25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. liggur nú hér fyrir til umr. og menn lýsa hver af öðrum stuðningi við það. Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni yfir þeim almennu stefnuorðum, sem komu fram í ræðu hæstv. trmrh. um málefni aldraðs fólks. Þau voru eins og lesin upp úr kosningaræðu sjálfstæðismanns. En hvað skeður fyrir næstu kosningar, hvort hann kemst undireins í aðra eins aðstöðu hjá okkur eins og hann er í núna hjá sínum flokki, það er ég kannske ekki alveg viss um. Maður veit þó aldrei, ef dugnaðarmenn eru einlægir í sínum hugsjónamálum.

Framan af ræðu hæstv. ráðh. saknaði ég þess nokkuð, að rætt væri um, að lausn á vandamálum aldraðra væri fólgin í öðru en svokölluðum vistunarmálum. Ég hugsaði einmitt: Skyldi ekki hæstv. ráðh. koma að því, hve mismunandi hið aldraða fólk er, rétt eins og við hin? Það er margt aldrað fólk, sem vill helzt ekki, — með allri virðingu fyrir þeim góðu stofnunum, dvalarheimilum aldraðra, — búa innan um aldrað fólk. Því finnst einfaldlega miklu skemmtilegra að vera með yngra fólki og vill fá að stunda sín störf svo lengi sem það getur. Þetta aldraða fólk auðgar líka anda okkar, sem yngri erum, og barnanna með því að flytja alveg frá fyrstu hendi reynslu og þekkingu liðinna kynslóða til okkar hinna. Og þetta er einmitt það, sem hið breytta heimilisform hefur í för með sér og kalla má, að sakna megi frá fyrri tíð. Ég held einmitt, að ýmsar ráðstafanir hins opinbera til þess að gera öldruðu fólki kleift að vera sem lengst beima hjá sér geti fært okkur aftur það, sem saknað verður núna af þessu tagi.

Í þessu sambandi ræddi hv. 2, þm. Sunnl. um hugleiðingar sínar og till. frá fyrri tíð um það, að gera þyrfti ráðstafanir til að gera öldruðu fólki fært að vera heima hjá sér í eðlilegu umhverfi sem lengst. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við, að neitt hefði verið aðhafzt í þessa átt, neitt gerzt, sem frekar gerði öldruðu fólki úti um sveitir fært að lifa þessháttar lífi í ellinni. Ég vil vekja athygli hv. þm. á lögum um heimilishjálp í viðlögum, sem sett voru árið 1952, og breytt var með lögum frá 22. apríl 1963, þar sem segir, að samkv. lögum þessum megi starfrækja heimilishjálp handa öldruðu fólki, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð þar um. Það kann að vera, að ýmsum sveitarsjóðum vaxi í augum umbrot við að koma slíkri heimilishjálp á, en tekið er fram í þessum lögum, að sveitarstjórn geti í umdæmi sínu falið sérstakri n, eða félagi eða einhverjum öðrum aðila að annast slíka heimilishjálp. Lög þessi kveða á um, að ríkissjóður endurgreiði 1/3 af hallanum, sem sveitarsjóðir og sýslusjóðir kunna að verða fyrir af þessari starfsemi. Á það má einnig benda, að í tryggingal. er ákvæði, eins og kunnugt er, um uppbót vegna mikils kostnaðar elli- eða örorkulífeyrisþega, sem dvelst í heimahúsum, t.d. vegna heimilishjálpar eða hjúkrunar á heimili, þannig að ég sé ekki betur en ef verulegur vilji er fyrir hendi, þá megi starfrækja slíka heimilishjálp allt að því án kostnaðar fyrir viðkomandi sveitarfélag.

