14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að ráði úr þessu. Það verður nægt tilefni til þess að ræða efni þeirra atriða, sem hér er um að ræða, við önnur tækifæri. En nokkur orð kemst ég ekki hjá að segja að gefnu tilefni.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans í tilefni af ræðu minni. Ég vek athygli á því, að hæstv. forsrh. sagði umbúðalaust og þannig, að ekki varð misskilið, að hann og þá væntanlega hans flokkur, stærsti flokkur ríkisstj., vill, an samningurinn við Efnahagsbandalagið verði staðfestur fyrir 1. marz n.k. Það hefur hæstv. viðskrh. aldrei sagt. Það er einmitt það, sem við erum að biðja hann um að segja skýrt og svara með jái eða neii. Vill hann staðfesta þennan samning fyrir 1. marz, eða vill hann það ekki? Ég hef beðið um já eða nei. Ég fékk hvorugt. Það vona ég, að allir hv. þm. hafi heyrt glöggt. Hann er að snúa út úr málinu með því að segja: auðvitað vilji hann staðfesta samninginn, en hann vilji fyrst láta Efnahagsbandalagið falla frá sínum fyrirvörum. Það er enginn vandi að svara svona. Auðvitað vildu allir helzt, að Efnahafsbandalagið félli frá fyrirvörum sínum. Spurningin var ekki um það. Við erum allir hjartanlega sammála um það. Spurningin er hins vegar um hitt: Eigum við að staðfesta samninginn vegna iðnaðarins og vegna mikilvægra hagsmuna sjávarútvegsins, þótt Efnahagsbandalagið falli ekki frá fyrirvörum sínum. Það er mergurinn málsins. Það er sú spurning, sem á að svara með jái eða neii. Það hefur hæstv. forsrh. gert, og það met ég mjög mikils, að hann skuli hafa gert. Það er okkur, sem höfum haft áhyggjur af þessu máli, til mikils léttis að heyra það, að hann hefur skýra og ákveðna skoðun á málinu. En það hefur hæstv. viðskrh. ekki. Hann segir hvorki já né nei. Hann þarf ekki annað en segja annaðhvort, þá vitum við, hvar við höfum hann. En það er í þessu máli eins og fleirum, að hvorki ég né aðrir vitum, hvar við höfum hann.

Ég vil einnig þakka hæstv. forsrh. fyrir ummæli hans um aðdragandann að frv., sem ríkisstj. samdi eða lét semja, þeim tveim frv. Hann staðfesti í einu og öllu, — á því vil ég vekja athygli, — hann staðfesti í einu og öllu frásögn mína af málinu og leiðrétti þar með ummæli hæstv. iðnrh. og ummæli ritstjóra Tímans á sunnudegi. Ég vek athygli á því, að hæstv. forsrh. staðfesti, að það væri rétt, sem ég sagði, að fyrsta frv., fyrra frv., sem sérfræðingarnir sömdu, var samið samkv. fyrirmælum hans og þá auðvitað að afloknum umr. á ríkisstjórnarfundi eða fundum. Það kom skýrt fram, að það var eftir fyrirmælum hans, eftir umboði frá honum, sem sérfræðingarnir sömdu frv., og því auðvitað algerlega óeðlilegt og rangt að kenna það við sérfræðingana. Þetta var frv. samið út frá stjórnmálasjónarmiðum og samkv. stjórnmálafyrirmælum. Þess vegna er furðulegt, að hæstv. viðskrh. skuli enn, nú rétt áðan, halda því fram, að þetta frv. hafi verið ríkisstj. óviðkomandi. Þetta er óvenjuleg ósvífni í garð hæstv. forsrh., sem var nýbúinn að segja það hér á undan honum, að frv. hafi verið samið samkv. sínum fyrirmælum og í samráði við sig. Ég öfunda ekki hæstv. forsrh. að búa í slíkri sambúð.

