20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

131. mál, vegalög

Ólafur G Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér þykir hæstv. ríkisstj. hafa furðumikið dálæti á benzíni og brennivíni þessa dagana. Þessir vökvar, þótt ólíkir séu, virðast nú eiga að bjarga við fjárhag ríkisins. Það er engu líkara en á það sé treyst, að menn kaupi þessar vörutegundir af hreinni nautn, þetta séu nautnalyf, sem menn kaupi, hvert sem verðið er.

Hv. 1. þm. Sunnl. kom víða við í ræðu sinni og færði fram mörg rök gegn þessu frv. rök, sem ég get tekið undir. Ég þarf því ekki að flytja hér langt mál, en ég vil þó fara nokkrum orðum um þetta frv.

Hæstv. samgrh. sagði, að tilgangur þessa frv. væri sá, að ekki drægjust saman framkvæmdir í vegamálum, og það væri flutt til þess að mæta vaxandi dýrtíð. Auðvitað hefur enginn hug á því, að framkvæmdir í vegamálum dragist saman. En okkur greinir á um það, með hvaða hætti vegaframkvæmdirnar skuli fjármagnaðar. Það, að nauðsyn er að flytja þetta frv. vegna vaxandi dýrtíðar, er eingöngu hæstv. ríkisstj. að kenna, og það er enn ein sönnunin fyrir því, hvernig komið er fjármálum ríkisins. Hæstv. ráðh. sagði líka, að það væru tvö ár síðan breyting hefði verið gerð á þessum gjöldum, sem hér á nú að breyta. Það er rétt. En hæstv. ríkisstj. hafði þó ekki setið lengur en hálft ár að völdum, þegar hún fann leið til þess að leggja skatt á umferðina, 25% innflutningsgjaldið, sem enn þá stendur. Það lendir á sömu aðilum, það er skattur á umferðina. Sýnist mönnum nú ekki, að nógu langt sé gengið í skattheimtu á bifreiðaeigendur? Hv. 1. þm. Sunnl. sýndi fram á, að hér er ekki verið að leggja á eingöngu 230 millj. kr., heldur 600 millj., og sú er staðreyndin í þessu máli. Hafa menn gert sér grein fyrir því, að af hverjum benzínlítra, sem nú kemur til með að kosta um 20 kr., renna í ríkissjóð um 12 kr.? Hafa menn gert sér grein fyrir því, að af hverjum einasta hjólbarða, sem seldur er í landinu, fær ríkissjóður um 1000 kr.? Og hafa menn gert sér grein fyrir því, að af hverjum bíl, sem fluttur er til landsins, fær ríkissjóður minnst 150 þús. kr., ef ég tek aðeins ódýrustu bifreiðategundirnar? Og hafa menn gert sér grein fyrir því, að til vegamála er ekki varið nema um það bil 50% af þeim tekjum, sem renna í ríkissjóð af bifreiðum og rekstrarvörum þeirra? Ég veit ekki, hvort menn hafa heldur gert sér grein fyrir því, hvað einstakir vegaspottar, — ef við færum dæmið út í það, — gefa ríkissjóði miklar tekjur. Vegur, sem hefur 500 bíla umferð á dag, hver km hans gefur ríkissjóði fast að hálfri millj. kr. í tekjur á ári. Það er hægt að sanna þetta. Og vegur, sem hefur 20 þús. bíla umferð á dag, — sem er nú kannske ekki nema einn vegur á landinu, — hver km hans gefur ríkissjóði yfir 17 millj. kr. á ári. Ef við tökum dæmi t.d. um Keflavíkurveginn og Suðurlandsveginn, Hellisheiðarveginn, þá gefur umferðin um þessa vegi ríkissjóði raunverulega á ári milli 60 og 70 millj. kr. Svo flytja hv. þm. úr stjórnarliðinu till. á sama tíma um sérstakt veggjald af þessum vegum. Ég hélt fyrst, að þeir væru að gera þetta í alvöru, en ég er farinn að halda, að þetta hafi allt verið í gríni, a.m.k. hafa þeir ekki treyst sér til að ganga til umr. um veggjaldið. Það kom hér á dagskrá, held ég, fjórum sinnum, en var alltaf tekið út af dagskrá. Ég veit sem sagt ekki, hvort þetta var gert í gríni eða af einhverri sýndarmennsku. En allt um það, þá virðist það mál þó, sem betur fer, vera úr sögunni, a.m.k. í bili.

Ég þarf ekki að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál. En ég legg áherzlu á það, að umferðin hefur þegar verið nægilega sköttuð og langtum meira en það, og til þess að halda uppi eðlilegum framkvæmdum í vegamálum verður ríkissjóður að leggja þar fram fé, en ekki skattleggja bifreiðar og rekstrarvörur þeirra meira en orðið er.