Á undanförnum árum hafa ýmsir undrazt það, af hverju slík heimilishjálp hefur ekki verið starfrækt miklu víðar um land heldur en raun er á. Eins og við vitum, hefur verið unnið mikið átak á þessu sviði í Reykjavík og hefur gert ómetanlegt gagn öldruðu fólki hér í borg. Svo þyrfti sannarlega að vera víðar um landið. N. um velferðarmál aldraðra, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi hér áðan og skipuð var af fyrrv. félmrh., Eggert G. Þorsteinssyni, gerði sérstaka athugun á þessu máli. Hún skrifaði öllum sveitarstjórnum á landinu og spurðist fyrir um það, að hve miklu leyti þessi lagaheimild væri notuð til að starfrækja heimilishjálp, og ef hún væri ekki notuð, þá hvers vegna. Og það undarlega kom í ljós, að fjölmörgum sveitarstjórnum á landinu var ekki kunnugt um þetta lagaákvæði. Nú veit ég ekki hvort reynt hefur verið víða að fara út í að framkvæma þessi ákvæði til hjálpar öldruðu fólki, sem dvelst í heimahúsum, eftir þetta, en eitthvað mun hafa verið um það. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm, á þessu og sérstaklega utanbæjarþingmanna, því að ég tel fullkomna ástæðu til að láta berast til sem flestra sveitarstjórna, að þetta lagaákvæði getur gert stórmikið gagn, ef það er notað.

Loks vildi ég fara örfáum orðum um upplýsingadeild Tryggingastofnunar, sem hæstv. ráðh. nefndi hér áðan. Ég mun ekki tjá mig sérstaklega um það í einstökum atriðum, þar sem það mál er til meðferðar hjá tryggingaráði, en ég vildi aðeins taka undir þau orð, sem hér komu fram áðan, að það er ekki vítaverð embættisvanræksla hjá umboðsmönnum trygginganna úti á landi, þó að eitthvað hafi dregizt að greiða tekjutryggingu þá, sem kveðið var á um í lögum hér um s.l. áramót og raunar einnig í lögum, sem samþ. voru seinast á valdaferli viðreisnarstjórnarinnar. Reglugerð um þetta atriði var tilbúin síðari hluta janúarmánaðar, og þótt hún væri tilbúin, þá var eftir ýmislegt annað. Á starfsmönnum trygginganna hvíldi sú skylda að afla upplýsinga um efnahag lífeyrisþeganna. Afla þurfti skattskýrslna frá skattstofum, og sinn tíma tók að fá þær afgreiddar. Ég tek ekki að mér að verja að öllu leyti þann drátt, sem viða varð á þessu, en að einhverju leyti má skrifa sök þessa á reikning annarra en umboðsmannanna sjálfra.

Þá vek ég einnig athygli á því, að svo ágætt sem það er, að sem mest upplýsingastarfsemi um rétt bótaþeganna fari fram innan Tryggingastofnunarinnar sjálfrar, e.t.v. með stofnun sérstakrar deildar, er hitt skýrt og ótvirætt í Íögum, að sú skylda hvílir á starfsmönnum trygginganna að upplýsa fólk um bótarétt þess. Ég skal láta ósagt um það, hvort það þarf að vera sérstök deild eða sérstakur starfsmaður til stjórnar á upplýsingastarfi. Skiljanlega getur það verið tafsamt í fjölmennu umdæmi eins og t.d. hér í Reykjavík, ef kanna á nákvæmlega hag hvers og eins, um leið og hann kemur að afgreiðsluborðinu. En til eru fleiri form heldur en það að afgreiða þessar upplýsingar svona einfaldlega yfir borðið, um leið og bæturnar eru sóttar. Ég vil sérstaklega benda á og hvetja til, að gefnir verði út bæklingar, sem sendir verði heim til þeirra hópa fólks, sem bótarétt eiga á þessu og þessu sviði trygginganna. Sérstaklega er þetta einfalt, má segja, varðandi þá, sem komast á ellilífeyrisaldur. Ég hef séð í öðru landi slíkan bækling, sem fólk fékk 67 ára gamalt. Lífeyrisaldurinn, var bókarheitið og undirtitill: Hvaða rétt á ég? Í þessum litla bæklingi fólust mjög einfaldar og glöggar upplýsingar um, hvaða úrræði voru fyrir hendi fyrir þann, sem komst á elli aldur, bæði á sviði trygginganna og af hálfu hins opinbera yfirleitt. Á þetta mikilvæga atriði í þessu sambandi vildi ég benda, þegar hugleitt er að stofna slíka upplýsingadeild eins og hæstv. ráðh. nefndi hér áðan.