25.01.1973
Sameinað þing: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

Eldgosið í Vestmannaeyjum

Forseti (EystJ):

Ég býð hv. alþm. velkomna til þingfunda á ný eftir fundahléið og óska þeim farsældar á nýja árinu.

Síðan við vorum hér síðast saman á Alþ., hefur orðið einn geigvænlegasti atburður í sögu þjóðarinnar, þegar gjósa tók á Heimaey og íbúar Vestmannaeyja urðu að yfirgefa heimili sín og byggðarlag á einni nóttu svo gersamlega, að í eyði mátti kalla í bili.

Þyngst kemur þetta niður á því fólki, sem orðið hefur að yfirgefa allt sitt og stendur vegalaust uppi, en þjóðinni allri valda þessir atburðir stórfelldum búsifjum. Munu þessar náttúruhamfarir mörgu breyta, afleiðingarnar reynast þungbærar og hafa áhrif á hag hvers manns í landinu og það jafnvel þótt betur rætist úr en á horfist nú, sem við vonum fastlega, að verði.

Hljóta þessi atvik öll að hafa mikil áhrif á störf Alþingis á næstunni, því að hér hefur brostið um sinn ein styrkasta stoðin í atvinnulífi landsmanna, svo stórfellt hefur verið framlag Vestmanneyinga til þjóðarbúsins.

Læt ég í ljós þá von, að giftusamlega takist að ráða fram úr þeim miklu vandkvæðum, sem leysa þarf. Mun það auðvelda Alþ. og ríkisstj. störfin, að þjóðin vill tvímælalaust, að samábyrgð allra landsmanna komi til. þegar slíkir atburðir gerast, og margt mun leysast fyrir hjálpfýsi og fórnarlund manna, eins og þegar hefur komið fram. Þá mun miklu bjarga framtak, dugnaður og kjarkur þess fólks, sem hér á hlut að máli og líklegast er allra manna til þess að finna færar leiðir úr hverjum vanda.

Það fer ekki á milli mála, að hér á Alþ. munu menn snúa bökum saman við lausn þessara miklu vandamála, sem fjölmargir einstaklingar og þjóðin í heild standa nú frammi fyrir. Skýrist nú enn, að allir eru á sama bát, en með dugnaði, samhjálp og góðum samtökum mun þjóðinni takast að standast þetta áfall. Efa ég ekki, að Alþ. muni takast að vinna einhuga að málum þessum, og þannig mun þjóðin vilja láta að þeim vinna og vilja vinna sjálf og hefur þegar sýnt það í verki, eins og svo oft áður, þegar vanda hefur borið að höndum.

Rík ástæða er til að þakka þá einstöku guðsmildi, að ekkert manntjón varð við þessar hamfarir allar, einnig frábært björgunarstarf þeirra mörgu, sem við sögu koma. Þá ber að þakka stillingu og æðruleysi Vestmanneyinga, sem urðu fyrir þessu óvænta áfalli. Hefur framkoma þeirra vakið aðdáun alþjóðar, og mun minningin um það, með hvílíkum manndómi þeir brugðust við háskanum, lengi lifa með þjóðinni og reynast henni dýrmæt eign.

Bið ég hv. alþm, að taka undir þessar þakkir og votta samúð sína þeim, sem fyrir þessu þungbæra áfalli hafa orðið, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]