr., um það, hvernig honum litist á þessar efnahagsaðgerðir fyrir búið. Það kemur kannske síðar og bíður síns tíma, en undarlegt má það vera, ef ekki þarf neitt að gaumgæfa, hvernig bóndinn kemur út úr þessari gengisfellingu né hvað honum er ætlað til að mæta auknum rekstrarkostnaði. Ef ég man rétt, kostaði innfluttur fóðurbætir orðið yfir 600 millj. kr. Þetta er stór skammtur, ef hann hækkar núna um 70–80 millj. kr., og bændur fá hann í jólagjöf. Ég held, að þetta sé ekki langt frá lagi, sem ég er að tala um. Þó er þetta stór póstur. Kostnaður við áburðarnotkun nálgast einn milljarð. Áburður mun stórhækka einnig. Hér eru því stórar tölur á ferðinni. Það má búast við því, að framlag ríkissjóðs verði að minnka í sambandi við landbúnaðinn. Það var gefið í skyn áðan á síðasta fundi fjvn., að svo kynni að fara. Það var orðuð heimild til allt að 15% minnkunar í framlögum í sambandi við fjárfestingar a.m.k. Það kemur sennilega yfir landbúnaðinn. Ég veit það ekki. Á kannske að gera eins og í sumar, að taka bara af handahófi og sleppa þá vissum sviðum alveg? En allt að 15% minnkun kann að vera nauðsynleg til þess að halda jafnvægi í ríkisbúskapnum. Vonandi þarf ekki að grípa til þessarar heimildar. En hún mun fara í gegn eftir tvo daga hér á Alþingi til öryggis fyrir hæstv. ríkisstj.

Nei, því miður er það staðreynd, eins og núv. stjórnarflokkar sögðu á sínum tíma, að gengisfelling skapar æðimörg vandamál. Hún hefur alltaf gert það, og hún mun alltaf gera það. Þess vegna er það næsta undarlegt, að það skuli vera eina úrræðið yfir 22 ára skeið að grípa til gengisfellingar . Þó var millifærsluleið reynd um tíma. Ég vil hressa upp á minni 5. þm. Vestf. Það var einmitt helmingaskiptastjórn Framsfl. og Sjálfstfl., sem hóf bátagjaldeyriskerfið 1953. Þeir felldu gengið 15. febrúar 1950, ég man nú ekki um hvað mörg prósent. Þá minnir mig, að það hafi verið fellt eftir sögulega atburði hér á Alþingi. Tveimur árum síðar var komið á bátagjaldeyriskerfinu, og það vatt svo upp á sig, og endaði með því, að það var komið út í millifærslukerfi, sem enginn réð við. En eins og hann gat um réttilega, voru komin mörg gengi. Hann nefndi 20 gengi, en raunverulega voru þau miklu fleiri, vegna þess að gengið kom þannig fram, að eftir nýtingu og skilaverðmæti hverrar vinnslustöðvar kom mismunandi skilaverð, þannig að raunverulega var gengið óendalegt á fiskinum, bókstaflega óendanlegt. Auðvitað var þetta orðið kerfi, sem enginn maður réði við.

