20.12.1972
Efri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

133. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ekki veit ég, hvort það var af vilja gert hjá hæstv. forsrh. að velja úr þeim spurningum, sem hér voru bornar fram í kvöld. Kannske hef ég ekki haldið nógu langa ræðu til þess, að hæstv. forsrh. hafi orðið ljósar mínar spurningar. (Gripið fram í.) Ég held, að þær hafi ekki heldur verið þess eðlis, að hann bryti neinn trúnað, þó að hann reyndi að svara þeim, þess eðlis sem þær voru. Af því að ég hélt hóflega stutta ræðu, leyfist mér nú kannske, að bæta svo sem einni mín. til þess að lesa þessar spurningar aftur.

Ég spurði í fyrsta lagi, hver yrðu áhrif þessa frv., ef samþ. yrði, á kaupgjaldsvísitöluna, þegar lögin væru komin til fullrar framkvæmdar? (Gripið fram í.) Ég var að spyrja hæstv. forsrh. að því fyrir hönd samflokksmanna minna. Við höfum ákveðið mat á þessu í Alþfl. En ég vildi fá það staðfest af hæstv. ráðh. Hann var á sínum tíma ekkert spar á að spyrja mig og aðra ráðh. og krefjast jafnvel svars á fundinum við sumpart mjög flóknum og vel undirbúnum spurningum, en ég held, að þessi spurning ætti ekki að vera það. Ég spurði enn fremur að því, hver bæri gengishallan á kaupum togaraflotans. Ég spurði, hvort það væri rétt, sem gengur hér um þingsalina, að blekkja eigi vísitöluna eða villa hana með því að taka út tvo veigamikla liði, sem í grundvellinum hafa verið, tóbak og áfengi. Ég spurði, hvort ríkisstj. teldi líkur á því, að hún gæti staðið við 20% kaupmáttaraukningu á samningstímabilinu, þrátt fyrir þær verðhækkanir, sem hlytu óhjákvæmilega að fara í kjölfar þessa frv. Um þetta hafa verið alls konar getgátur hér, sem ég vil ekki taka undir, en ég hefði viljað, að hæstv. forsrh. segði a.m.k. sitt persónulega álit á þessum spurningum. Ég tel þær ekki vera mjög flóknar, og um þetta hlýtur ríkisstj. að hafa sínar ákveðnu hugmyndir. Hún hefur stundum sagt, að við hefðum rangt mat á hennar málum, og þó að við höfum ákveðnar skoðanir á því, hvernig þessir hlutir koma út, er eðlilegt, að hæstv. ríkisstj, geri tilraun til að svara jafnalmennum spurningum og hvert mat hennar sjálfrar er á eigin verkum, um sama leyti og frv. er samþ. Ég mælist eindregið til þess, að hæstv. forsrh. gefi skýr svör. Ég er ekki að fara fram á, að hann bregðist trúnaði gagnvart samstarfsmönnum sínum í stj., en segi sitt persónulega mat á því, hvernig svara beri þeim spurningum, sem ég hef lagt fram.