20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

95. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þdm. kannist við það úr tímatali okkar, þegar talað er um fyrir og eftir Krist eða fyrir og eftir Krists burð. Mér heyrðist á hv. síðasta ræðumanni, að hans skoðanir í sambandi við mál þetta miðist nokkuð við það, hvort það hafi verið fyrir þann tíma, sem formaður L.Í.Ú. kom á fund í rn. eða hvort það er eftir það. Virðist mér nokkur samanburður koma þar til greina. Ég tók þar fram í fyrir hv. þm. og benti á, að það þýðir ekki að vera að rugla saman staðreyndum og alls ekki að fara eftir því, sem ýmsir aðilar að málinu eru að segja mönnum, sem ekki eiga beina aðild að því.

Ég skýrði hér greinilega frá því í gær, hvernig mál þetta væri til komið og hvað hefði farið fram á vegum hæstv. ráðh. Ég tók einmitt skýrt fram á þeim fyrsta fundi, sem ég sat á í rn. sem fulltrúi stjórnar Sjómannasambandsins. Ég skýrði það líka hér í gær, að ég hef ekki haft neitt umboð frá okkar aðildarfélögum innan þessa sambands til að segja: Svona skal þetta vera eða öðruvísi. Ég sagði hins vegar, að þegar við erum búnir að ná einhverri samstöðu, þá munum við mæla með, að þær ákveðnu leiðir verði samþykktar til þess að leysa það, sem kallað hefur verið vandamál, sem ég hef hins vegar með mörgum orðum hér í gær m.a. sagt, að hefði ekki verið það sama vandamál fyrir mér og það hefði verið í augum sumra og þá kannske sérstaklega þeirra aðila, sem eiga bæði aðild að útgerðarfélögum og tryggingafélögum, og er það kannske saga út af fyrir sig, hvernig skýra eigi. En þegar þessi fundur var haldinn og ég kom á þennan fund, var lagt fyrir okkur uppkast að lögum, og það er beinagrindin úr þeirri till., sem hér hefur verið lögð fram frá hæstv. ráðh. eða rn. Og eftir að við höfðum rætt fram og aftur um hana, en við vorum mættir þar, ekki formaður L.Í.Ú., heldur fulltrúi L.Í.Ú. og fulltrúi F.F.S.Í. ásamt fleirum, eftir að við höfðum skipzt á skoðunum og rætt um þær till., sem fram höfðu komið, var annar fundur ákveðinn. Á fundi þessum var Guðjón Hansen tryggingafræðingur, og af þeim fundi fer ég til stjórnarmeðlima í Sjómannasambandi Íslands og túlka fyrir þeim, hvað þarna hefur komið fram, segi þeim um leið þá skoðun mína, að til þess að leysa þennan vanda sé ég inni á þeirri hugmynd, sem fram hafi komið frá hæstv. ráðh. til þess að leysa vandann. Það skal ég taka fram, að í því uppkasti var skýrt tekið fram við okkur af hendi ráðuneytisstjórans, Guðjóns Hansens og annarra, sem þá voru spurðir nákvæmlega þar um, að það átti ekki að vera bundið á því stigi við Tryggingastofnun ríkisins, þó að það hafi komið upp á seinna stigi, að mér skilst vegna þess, að það væri nauðsynlegt talið framkvæmdarinnar vegna, enda mun ég, eins og ég hef þegar lýst yfir, ekki standa gegn því. Það var líka skýrt tekið fram sem svar við spurningum okkar, að í því væri ekki um hinar samningsbundnu tryggingar að ræða.