Hver er þá niðurstaðan? Hún virðist einfaldlega vera sú, að það eru tvær leiðir til, gengisfelling eða niðurfærsluleið. Það virðist ekki vera fleira til. Við höfum enginn okkar kjark — og alls ekki verkalýðsforustan — til að hamla á móti og skera niður útgjöld, okkur brestur bókstaflega kjark. Niðurstaðan er hin gamla íhaldsleið, gengisfellingarleið, eins og einu sinni var orðað af núv. stjórnarflokkum. Þetta er kannske einföldun, en þó held ég, að það sé ekki langt frá lagi, að við höfum nú komizt að þessu um 22 ára tímabil. frá 1950. Og enn heldur áfram í sömu átt, því miður. Það væri gaman að lifa það, að menn þyrftu einu sinni að byrja á sjálfum sér, byrja hérna á höfðinu og skera niður hér hjá okkur í kringum æðstu stjórn landsins og halda svo niður eftir, en stanza, þegar við komum að þeim launum, sem eru lífsnauðsyn fyrir almenning í landinu. Undanfarið hefur kerfið verið „prósentukerfi.“ Þeir fá auðvitað flestar krónurnar, er mest hafa launin, og hafa þá flestir þagað, sem eru í hærri flokkum, og gleymt hinum. Þannig er það með sjómennina, ef þeir fá miklar tekjur núna, og margir sjá gífurlegum ofsjóum yfir þeim. Meira að segja valkostanefndin sér slíkum ofsjónum yfir tekjum þeirra manna, er eiga að fara á loðnuna, að þeir sjá enga aðra leið en að skattleggja áhöfnina. 10–14 manns, allt að þremur millj. kr. eftir 6 vikna vinnu. Hugsið ykkur aðra eins skattlagningu! Hvað mundu menn segja á Suðurnesjum, sem eru að keyra á völlinn dag og nótt á stóru bílunum, ef tíunda hver ferð yrði skattlögð og sett inn til vörubílstjóra á Ísafirði, Þórshöfn eða Seyðisfirði?

Það gengi náttúrlega brjálsemi næst. En þetta á að bjóða bátasjómönnunum, og þykir engum mikið. Þetta er lagt fram í opinberu plaggi.

Ég man eftir árinu 1966, þegar það þótti hneisa á bát, sem ég á, og fleirum, að háskólapiltar höfðu meira yfir sumarið en háskólaprófessor á ári, En hver voru afköst þessara manna, og hver var vinnutími þessara manna? Það var ekki talið í neinum fjórum eða sex tímum. Það var samfelld lota upp í 76 tíma, ef á þurfti að halda. Þessir piltar eru komnir út í atvinnulífið núna sem lærðir menn. Þeir hafa talað við mig, sumir hafa það ágætt, aðrir hafa það miður, og einn er að læra enn þá.

Nei, ranghverfan birtist á margan hátt hjá okkur. Mér finnst iðulega í sambandi við öll þessi mál. að okkur vanti þann kjark, sem leysi þau. Það getur vantað þann kjark og þá samstöðu, sem nauðsynlegt er til þess að hefta verðbólguna. Því miður skortir hæstv, ríkisstj. eða stuðningsflokka hennar þann kjark enn þá þrátt fyrir öll fögru loforðin. Auðvitað þýðir ekki að halda áfram að nöldra út í þetta frv., það verður keyrt í gegn, alveg eins og við gerðum hér 1967, en þá keyrðum við það í gegn í þessari d. Þá talaði hér ungur framsóknarmaður, flutti sína jómfrúræðu, hér um nóttina og úthúðaði okkur hinum, og við hlustuðum á það í ró og næði, eins og stjórnarsinnar gera núna undir þessari ádrepu. Þannig er gangur lífsins og ekkert við því að segja kannske. Hitt er hörmulegra, að við allir hér á Alþingi, sem erum að reyna að basla við að halda þessari þjóðarskútu á eðlilegri siglingu, skulum ekki geta náð betri samstöðu. Við þurfum að taka kollsteypur ár eftir ár og berum ekki gæfu til þess, þegar vel árar, að leggja fyrir og viðurkenna það þannig að sparast eitthvað í góðærinu til þess tíma, er miður árar. Það er staðreynd á Íslandi, að slík tímabil eiga sér alltaf stað.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengur, það er orðið það áliðið, þó að það væri gaman að fjalla um orð, sem fram hafa komið, bæði í þessari hv. d. og Nd. En eins og ég sagði áðan, heldur þetta sínu striki. Ég vona hara þrátt fyrir allt, að hæstv. ríkisstj. geti leyst þennan hnút, sem hæstv. forsrh. sagði, að væri óhjákvæmilegt að leysa, því að það er auðvitað öllum fyrir beztu, að vertíðin geti hafizt með eðlilegum hætti. En hæstv. ríkisstj. kemst ekki hjá því að vera minnt á margt, sem hún sagði, eða þeir stjórnarflokkar, sem standa að henni í dag, við okkur, sem nú erum í stjórnarandstöðu, fyrir þremur til fjórum árum.