29.01.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

141. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda í Vestmannaeyjum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég er sem aðrir djúpt hrærður yfir því mikla áfalli og þeim þungu búsifjum, sem Vestmanneyingar hafa orðið fyrir vegna eldgosanna í Heimaey. Þetta er einstakur atburður í allri Íslandssögunni að því leyti, að eldgos hafa aldrei átt sér stað í slíku nágrenni við fjölmenna kaupstaðarbyggð. Ég verð að segja það, að ég hef aldrei séð aðra eins viðurstyggð eyðileggingar og við mér blasti, þegar ég kom til Vestmannaeyja á dögunum, eftir að vikur hafði lagzt yfir verulegan hluta Vestmannaeyjakaupstaðar á einni nóttu eða nokkrum klukkustundum, og hefur þó víst enn syrt að í Vestmannaeyjum, að því er öskufall og vikurfall snertir.

Það, sem hefur helzt komið til kasta minna rn., eru vitanlega bráðabirgðaúrræði í húsnæðismálum, en þar er allt meginverkefnið eftir. Ráðuneytisstjóranefndinni, sem hér hefur verið getið um, tókst á mjög skömmum tíma að útvega til naumra bráðabirgða húsnæði fyrir rúmlega 1000 manns, ef á þyrfti að halda, hér í borginni og nágrenni hennar, en höfðingskapur og gestrisni Reykvíkinga var slík, að engar ráðstafanir þurfti að gera af opinberri hálfu til þess að útvega Vestmanneyingum húsnæði fyrstu sólarhringana. Og það verð ég að segja, að það var vel af sérvikið. Bráðabirgðaúrræðin eru eingöngu til nokkurra vikna í flestum tilfellum, en nú er komið að því, að það verði að útvega varanlegra húsnæði, og það eitt er stórt verkefni.

Hitt verkefnið, sem við mér blasti strax, var vitanlega að athuga í samráði við vitamála- og hafnarmálastjórnina, hvaða hafnir kæmu til greina til þess að geta veitt Vestmannaeyjabátaflotanum aðstöðu. Kom í ljós, að þar var helzt að líta á höfn eins og Hornafjörð. Litið var á Eyrarbakka og Stokkseyrí í því efni, en þar eru hafnarskilyrði svo erfið, að varla eru nýtanleg fyrir aðra en þaulkunnuga heimamenn, og fram hjá þeim stöðum verður því sennilega að líta að mestu. Sá staðurinn, sem bezt liggur við, eins og kunnugt er, er Þorlákshöfn. En þar er höfnin yfirfull, og ef á að vera hægt, þótt ekki væri annað en veita Vestmannaeyjabátum þar afgreiðsluaðstöðu til þess síðan að flytja aflann á aðra verkunarstaði, yrði að gera umbætur á höfninni til að auka viðlegurými. Þá er það Grindavík. Þar eru miklir möguleikar til stækkunar á höfninni til þess að bregðast þarna skjótlega við. Þó gæti það ekki orðið fyrr en eftir 2–3 mánuði að verulegu marki. En þar er hægt með svo sem 50 millj. kr. framkvæmd að veita allt að 50 bátum aðstöðu til þess að fá þar afgreiðslu. Sá staður liggur mjög vel við verkunarstöðvunum á Suðurnesjum, og gæti þetta kannske orðið aðalúrræðið. Aðrar hafnir koma og til greina, en þessar eru þar í fyrstu röð.

Ég fagna þeirri eindrægni, sem hér ríkir um að afgreiða þessa þáltill., enda átti ég ekki annars von, því að ef nokkurt mál er til auk landhelgismálsins, sem er líklegt til að sameina alla þjóðina í einu átaki, þá er það þetta. Og við í ríkisstj, berum fram þessa till. af því fyrst og fremst, að við setjum þar öllu ofar, að allsherjarsamstaða innan flokka og milli flokka í þinginu öllu fáist um þetta mál, um lausnina á þessu mikla fjárhagsvandamáli, því að það geta vissulega verið skiptar skoðanir um, hvaða tekjuöflun eigi helzt að beita í grundvallaratriðum.

Ég hef þessi orð ekki fleiri. Ég endurtek það, að ég fagna þeirri samstöðu, sem þegar er séð, að verður um þetta mál, og þá efa ég ekki, að þeirri n., sem kosin verður samkv. þáltill., muni takast að ná allsherjarsamstöðu um fjáröflunarvandamálið.