Í tilefni af ræðu hæstv. viðskrh. vil ég aðeins segja örfá orð. Hann gekk í ummælum sínum um vísitölufrv. fram hjá ummælum Björns Jónssonar, forseta Alþýðusambandsins, við dagblað í morgun, hann nefndi það ekki. Þau voru megintilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs. Það er í þeim, sem kemur fram, á hversu veikum grunni hæstv. ríkisstj. stendur. Þau eru sönnun þess, að það eru að gerast hlutir, sem engin fordæmi eiga sér, að ríkisstj. leggur fram stjfrv. án samráðs við stuðningsflokka sína. Að vísu kemur í ljós, að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að gera það að fráfararatriði. Það er út af fyrir sig gott að hafa fengið yfirlýsingu um það. En hitt stendur ómótmælt, að ríkisstj. hafi ekki haft samráð við Alþýðusambandið og að málið hafi ekki verið lagt fyrir þingflokk eins af stuðningsflokkum ríkisstj. Það kom fram í ummælum Björns Jónssonar í morgun. (Gripið fram í; Það féll stjfrv. hjá fyrrv. stjórn.) Það var undir allt öðrum kringumstæðum og átti ekkert skylt við þetta. (Gripið fram í: Það er ekki satt.) Það hafði legið fyrir varðandi það frv., því hafði verið lýst yfir í ríkisstj. áður, að það væri ágreiningur í öðrum stjórnarflokkanna um málið, og meira að segja voru tilgreindir ákveðnir menn, sem mundu greiða atkv. á móti frv. Því hafði verið lýst yfir, og það vissi öll ríkisstj. og allir stjórnarflokkarnir, að málavextir voru þannig. Engu að síður var ákveðið að leggja frv. fram, vegna þess að vitneskja þótti liggja fyrir um það, að annar stjórnarandstöðuflokkurinn eða hluti hans mundi greiða frv. atkv. Hafði verið lýst yfir á fundi í félagi framsóknarmanna hér í Reykjavík, þar sem frv. hafði verið rætt, ákveðnum stuðningi við frv., og við höfðum nákvæmar fregnir af því. Það er ekkert leyndarmál, ég er ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli nú. Við höfðum þær fregnir, að í Framsfl. væri mjög skiptar skoðanir um málið og langlíklegast væri, að helmingur hans mundi standa með frv. og hinn helmingurinn á móti. Þess vegna var frv. lagt fram til að láta á það reyna. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að Framsfl. snerist allur gegn frv., og þar með féll það. Það kom ekkert á óvart, að það skyldi falla, fyrst svona var. (Gripið fram í: Verður ekki Alþfl. með þessu frv.?) Ég mun gera grein fyrir því á eftir, hver afstaða Alþfl. er, ég skal ekki blanda þeim umr. inn í þetta mál. En ég skal leiða í ljós röksemdir okkar í því máli við umr. um frv. á eftir.

Ég endurtek, að það er furðulegt, að einn af ráðh. ríkisstj. skuli enn halda fast við þá skoðun, að fyrra frv. hafi ekki verið frv. ríkisstj. heldur frv. embættismanna, eftir orð hæstv. forsrh. Og ég kemst ekki hjá að segja, að það hlýtur að vakna sú spurning smám saman meðal embættismanna, hvort þeir geti unnið fyrir ráðh. í þeirri ríkisstj., sem hegðar sér með þeim hætti, sem hér á sér stað.

En nú skal ég, fyrst hæstv. viðskrh. byrjar efnisumr. um málið allt, þá skal ég nú, — ég er hér með seinna frv. með mér, — vitna í nokkrar gr., sem eru sameiginlegar í frv. báðum, sem voru auðvitað hvort tveggja frv. ríkisstj., þó að hæstv. viðskrh. vilji kalla fyrra frumvarpið frv. embættismanna og seinna frv. sitt. Hann afneitar þó ekki seinna frv. Því getur hann ekki afneitað.

Í 10. gr. þess er ákvæði um, að frestað skuli kaupgjaldshækkuninni 1. marz um 6–7%. Ákvæðið um þá frestun er í 10. gr. Þar er líka ákvæði um það, að kaup skuli lækka á þeim vinnustöðum og hjá þeim verkalýðsfélögum, sem voru þegar búin að fá í sína samninga ákvæðið um hækkunina, sem átti að koma til framkvæmda 1. marz. Þetta verður þó hæstv. viðskrh. að játa, að sé sitt frv., úr sínu frv.

Í 12. gr. er ákvæði um það, að allar kauphækkanir skuli bannaðar til septemberloka. Þar er bann gegn kauphækkunum til septemberloka. Þetta var stefna hæstv. viðskrh.

Í 13. gr. er ákvæði um að binda kaupgjaldsvísitöluna, alveg óháð því, hver framfærsluvísitala eða hver rétt kaupgreiðsluvísitala yrði.

