21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

1. mál, fjárlög 1973

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki frekar en þeir hv. ræðumenn, sem talað hafa hér á undan mér nú síðast, fara í almennar umr. um það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, heldur halda mig við einstaka þætti og fyrst og fremst þá, er snerta þær brtt., sem ég hef flutt á þskj. 251, en tvær þeirra flyt ég í félagi við hv. 2. þm. Norðurl. v.

Það er svo, eins og lýst hefur verið, að afgreiðsla þessa frv. býður ekki upp á það, að við það séu fluttar miklar brtt. til hækkunar. Það er heldur ekki gert nema í litlum mæli. En eins og fram kom hjá hv. frsm. 1. minni hl., hefði verið þörf á því að flytja allmargar breytingar til lækkunar á þessu frv., en til þess hefur ekki gefizt tóm vegna þeirra vinnubragða, sem öllum þingheimi er kunnugt um, að höfð eru við meðferð þessa máls hér á hv. Alþ. Þar sem þær brtt., sem ég mæli hér fyrir, fela þó í sér hækkanir, vil ég byrja á því að andmæla þeirri brtt., sem fram er borin á þskj. 254 og flutt af hv. þremur formönnum þingflokka hér á Alþ. um kaup á blöðum eftir nánari ákvörðun ríkisstj. fyrir 18 millj. kr. Ég held, að þessu fé mætti verja til þarflegri hluta og ekki sé þörf á því að eyða svo miklu fjármagni til kaupa á þessum blöðum.

Ég ræddi hér við 2. umr. nokkuð, hversu ákaflega eitt kjördæmi landsins, Norðurl. v., væri afskipt í sambandi við fjárframlög á vegum heilbrigðismála. Þetta kann að hafa átt sinn þátt í því, að hv. fjvn. gerði hér nokkra bragarbót á og tók upp á milli umr. till. um 700 þús. kr. framlag upp í skuldir við fullgerðan læknisbústað á Blönduósi, og vil ég færa henni hér þakkir fyrir og þeim öðrum hv. þm. og starfsmönnum ríkisins, sem stutt hafa það mál. Enda þótt svo hafi skipazt, er vitaskuld ekki að marki bætt úr þörf þessa kjördæmis í þessum málaflokki. Ég hef þess vegna leyft mér ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. að flytja hér till. um tvo liði í þessum málaflokki.

Það er í fyrsta lagi nýr liður, 700 þús. kr., til byggingar læknisbústaðar á Hvammstanga. Nú hagar svo til á Hvammstanga, að þar er læknisbústaður tiltölulega nýlega byggður. En þau ósköp hafa gerzt, að hann var byggður með þeim hætti, að flutt var inn timburhús frá Svíþjóð, sem nú er að mati heimamanna og forráðamanna heilbrmrn. ónothæft. Þess vegna er nauðsynlegt að hefja nú þegar undirbúning að því að bæta úr þessum mistökum, og hef ég þess vegna leyft mér að flytja þessa litlu brtt., sem einungis ber að skoða sem framlag til þess að hefja undirbúning nýrrar byggingar. Það þarf naumast að taka fram, að fyrir liggja erindi, sem styðja þetta mál. frá heimaaðilum og skilningur heilbrmrn. á þessu máli er fyrir hendi.

Í annan stað hef ég leyft mér ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. að flytja brtt. um hækkun á fjárframlagi til sjúkrahúss á Blönduósi. Í till. hv. fjvn. er gert ráð fyrir 500 þús. kr. framlagi til þessarar framkvæmdar. En þar hagar svo til, að nú á yfirstandandi ári hafa verið gerðar verulegar endurbætur á sjúkrahúsinu, auk þess sem sótt hefur verið eftir því og heilbrmrn. lagt fram till. um, að þar verði nú veitt fé til undirbúnings framkvæmda að viðbyggingu og stofnun heilsugæzlustöðvar. Þær endurbætur, sem farið hafa fram, eru svo miklar, að þótt svo þessi brtt. mín verði samþ. og heildarfjárveiting til sjúkrahússins verði á næsta fjárlagaári 1200 þús. kr., þá er ekki meira en svo, að það dugi til að greiða hlut ríkisins í þessum endurbótum. Þess má geta, að í till. heilbrmrn. var farið fram á 2 millj. kr. til þessa verkefnis, svo að hér er ekki einu sinni farið fram á jafnháa fjárhæð. Ég vænti þess, þar eð hér er farið fram á lítið, að þá taki hv. Alþ. þessum litlu brtt. okkar hv. 2. þm. Norðurl. v. með því að afgreiða þær á jákvæðan hátt.

