15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. í sambandi við þáltill. þá, sem hér er til umr., á þskj. 265, vil ég geta þess, að ég tel, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða. Ég tel mig muna það rétt, að eitt að þeim fyrstu málum, sem ég tók þátt í að flytja á hv. Allt., þegar ég var til þess kjörinn að sitja hér, var einmitt till. til þál. um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Þetta mál hefur nú verið alllengi til meðferðar, og hafa verið gerðar ýmsar athuganir, eins og hv. 7. þm. Reykv. greindi frá, en ljóst er, að málinu hafa ekki verið gerð þau skil, sem nauðsyn ber til. Það er enginn vafi á því, að það ber nauðsyn til að fá heildarskipulag á lífeyrissjóði allra landsmanna, í fyrsta lagi vegna þeirra, sem njóta ekki lífeyrisréttinda, en þeim fer að sjálfsögðu alltaf fækkandi, vegna þess að lífeyrissjóðum hefur fjölgað, og svo hins, hve geysilegur mismunur er í sambandi við eftirlaunagreiðslur úr sjóðunum. Það er enginn vafi á því, að í okkar kerfi nú er langmesti launamismunur í sambandi við greiðslu úr lífeyrissjóðnum, vegna þess að sumir menn geta tekið greiðslur úr mörgum lífeyrissjóðum samtímis og fengið hærri launagreiðslur þar en þeir höfðu, meðan þeir voru að starfi áður.

Ég er því fylgismaður þess, að þetta mál verði athugað mjög gaumgæfilega. Ég hef látið vinna nokkuð í fjmrn. að endurskoðun á því og tel, að það eigi að reyna að ná samstarfi við hina ýmsu lífeyrissjóði um heildarskipulag á þessum málum. Tel ég rétt, að þetta komi fram, og skal geta þess, að það var áður búið að vinna nokkuð að þessu máli, og frv. þar að lútandi var sent til þeirrar n., sem vinnur að endurskoðun tryggingamálanna. En auk þess hefur verið nokkuð að þessu máli unnið innan fjmrn. á s.l. ári og er nú gert, og það er nauðsynlegt að koma á þessi mál betra heildarskipulagi en nú er.