21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

1. mál, fjárlög 1973

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara hér neinum orðum almennt um fjárl. eða fjármál ríkisins, enda hafa menn á undan mér gert því máli glögg skil, og við höfum undanfarna daga rætt þau mál svo mikið, að ég tel ekki þörf á að bæta þar við. En við hv. 2. þm. Norðurl. e., Jón G. Sólnes, höfum leyft okkur að flytja þrjár brtt. við fjárlagafrv. nú við 3. umr. Till. eru á þskj. 238, og ég vil með nokkrum orðum gera þessar till. að umræðuefni. Hér er raunar um að ræða nokkrar brýnustu leiðréttingar, sem við vildum koma á framfæri, áður en fjárlagafrv. kemur til endanlegrar afgreiðslu hér á hv. Alþ., að því er varðar okkar kjörd. Samt sem áður er okkur mætavel ljóst, að svo sem nú er komið fjármálum ríkisins og raunar þjóðarbúsins alls, er fyllsta nauðsyn á aðhaldi í útgjöldum ríkissjóðs og raunar stórlækkun á fjárl. Á hinn bóginn vildum við með þessum brtt. vekja athygli á því, hversu sú staðreynd kemur niður á landsbyggðinni og félagslegum framförum á byggðasvæðum úti um land, hvernig nú er komið í fjármálum þjóðarbúsins og ríkisins. Við teljum þetta að verulegu leyti eiga rót sína að rekja til stefnu núv. hæstv. ríkisstj., flytjum þessar brtt. í von um, að þær verði teknar til vinsamlegrar athugunar þrátt fyrir núverandi erfiðleika í fjármálum og efnahagsmálum, þegar betur er að gáð um brýna nauðsyn þeirra og samræmis er gætt í almennri stefnu um fjárveitingar á fjárl.

Í. till. er um, að veittar verði 20 millj. kr. í stað 5 millj. til þess að hefja nýbyggingu fjórðungssjúkrahúss á Akureyri. Staða þessa sjúkrahúss var þegar ákveðin á árunum 1969 og 1970. Meginatriði þeirrar ákvörðunar var, að á Akureyri skyldi rísa sjúkrahús, sem yrði aðalvarasjúkrahús landsins, og það skyldi vera deildaskipt og þjóna miklu víðara svæði en Akureyri einni, bæði að því er varðaði sérfræðiþjónustu og aðra heilbrigðis- og læknisþjónustu. Síðan þessi ákvörðun var tekin, hafa byggingarmál sjúkrahússins á Akureyri verið til athugunar, bæði í tæknilegum og fjárhagslegum efnum, hjá viðkomandi opinberum stjórnvöldum. Hér er um að ræða svo mikinn undirbúningstíma, bæði í tíð fyrrv. og núv. ríkisstj., að ekki verður að dómi okkar flm. lengur unað við að ekki verði unnt að hefja byrjunarframkv. á næsta ári. Við lítum svo á, að unnt væri að hraða undirbúningi á næstu mánuðum, þannig að hægt sé að hefja framkvæmdir á næsta sumri, bjóða vissa áfanga þessara framkvæmda út og hefja framkvæmdir. Við teljum, að hér sé um að ræða einhverjar brýnustu félagslegu framkvæmdir á Norðurlandi og einskis megi láta ófreistað að byrja framkvæmdir á næsta ári. Ég tel mig ekki þurfa að lýsa því öllu nánar fyrir hv. þm., hvað hér er um brýna framkvæmd að ræða, sem tryggi nokkurt félagslegt jafnrétti fólks, sem býr í Eyjafirði og á öllu Norður- og Austurlandi, en ég ég vænti þess, að skilningur hv. þm. sé svipaður og okkar flm. í þessum efnum. Ég vil benda á, fari svo, að undirbúningur framkvæmda á þessu sviði verði ekki nægur á næsta sumri, hefur hæstv. ríkisstj. heimild til niðurskurðar á verklegum framkvæmdum. Ef svo verður, munu engin raunveruleg útgjöld koma til greina vegna umræddrar brtt. Á hinn bóginn mun hún tryggja framkvæmdir, sem að dómi okkar flm. þola ekki bið, verði undirbúningur nægur á næsta sumri. Hér er því fyrst og fremst um það að ræða, að hv. Alþ. lýsi vilja sínum til þess, að framkvæmdir hefjist við nýbyggingu fjórðungssjúkrahúss á Akureyri á næsta ári, sé þess kostur af tæknilegum ástæðum, annars verði fjárveiting tekin upp á næsta ári í því skyni og fjárveiting á árinu 1973 geymd.