Í þriðja lagi flyt ég brtt. um framlag á vegum landbrn. til jarðræktarframkvæmda og til skurðgraftar, sem framkvæmd yrðu á árinu 1973, að upphæð 26 millj. kr. Svo sem hv. alþm. er kunnugt, flutti ég fyrir nokkru ásamt tveim öðrum hv. þm. till. þess efnis, að stefnt yrði að því í áföngum, að unnt yrði að greiða fjárframlög vegna jarðræktarframkvæmda út á sama ári og verk er unnið. Ég setti sem lágmark í þeirri till, að á næsta ári yrði skref stigið svo, að unnt yrði þá að greiða þessi framlög að því marki, að næði 20% framlaganna. Hér er ekki einu sinni farið fram á jafnmikið, eins og ég gerði þá, með tilliti til hins þrönga fjárhags ríkisins eða öllu heldur vegna þess, hversu útgjöld ríkisins hafa þanizt út langt umfram það, sem eðlilegt má telja, og langt umfram það, sem greiðslugeta ríkisins virðist gefa tilefni til. Því hef ég stillt þessu mjög í hóf og einungis farið fram á sem svarar 15.6% af þeim framlögum, sem til þessara verkefna renna. Það er einmitt nákvæmlega það hlutfall, sem áður var greitt út af Landnámi ríkisins, en hjá Landnámi ríkisins voru framlögin ævinlega greidd út á sama ári og verk var unnið. í þessu sambandi vil ég geta þess, að í lok fjárlagaársins 1971 var afgangs fé til þessara framkvæmda á fjárl., sem nam 24.9 millj. kr. Þetta var á síðasta fjárlagaári hæstv. fyrrv. ríkisstj., sem kennd var við viðreisn. Þá var vitaskuld sérstakt tækifæri til þess að taka þetta fjármagn til þess að greiða til framkvæmda, sem unnar voru það ár. Því miður fékkst það ekki fram, og þýðir ekki um orðinn hlut að sakast. En nú er þetta vissulega örðugra hvað fjárhaginn snertir, vegna þess að í lok þessa fjárlagaárs skortir 1 millj. kr. til þess að fullnægja þeim framlögum, sem ætlazt er til að greiða með þessu ríkisfjármagni. Hins vegar er tilnefnið sérstakt að því leyti, að ef ekki er horfið að þessu ráði nú, þá er stigið skref aftur á bak hændum og ræktunarsamböndum til óhagræðis og til aukins kostnaðar, vegna þess að nú er fallið niður það framlag, sem Landnám ríkisins greiddi áður á framkvæmdaári til þessara framkvæmda. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. og landbrh., sem hér er viðstaddur, taki þessi mál til gaumgæfilegrar yfirvegunar.

Þessi málefni minna mig á það, að við 2. umr. fjárl. taldi hæstv. ráðh. landbúnaðar- og fjármála sérstakt tilefni til þess að flytja langan lofsöng um störf sín sem landbrh. Einstök vers í þessum lofsöng fjölluðu um ákveðna þætti, er snerta lánsfé og ríkisframlög til landbúnaðarins. Og síðasta hending í hverju versi hljóðaði gjarnan á þann hátt: Ekki þarf nú hv. 5. þm. Norðurl. v. að kvarta yfir þessu. — Tilefni þessa kafla í ræðu hæstv. ráðh. var það, að ég hafði við þessa sömu umr. vakið athygli á því, að miðað við fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, mundi hlutdeild framlaga til landbrn. og stofnana á vegum þess lækka úr 6.1% miðað við fjárlög 1971 í 4.9% á fjárl. 1973 eða um það bil um fimmta part. Enn fremur lét ég svo um mælt, að svo kynni að fara, að bændastéttin kæmist að raun um, að það hefðu ekki verið umskipti til hins betra, þegar núv. landbrh. tók við af hinum fyrri. Út af þessum orðum mínum samdi hæstv. ráðh. þennan lofsöng, sem ég minntist hér á.

