08.02.1973
Sameinað þing: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala hér langt mál, því að þeir félagar mínir, sem eru flm. að þessari till., eru búnir að taka til meðferðar flest það, sem ástæða er til að svara úr ræðum þeirra hv. þm., sem hafa talað hér á móti þessari þáltill. En það er ýmislegt fleira, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði í sínum ágætu ræðum 1963 og 1965, heldur en það, sem 1. flm. las hér upp áðan, t.d. þetta, með leyfi forseta:

„Ég vil taka það fram, að þetta ákvæði verður áreiðanlega notað mjög varlega,“ — þ.e.a.s. vegtollurinn. — „Ég vil enn fremur taka það fram, að áður en sú ákvörðun er tekin að innheimta slíkan toll, þá þarf að gera ýmsar athuganir, áður en slíkt getur átt sér stað, til þess að koma í veg fyrir, að það verði unnt að halda því fram, að níðzt sé á einu byggðarlagi frekar en öðru.“

Það fer ekki á milli mála, að hv. þm., sem þá var samgrh., leit þannig á, að ef aðeins væri settur slíkur tollur á einn veg en ekki annan, þá væri verið að níðast á því byggðarlagi. Og það var það, sem hv. 2. þm. Reykn., eftir því sem kemur fram í ræðum hans frá þeim tíma, grunaði alltaf samgrh. um, að aldrei yrði lagður vegtollur á annan veg eða a.m.k. ekki á veginn til Sunnlendinga.

Annars var mjög athyglisverð og skemmtileg ræða, sem hv. 2. þm. Reykn. flutti hér 1. febr. Hann kom þar fram með mjög veigamikil rök fyrir því, að bifreiðaeigendur væru misjafnlega skattlagðir eftir því, við hvernig vegi þeir byggju, þó að niðurstaðan væri dálítið skrýtin. Ég sagði, að hv. þm. hefði komið fram með mjög veigamikil rök fyrir því, að bifreiðaeigendur væru misjafnlega skattlagðir eftir því, við hvernig vegi þeir byggju. Hann sagði t.d. í sinni ræðu, að það hefði komið fram í athugun, sem hefði verið gerð í Bretlandi, að viðhaldskostnaður og eyðsla væru helmingi minni hjá þeim bílum, sem ækju eftir malbikuðum vegum, en þeim, sem ækju eftir malarvegum. Hvað skyldi þá munurinn vera mikill hér á okkar landi, þar sem sumir menn verða að brjótast áfram á bílum sínum og eru kannske með öndina í hálsinum, hvort þeir komist næstu metrana eða ekki, en við slíkar aðstæður búa því miður margir bæði vor og vetur? Sú þjónusta, sem hið opinbera lætur þessum mönnum í té, er allt önnur en t.d. hér í kringum aðalþéttbýlið. Hvers vegna skyldu menn þá ekki fara að eins og hv. þm. sagði í sinni ræðu? Hann sagði eitthvað á þá leið, að grundvallarforsenda réttlátrar skattlagningar væri, að menn borguðu sömu gjöld við sambærilegar aðstæður. Ég er alveg sammála honum um þetta. En það eru ekki sambærilegar aðstæður, t.d. hvort er alltaf tekið föl af vegi, jafnóðum og það kemur, eins og hér er, eða hvort menn þurfa að brjótast áfram í ófærð. Viðhaldskostnaðurinn verður þá margfaldur og eyðslan, miðað við þá, sem búa við vegi eins og eru hér í grenndinni. Ég þekki þetta hvort tveggja.

Hv. þm. sagðist ekki leyna því, enda þýðir það ekki fyrir neinn, að það væri allt annar viðhaldskostnaður t.d. á Suðurnesjum fyrir þá, sem þar búa, eftir að þessi varanlegi vegur var tekinn í notkun

Menn eru nú flestir farnir að tala um, að það þurfi að vinna að jafnvægi í byggð landsins og halda hinum dreifðu byggðum uppi. Það var glott að því hér fyrstu árin, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. var með till. um þetta efni. En hver er það nú, sem a.m.k. í orði kveðnu vill ekki hafa riðið á vaðið í þessu efni? En þegar er farið að ræða þessi mál, þá má ekki vinna að því á nokkurn hátt, heldur þarf að viðhalda óréttlætinu.

Það er alveg rökrétt, sem kom fram í ræðu hv. 1. flm. áðan og hv. 1. þm. Vestf., að auðvitað kostar aksturinn langtum meira fyrir þann, sem fer sömu vegalengd á hinum vondu og erfiðu vegum. Þeir borga langtum meira, jafnvel þótt þessi skattur væri álagður eða einhver sambærilegur skattur. Annars verð ég að segja það, eftir að hafa hlustað á þessar umr. og sérstaklega á ræður þeirra, sem fluttu hér mál sitt 1. febr., hv. 1. þm. Sunnl. og hv. 2. þm. Reykn., að það er vel hugsanlegt að athuga það að skattleggja þetta á annan veg en þessi þáltill. ber með sér.

En ég vil bara minna á, að við erum hér að fara í troðna slóð 1. þm. Sunnl. Það var hann, sem var upphafsmaður og talsmaður að þessari aðferð í sambandi við þessa skattheimtu, þó að hann segi nú, að það séu ekki haldgóð rök að benda bara á þessa einu hlið og horfa bara á þessa stuttu hraðbrautarspotta, eins og hann komst að orði. Ég held, að það gæti vel komið til greina að setja á slíkan skatt, að þeir, sem búa á þeim svæðum, sem þessir varanlegu vegir eru komnir á, borgi meiri skatt, og vegirnir séu eitthvað flokkaðir, þannig að þeir, sem búa við versta þjónustu að þessu leyti, borgi langminnst. Það er hægt að prófa það í raun og veru, hvernig væri hægt að skipta þessu, þannig að það kæmi réttlátlega út. Hvað haldið þið, að það kosti að fara langar vegalengdir, t.d. á Norðausturlandi, þar sem er mokað einu sinni í mánuði, brjótast áfram í ófærð marga tugi eða jafnvel hundruð km? Hvað haldið þið, að það kosti? Eiga þessir menn að borga sama skatt af bifreiðum sínum eins og þeir, sem hafa allt aðra þjónustu? Er það réttlætið, sem hv. þm. eru að berjast fyrir, t.d. hv. 11. landsk. þm? Er það þetta, þessi byggðastefna, sem þið eruð að ræða um og stefnið að? Viljið þið viðhalda og auka óréttlætið í þjóðfélaginu? Eða er það í raun og veru það, sem verið er að vinna að, að reyna að koma þessum byggðum á kné? Það er ákaflega eðlilegt, að það fólk, sem er í hinum dreifðu byggðum og finnur, að það býr við allt önnur kjör og allt önnur skilyrði, fari hingað. Það er ákaflega eðlilegt. Að þessu er líka unnið leynt og ljóst, þó að menn séu kannske feimnir við að kannast við það hér í þingsölunum.

Ég er alls ekki að halda því fram, að það sé rétta leiðin í þessu að setja á vegtolla. Það getur ýmislegt annað komið til greina. Og ég vil endurtaka það, að það þarf að athuga þetta allt saman. En hitt legg ég áherzlu á, að það á að reyna að jafna þarna bilið og menn eiga að borga miðað við þá þjónustu, sem þeir fá.