25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég sé nú ekki hæstv. heilbrmrh., en líklega má hann heyra mál mitt eigi að síður. En það var aðeins örlitið, sem ég vildi segja. Hæstv, ráðh. talaði um, að ræða mín hefði verið skrýtin, ég hefði m.a. farið að tala um fjárl. En það er ekkert skrýtið að minnast á fjárlögin, um leið og verið er að hugsa um að lögfesta útgjaldalið, allháan, enda þótt hann sé vegna góðs málefnis. Þá er eðlilegt, að á þau sé minnzt. En mér þótti vænt um, að hæstv. ráðh. vildi ekki viðurkenna, að hann hefði sagt beinlínis eða óbeinlínis, að sjálfstæðismenn væru eigingjarnir eða verri menn en aðrir. Hann vill ekki viðurkenna, að hann hafi sagt þetta. En það segir til sín á segulbandinu, hvað hann hefur sagt. Hann sagði, að sjálfstæðismenn væru gróðahyggjumenn og athafnir þeirra miðuðust við það eitt að græða. Af því leiðir, að þeir séu sérstaklega eigingjarnir. Það er þess vegna, sem ég mótmælti og taldi þessi orð hæstv. ráðh. óviðeigandi og mælt af hræsni. Jafnvel hann sjálfur virðist bera á sér skikkju hræsninnar og þykist alls ekki hugsa um sjálfan sig, heldur aðeins um aðra. Vitanlega eru allir meira og minna eigingjarnir, það er mannlegt eðli. Við erum allir eigingjarnir meira og minna. En úr því að hæstv. ráðh. vill nú ekki viðurkenna að hafa sagt þetta, þá legg ég til, að hann athugi það við skrifstofustjóra Alþingis, hvort hann geti ekki losnað út úr þessu með því að strika þessi orð út úr ræðunni. Þá koma þau ekki fram í þingtíðindunum og verða ekki hæstv. ráðherra til skammar í framtíðinni. Þá getur þetta alveg fallið niður. Ég er reiðubúinn til þess að láta sem þessi orð ráðh. hafi aldrei verið töluð. En mér er ekki kunnugt um, hvort þm. er leyfilegt að strika það, sem þeir hafa sagt, út úr ræðum. Bezt gæti ég trúað því, að hann fengi í þessu tilfelli leyfi hjá skrifstofustjóra Alþingis til þess að strika þetta út, vegna þess að það yrði annars alla tíð mikil óprýði á þingtíðindunum og vondur vitnisburður fyrir hæstv. ráðh., sem mundi fylgja honum alla tíð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta, en ég er feginn því, að hæstv. ráðh. vill ekki kannast við þau ljótu orð, sem hann viðhafði.