Einstök atriði í máli hæstv. ráðh. voru vitaskuld mörg. Ég vil hér aðeins minnast á fáein þeirra atriða.

Í fyrsta lagi minntist ráðh. nokkuð á lánamál landbúnaðarins. Ég vil segja það hér, að það er fjarri mér, að ég vilji hafa það af hæstv. ráðh., sem gert hefur verið til bóta, og það er rétt, að veðdeildarlán til jarðarkaupa hafa verið hækkuð nokkuð eða úr 200 þús. í 400 þús. plús 100 þús. í skuldabréfi. En ef tekið er tillit til þess, hversu fasteignir hafa hækkað á þessu tímabili, á valdatíma núv. ríkisstj., er fjarri því, að þessi hækkun jarðakaupalána dugi til þess að mæta þeim hækkunum, sem orðið hafa á jörðum. Það var enda svo í öllum lestri hæstv. ráðh., að hann virtist ekki gera neina grein fyrir þeim miklu verðhækkunum, sem orðið hafa í hans ráðherratíð.

Um stofnlánadeildarlánin er það að segja, að svo leit út, þangað til nú fyrir örfáum dögum, að stórkostleg fjárvöntun yrði til stofnlánadeildarinnar á þessu ári, sem þýddi það, að skorin höfðu verið niður lán til vinnslustöðva landbúnaðarins og lán til dráttarvélakaupa bænda frá því á miðju sumri. Hæstv. ráðh. hefur nú gert hér á bragarbót í lok vertíðar, svo seint, að ekki er enn þá séð, hvort unnt verður að afgreiða þessi lán, en nú fyrir fáum dögum útvegaði hann 60 millj. kr. til þessara hluta.

Hæstv. ráðh. minnti á tekjur bænda á yfirstandandi ári og sagði: Bændur hafa fengið hækkanir á tekjum sinum eftir lögum, og ekki þarf nú að kvarta undan því. — Ég spyr nú aftur á móti: Er það eitthvað sérstaklega þakkarvert, þó að lögum sé framfylgt? Er það eitthvað þakkarvert, þó að bændur hafi fengið leiðréttingar á tekjum sínum til samræmis við þær verðlagshækkanir og þær launahækkanir, sem orðið hafa í þjóðfélaginu og bændur eiga skýlausan rétt á að fá inn í verðlagsgrundvöllinn Íögum samkv.? Þessi lög voru haldin til 31. ágúst, en 1. sept. átti að taka gildi nýr verðgrundvöllur landbúnaðarvara, og sá grundvöllur hefur ekki tekið gildi enn. heim grundvelli var frestað með brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir, og það skal tekið fram, að það var gert með hlutleysi bændasamtakanna. En ég ítreka þá spurningu, sem ég bar fram hér við 2. umr, til hæstv. ráðh., hvað fram undan sé í sambandi við verðgrundvöllinn vegna þeirra hækkana, sem óhjákvæmilega hljóta inn í hann að koma. Hvað hyggst hæstv. ráðh. leggja til í því sambandi, og getur hann gefið hér á hv. Alþ. yfirlýsingu, eins og ýmsir hæstv. ráðh. þessarar ríkisstj. hafa gert í sambandi við kjaramál launþega, að þeir fái að fullu greiddar þær hækkanir, sem spretta af efnahagsráðstöfunum núv. ríkisstj. í sambandi við kaupgjaldsvísitölu? Nú spyr ég: Getur hæstv. ráðh. landbúnaðar- og fjármála gefið slíka yfirlýsingu varðandi kjör bændastéttarinnar?

