20.12.1972
Neðri deild: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

131. mál, vegalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég get lýst því yfir, að ég mun sannarlega reyna að afgreiða með sanngirni og eftir því sem heimildir verða til undanþágur eins og t.d. vegna snjóbíla, vegna sjúkrabíla og annað þess konar. En ekki er mér nú sérlega vel við það, og það hygg ég, að öllum ráðh. sé frekar illa við að vera með allt of mikið undanþágumoð, því að með því verður aldrei komizt hjá að gera einhverjum rangt til meira og minna.

Við hv. 1. þm. Sunnl., fyrrv. samgrh., vil ég segja það, að nú varð ég fyrir vonbrigðum með hann, jafnvel meira en áður, þegar hann með plagg í höndum yfir samanburð á benzínverði í nágrannalöndum fór að vitna í slíkt plagg og tilgreindi eingöngu lægstu tölurnar. Þetta er sannarlega að gera tilraun til að ljúga með tölum, og það er ekkert betri lygi en annað, því að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði sama plaggið í höndunum, að ég hygg, og nefndi þar það, sem hv. 1. þm. Sunnl. hafði skotið undan til þess að gefa skakka mynd. Þetta er leitt, og ég verð að harma, að þetta skyldi henda þennan ágæta hv. þm.

Ef ég geri hins vegar samanburð á fjárframlögum ríkisins í tíð viðreisnarstjórnarinnar og núna, þá verður sá samanburður ekki hæstv. fyrrv. samgrh. í vil. Við munum það margir þm., að árum saman var deilt um það, hvort hefðu orðið efndir á því að hafa 45 millj. kr. á fjárl. til vegamála, og í raun og veru var sannað, að ekki var staðið við það. En 45 millj. voru þó ekki há upphæð. Hvaða upphæð leggur ríkissjóður nú til vegamála með því að taka að sér vegaskuldir og fjárframlög á frjárl.? Samtals um 250 millj. kr. — og lánin að auki. Lánin eru þar að auki, upplýsir fjmrh. Það hefur svo sannarlega verið staðið vel að verki af hæstv. fjmrh. um að auka fjárframlög úr ríkissjóði til samgöngumálanna.

Á það get ég svo að lokum líka minnt, að þegar við vorum að afgreiða vegáætlun í fyrra, var um verulega hækkun að ræða á fjárframlögum til vegamála samanborið við það, sem hafði verið í tíð míns fyrirrennara. Þar var svo myndarlega að verki staðið, að hv. 1. þm. Sunnl. varð heldur orðfár í gagnrýni sinni á afgreiðslu þessarar vegáætlunar, af því að hann varð að játa, að þarna væri mjög myndarlega á máli tekið með stórhækkuðum fjárveitingum til vegamála, hærri en nokkru sinni fyrr. En samt sem áður, það kostar nú meira að framkvæma hið sama verk, miðað við það, sem var, þegar vegáætlunin var gerð. Við viljum ekki láta draga úr þessum framkvæmdum. Við viljum heldur afla fjár með því að skattleggja notendur ökutækja í landinu, til þess að framkvæmdahraðinn þurfi ekki að minnka, af því að nauðsynin rekur þar á eftir. Kyrrstaða í þessum málum er afturför. Þess vegna verður að auka framkvæmdirnar. Við búum í stóru og strjálbýlu landi, og það þarf enginn að falla í stafi yfir því, þó að við þurfum að leggja meiri byrðar á hvern einstakling í þjóðfélaginu hér á Íslandi heldur en í hinum minni og þéttbýlli löndum, og það verðum við að gera. Við eigum svo margt ógert í samgöngumálum, að þar verðum við að láta hendur standa fram úr ermum.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vil bara vona, að næst, þegar hv. 1. þm. Sunnl. vitnar í skýrslur máli sínu til sönnunar, þá taki hann skýrsluna í heild, en ekki bara vinzi úr það, sem bezt hentar til að afflytja málstaðinn.