26.10.1972
Sameinað þing: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Umræður utand dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvik Jósepsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ég hefði svarað hér út í hött þeim fsp., sem bornar hefðu verið fram. Ég svaraði spurningunum nákvæmlega. Ég var spurður, hvort það, sem hæstv. forsrh. sagði, væri frásögn af því, sem gerzt hefði á ríkisstjórnarfundum. Ég svaraði því neitandi. Er það svar út í hött?

Þá var ég spurður, hvort það, sem hæstv. forsrh. sagði, bæri vott um ágreining í ríkisstj. Ég svaraði því neitandi. Þetta voru þær tvær fsp., sem bornar voru fram. Svo kemur hér hv. 1. þm. Reykv. og segir, að þessum spurningum hafi verið svarað út í hött. En hann spyr mig svo, hvort ég hafi verið sammála því, sem hæstv. forsrh. sagði, rétt eftir að ég hafði skýrt hér frá því, að ég hefði ekki haft tækifæri til þess að hlusta á, hvað hann sagði. Hann ætlast sýnilega til mjög mikils af mér, að ég geti svarað því án þess að hafa fyrir fram heyrt orð hæstv. forsrh. Ég hafði heyrt um það, að hann hafði m.a. minnzt á, að það gæti verið nauðsynlegt að halda verðlagi stöðugu á næsta ári með ein hverjum litlum frávikum. Ég er honum gersamlega sammála um þetta. En ég veit ekki til þess, að á milli mín og hæstv. forsrh. sé nokkur minnsti ágreiningur varðandi þessi mál. Ég hef ekki orðið var við hann, og á ekki von á því, að neitt það hafi komið fram hjá hæstv. forsrh., sem geri það að verkum, að það skilji eitthvað á milli okkar leiða.

En hitt hef ég sagt og get endurtekið hér, að ég er ekki tilbúinn til þess að svara því á þessari stundu, hvað eigi að gera til lausnar á þeim efnahagsvandamálum, sem við er að fást, m.a. vegna þess, að það liggur ekki enn ljóst fyrir, af hvaða stærðargráðu þessi vandamál eru. Ég treysti mér t.d. ekki til þess að segja til um það á þessari stundu frekar en forsvarsmenn útgerðarinnar í landinu, hvað muni þurfa að styðja útgerðarreksturinn mikið á næsta ári. Á meðan þeir hafa ekki treyst sér til þess að setja fram sínar kröfur og ekki hefur heldur verið þingað um þær á venjulegan hátt, þá er ég ekki við því búinn að svara því, hvað þarna þarf mikið að gera. Eins og ég hef sagt hér áður, þá er mér ljóst, að inn í það dæmi koma bæði stórir plúsar og mínusar, og það þarf að gera það dæmi upp í heild. Svipað má segja um ýmislegt annað, sem inn í þetta mál kemur. En ég ætla ekki að fara að ræða það á þessari stundu, því að það liggur ekki fyrir að ræða hér utan dagskrár og við þetta tækifæri, hvaða leiðir á að fara til lausnar á okkar efnahagsvandamálum.