Um útgjaldaliði á fjárl. í gegnum landbrn. sé ég ástæðu til að fara fáeinum orðum. Hæstv. ráðh. tíndi upp nokkra liði og sagði: Hérna hefur orðið veruleg hækkun. Til Landgræðslunnar er fjármagnið 100% hærra en var í tíð fyrri ríkisstj. Til þessa liðar og hins hefur verið veitt miklu meira fé. Og ekki þarf nú að kvarta undan þessu, sagði hæstv. ráðh. Í fyrsta lagi er við þetta það að athuga, að framkvæmdamáttur fjárins hefur stórkostlega dregizt saman, svo sem öllum má ljóst vera. Byggingarvísitalan hefur á valdatíma núv. ríkisstj. hækkað um um það bil 28%, og þegar það fjármagn, sem verður á fjárl. næsta árs, kemur til þess að greiða framkvæmdir, þá veit enginn, hvað byggingarvísitalan hefur hækkað mikið. En vissa er fyrir því, að það verður verulegt í framhaldi af þeim hækkunum, sem leiðir af gengisfellingunni. Hæstv. ráðh. sagði: Framlög til Hvanneyrarskóla hafa verið þrefölduð. — Hæstv. ráðh. minntist ekkert á Hólaskóla. Hæstv. ráðh. minntist ekki heldur á Garðyrkjuskólann í Ölfusi. Þessir skólar eru þó, eða a.m.k. Bændaskólinn á Hólum, sambærilegir við Hvanneyrarskóla. Framlög til þessara skóla hafa sama og ekkert hækkað í tíð þessa hæstv. fjmrh. og landbrh. Það er nefnilega þannig, að það er hægt að tína út einstaka liði, þar sem sæmilega og vel er gert. En ef litið er á málin í heild, þá er sagan önnur. Ég kem nánar að því síðar.

Hæstv. ráðh. sagði: Það þarf ekki að kvarta undan því, að jarðræktarl. voru sett. — Og víst er að svo er ekki. En það er líka ekkert sérstakt tilefni til þess að hæla sér af eða flytja um sjálfan sig lofsöng vegna jarðræktarl. sem gera ráð fyrir 17–18 millj. kr. hækkun á framlögum til landbúnaðarins, þegar það er vitað, að það var að því komið að endurskoða þessi lög. Í því sambandi vil ég minna á, að þegar þau næst á undan voru endurskoðuð, voru framlög eftir þessum lögum hækkuð um 30 millj. kr. til landbúnaðarins, og var þó annað verðlag þá en var í fyrra og er í dag.

Ef útgjaldaliðir á vegum landbrn. eru teknir í heild, sem vissulega gefur réttari mynd heldur en vera að tína út einstaka liði, kemur í ljós, að ekki var mikið tilefni til þess að hæstv. ráðh. færi að hæla sér sérstaklega af þessum málum. Ef gert er ráð fyrir því, að þær till., sem nú liggja fyrir við 3. umr. fjárl. frá fjvn., verði samþykktar, lítur dæmið þannig út, að í síðustu fjárlögum viðreisnarstjórnarinnar var hlutfall þeirra fjárveitinga, sem renna í gegnum landbrn., eins og fyrr sagði, 6.1% af heildarútgjöldum ríkisins, en ef till. fjvn. verða samþ. nú og fjárlagadæmið tekið eins og niðurstöður verða að því loknu, þá er hlutfallið komið svo, að í stað 6.1%, sem var 1971, er þetta komið niður í 4.18%. M.ö.o.: meðan fjárlög íslenzka ríkisins hafa hækkað um nærfellt 100%, þá hafa framlög til landbrn. hækkað um 37–38%. Það er því augljóst mál, að hæstv. landbrh. hefur orðið undir í viðskiptum sínum við hæstv. fjmrh. og það var alls ekkert tilefni til þess, að hann kæmi í þennan ræðustól til þess að hæla sér af þessum málum og tala um þau í þeim dúr, sem hann gerði, að ekki væri tilefni til þess af hálfu einstakra þm. að finna hér nokkuð að.

Ég vil að síðustu taka það fram, að ég óska hæstv. landbrh. mikils árangurs í skiptum sínum við hæstv. fjmrh., og mér þætti vænt um, ef hæstv. landbrh. gæti borið höfuðið hátt, þegar hann finnur hvöt hjá sér til þess að flytja lofsöng um störf sín á þessu sviði, en þyrfti ekki svo mjög að treysta á kokhreysti og raddgæði eins og hann gerði við 2. umr. fjárlaga.