Á næsta fundi, sem við komum á, er okkur hins vegar skýrt frá því, að inn í þessa hugmynd sé komið, — og það var sá hinn frægi fundur, sem hv. síðasti ræðumaður og útgerðarmaður var að ræða um, — ákvæði um það, að nú mundu samningsbundnu tryggingarnar eiga að falla niður og ganga inn í þetta. Það er út af fyrir sig alveg sérstakt hjá hæstv. ráðh. að leggja til í frv.-formi hér á Alþ. að breyta þannig samningum stéttarfélaga, en hann um það, enda er ég alveg með honum í slíkum „þrælaaðgerðum,“ þegar um slíkt mál er að ræða. En það, sem ég tók þá fram og setti strax fram við viðkomandi embættismenn, sem að málinu unnu, var, að ég mundi áskilja mér rétt til þess að leggja fram brtt. um, að upphæð dánarbótanna yrði hækkuð, fyrst og fremst vegna þess, að ég hafði túlkað málið við stjórnarmenn úr mínum samtökum á þann veg, sem ég hef þegar skýrt frá, þ. á m. við einn af stjórnarmönnum Sjómannasambandsins, Tryggva Helgason, sem var á Akureyri og ég ræddi við í síma um málið. Ég benti m.a. á, að það væri ákaflega lítill munur í augum margra þessara aðila, sem hefðu verið að berjast fyrir því áratugum saman að koma upphæðinni, sem heitir dánarbætur, upp í 750 þús. kr., ef um leið ætti að afnema þau samningsbundnu ákvæði, — ætti að taka við 1 millj. samkv. lagafrv. ríkisstj. og kasta um leið frá sér því, sem ómótmælanlega felst í lögunum, sem við samþykktum hér á s.l. vori, að slíkar bætur, ef þær færu fyrir dómstólana, gætu skipt mörgum millj. kr. fyrir einstaklinginn.

Ég hefði satt að segja álitið, að því, sem kom fram í boði þeirra aðila, sem frá sjómannasamtökunum voru staddir í þessum viðræðum, yrði tekið fegins hendi, ekki aðeins af rn., sem auðvitað vissi, hvað við var að glíma, og embættismennirnir mæltu auðvitað með, að svo væri gert. En það voru því miður til misvitrir menn og það jafnvel úr samtökum útgerðarmanna og víðar frá, sem höfnuðu þessum möguleika til þess að losa um það, sem var talinn mjög stór vandi þeirra vegna, en með samþykkt slíkrar till. settu þeir það fyrir sig, hvort þessi stofnunin eða hin tæki að sér trygginguna, og það skil ég ekki. Ef mál þetta, eins og nú liggur fyrir, verður dregið til baka, þá liggur fyrir, að þau lög, sem samþ. voru á sl.. vori, halda auðvitað gildi sínu og útgerðin hýr áfram við þann sama vanda og hún lét bæði ríkisstj. Íslands og fleiri aðila vita um, að hún teldi sig búa við vegna lagasetningar þessarar.

Þó að ég telji það ekki vera neina höfuðnauðsyn, vegna þess að ég mundi aldrei skilja það persónulega svo, að nokkur dómstóll hér í landinu mundi dæma eftir þeirri skýringu, sem fram hefur komið hjá sumum af okkar nútíma háskólamenntuðu útgerðarmönnum og jafnvel prófessorum, að þeir mundu auðvitað aldrei dæma samkv. því, sem þeir voru að upplýsa alþjóð um á s.l. hausti, þótt bílstjóri frá Mjólkursamsölunni væri að keyra mjólk um borð í einhvern hátt, að þá mundi hann falla undir það að vera starfsmaður hjá útgerðinni og útgerðarmaðurinn mundi þess vegna verða dæmdur, ef bilstjórinn rynni á rassinn á bryggjunni og rófubryti sig, — þá mundi útgerðarmaðurinn lenda í stórkostlegri skaðabótakröfu þess vegna. Þetta er auðvitað út af fyrir sig hlægilegt. En hins vegar mundi ég álíta, að sú till., sem hefur komið hér fram um breytingu á sjálfum siglingal., mætti gjarnan fara í gegn og samþykkjast til þess að taka af tvímæli, og persónulega mun ég ekki hafa þar á móti, því að það var vitað mál, bæði af minni hendi og hv. 1. flm. þessa frv. á sínum tíma, að það voru margir agnúar á frv., — ekki aðeins agnúar, sem við sáum fyrir, að þyrfti að leysa á einhvern máta, heldur og þeir agnúar, sem bent var á af viðkomandi samtökum, sem fengu að segja álit sitt um málið.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga, eins og ég hef þegar tekið fram, þótt málið sjálft verði dregið til baka um sinn. En ég held hins vegar, eins og mér skilst, að hafi komið fram í ræðu síðasta ræðumanns, að til þess að betrumbæta nokkuð um, ættum við að láta ganga áfram brtt. við sjálf siglingal. Að vísu þarf að gera þar nokkra lagfæringu á, en það er ekki með þeim, að mér skilst, verið að taka með löggjöfinni neitt af þegar áunnum réttindum. Ef það væri, þá væri ég auðvitað á móti samþykkt þess, en svo mun ekki vera. En ég tel, að til þess að taka af öll tvímæli um það, við hverja sé átt í sambandi við trygginguna sjálfa, þurfi að samþ. slíka breytingu.