Og í 8. gr. er ákvæði um 2% hækkun á söluskatti, sem ekki skuli verða bættur með kauphækkun vegna skerðingar vísitölunnar.

Þessi atriði eru sameiginleg í frv. báðum, og ekki þýðir fyrir nokkurn ráðh. að afneita þessu. Þessi atriði fengu þingflokkarnir allir lögð fyrir sig fyrir umrædda helgi. Það var hið eina rétta, sem hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, það er rétt, að við í Alþfl. sögðum, að á það eitt gætum við fallizt í þessu frv. að fresta kauphækkuninni 1. marz, ef ekkert annað yrði að gert. Við neituðum m.ö.o. algerlega að blanda saman Vestmannaeyjavandanum annars vegar og almennum efnahagsvandamálum þjóðarinnar hins vegar. Efnahagsvanda Vestmanneyinga hefði mátt leysa með kaupfrestuninni einni saman, hún átti að gefa 2050 millj. kr. En öll hin atriðin, skerðingu á vísitölunni, söluskattshækkun án kauphækkunar, bann gegn kauphækkunum, allt þetta töldum við vera af almennum efnahagsvandamálum þjóðarinnar og frv. með þessum ákvæðum mundum við aldrei samþykkja. Þess vegna værum við andvígir frv., eins og okkur barst það, frv. í heild. Við gerðum auðvitað ráð fyrir samráði við stjórn Alþýðusambandsins. Ef hún vildi fresta kauphækkuninni og láta við það eitt sitja, þá skyldum við fyrir okkar leyti sýna þá ábyrgðartilfinningu að vera því meðmæltir. Þetta veit ég, að hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. og ábyggilega líka hæstv. viðskrh. vita, að er nákvæmlega sannleikanum samkv.

En þessum hugmyndum okkar var hafnað. Þeim var hafnað annars vegar af þingflokki SF, sem vildi með engu móti fallast á kaupfrestunina, og af hinum stjórnarflokkunum, sem vildu halda fast við vísitöluskerðinguna, kaupgjaldsbannið og söluskattshækkunina án kaupuppbóta, því að þessi atriði voru í frv., sem 7 manna n. fékk lagt fyrir sig. Það var enn stefna ríkisstj. að fresta kauphækkunum, að hækka söluskatt án kaupuppbóta, að skerða vísitöluna og að banna kauphækkanir, — þetta er enn stefna hæstv. ríkisstj. umræddan mánudag, þegar 7 manna n. var kosin. Hún vissi þá, að þetta mundi Alþfl. sem heild aldrei samþykkja. Frá því var ég búinn að skýra hæstv. forsrh., bæði á laugardeginum og ítreka það aftur á sunnudaginn, svo að hér fer hæstv. sjútvrh. eins rangt með efni máls og hægt er að fara.

Það var ekki minn vilji að draga efnisatriðin með jafnítarlegum hætti og þetta inn í þessar umr. En hæstv. viðskrh. gaf tilefni til þess. Um vísitölumálið ræði ég auðvitað ekki núna, heldur mun gera það, þegar það kemur á dagskrá á eftir.

En síðustu orð mín í þessum umr. skulu gera þau, að ég tel það jákvæða hafa fengizt út úr heim, að hæstv. forsrh., stjórnarformaðurinn, hefur lýst yfir, að hann vilji staðfesta Efnahagsbandalagssamninginn fyrir 1. marz, og ég endurtek ánægju mína yfir þessari yfirlýsingu. Ég tel líka það jákvætt hafa fengizt út úr þessum umr., að hæstv. forsrh. hefur staðfest, að bæði frv. voru auðvitað frv. ríkisstj., samin samkv. pólitískri ákvörðun, þótt það raunar skipti ekki svo miklu máli, því að sömu aðalatriðin voru í þeim báðum. Ég hef gert málið að umtalsefni einungis vegna þess, að það er óviðunandi fyrir embættismenn að búa við það, að þeim séu kenndar skoðanir, sem þeir eiga ekki, að þegar þeir vinna dyggilega störf fyrir ríkisstj., þá skuli þeim eignaðar pólitískar skoðanir, pólitískar ákvarðanir eða pólitísk ákvörðunaratriði, sem þeir eru að framkvæma eftir ósk sinna yfirmanna.

Það þriðja hefur svo komið fram í þessari umr., sem að vísu ekki er eins ánægjulegt, en allir fyrir fram vissu, að hæstv. viðskrh. á ákaflega erfitt með að segja satt.