2. till. okkar fjallar um, að tekin verði upp ein millj. kr. til áframhaldandi byggingar sjúkraskýlis í Ólafsfirði. Öllum hv. þm. er mætavel ljóst, hversu mikið neyðarástand hefur skapazt í heilbrigðisþjónustu við íbúa þessa byggðarlags, þar sem nú eru um það bil 1100 manns. En þangað hefur skort oft og tíðum lækna, eins og öllum hv. þm. er kunnugt. Það er álit okkar flm., að ekki megi láta ófreistað að ráða hér bót á. En það er svo, að á undanförnum árum hafa verið veittar fjárveitingar til sjúkraskýlis og læknahústaðar í Ólafsfirði, nokkrar byrjunarframkvæmdir eru hafnar við sjúkraskýli, og okkur er kunnugt um, að fyrirætlanir bæjaryfirvalda eru þær að gera fullnaðaráætlun og flýta framkvæmdum í þessu efni nú, einmitt vegna þess neyðarástands, sem skapazt hefur í heilbrigðismálum kaupstaðarins. Stefnt mun að því, að áframhaldandi framkvæmdir geti hafizt í þessu efni á næsta ári. Á hinn bóginn er ljóst, að Ólafsfjarðarkaupstaður getur ekki staðið einn undir verulegum fjárveitingum í þessu efni, sízt á sama tíma sem aðrir staðir fá miklar og ríflegar fjárveitingar úr ríkissjóði til Læknamiðstöðva, en í Ólafsfirði er ekki um neitt slíkt að ræða. Við flm. teljum, að hér sem oftar verði að líta á sérstöðu byggðarlagsins og hinu opinhera beri að hvetja til þess í ljósi samgönguerfiðleika við önnur byggðarlög, þar sem sjúkrahús eru fyrir, að í Ólafsfirði rísi sem fyrst góð aðstaða til þess að gera að slysum og lækna bráðasjúkdóma, eftir því sem kostur er á.

3. brtt. okkar hv. 2. þm. Norðurl. e. er að taka inn á fjárlög lágmarksframkvæmdir og ráðstafanir til greiðslu á skuldum vegna einnar stærstu hafnar utan höfuðborgarsvæðisins, Akureyrarhafnar, en hún er ekki með neitt á fjárl. Við leggjum með þessu til, að reynt verði að lagfæra dráttarbrautina á Akureyri, svo sem áætlað var, fyrir um það bil 2.2 millj. kr., lagfæra togarabryggju í Akureyrarhöfn, sem er brýn nauðsyn vegna tilkomu nýrra togara, fyrir um það bil 8 millj. kr. og að Akureyrarhöfn sitji við sama borð og aðrar hafnir um greiðslu skuldahala. En eins og hér hefur margoft komið fram, hafa hæstv. ráðh. og fjvn.- menn lýst yfir, að sú stefna hafi verið uppi höfð hér af þeirra hálfu að greiða skuldir viðkomandi hafna með fjárveitingum á næsta ári. Þetta hefur því miður ekki verið haft í huga í sambandi við Akureyrarhöfn, og vildum við vekja athygli á því með þessari brtt. og með því, sem ég sagði áðan um þá höfn.