20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er næsta furðulegt að heyra úr íslenzkum munni því haldið fram, að útfærsla okkar á landhelginni hafi orðið til þess að auka afla Breta. Hitt kannast ég vel við, að tilteknir áróðursmenn í Bretlandi halda því fram, að þetta hafi ekki sakað þá neitt, þó að þeir hljóði svo mikið á milli yfir þeim kjörum, sem þeir búa nú við, að þeir hóti því að gefast upp og sigla heim og hætta með öllu. Allir, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, vita mætavel, að hér er um hreinar áróðurstölur frá Bretlandi að ræða, sem fá ekki staðizt. Í fyrsta lagi er hér ekki um sambærilegan flota að ræða, og í öðru lagi er það, að menn eru að bera hér saman stutt tímabil, þar sem fiskafli getur auðvitað breyzt eftir veðráttu á milli ára, en raunverulega hefur afli skipanna stórkostlega minnkað. Það hefur líka komið skýrt fram í brezkum blöðum. En hv. þm. hirðir ekki mikið um að skýra frá því, þegar Bretar geta þess, hvað þeir hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna útfærslunnar, enda má fara nokkuð nærri um það, þegar þannig hefur farið, að Bretar verða að sætta sig við að fiska á svæði, sem varla nemur 1/6 af heildarmiðunum, að þá hafi það ekki orðið til þess, að þeir fiskuðu miklum mun meira. En hvað um það, það verður að hafa það eins og það er, þó að í okkar hópi finnist einstaka menn, sem taki hér upp hanzkann fyrir Breta í þessum málum.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi sig hafa skilið mig þannig, að ég hefði sagt, að það væri ekki við því að búast, að málin lægju nægjanlega skýrt fyrir, til þess að búast mætti við lausn á deilunni, fyrr en n. sú, sem ég gat um, hefði skilað störfum. Þetta hef ég vitanlega aldrei sagt. Ég sagði þvert á móti hitt, að ég teldi, að það væri mjög eðlilegt að semja um launakjör sjómannanna, sem lýst hafa yfir verkfalli, á þeim megingrundvelli, að launakjör þeirra yrðu sambærileg við það, sem launakjör sjómanna eru á öðrum skipum, sem búið er að semja um. Ég hef því talið, að það hefðu átt að vera allar forsendur fyrir því að semja um launin, þar sem það lá þar að auki fyrir, að það bar raunverulega mjög lítið á milli. En ég þekki líka þær röksemdir, sem koma upp á móti þessu frá hálfu togaraeigenda, og það eru nákvæmlega sömu rökin og koma fram frá hv. 2. þm. Reykv., en hann sagði hér, að útgerðarmenn væru raunverulega ekki þess umkomnir að semja um neitt, á meðan þeir vissu ekki um rekstrarafkomu flotans. Hér er um að ræða mismunandi skoðanir: Er eðlilegt að semja um hliðstæð launakjör fyrir hásetanna á togurunum eins og samið hefur verið um fyrir sjómenn á öðrum fiskiskipum? Er þetta eðlilegt? Eða á hitt að ráða að halda því fram, að afkoma togaranna leyfi ekki svona góð kjör og af því sé ekki hægt að semja um þau? Þessi sjónarmið eru á lofti. Hv. 2. þm. Reykv. talar alveg eins og einn af togaraeigendunum í þessu máli, og er það kannske ekki með öllu óskiljanlegt, því að hann er ekki aldeilis óskyldur stærsta togaraútgerðarfélaginu, sem hér á hlut að máli. Ég álít fyrir mitt leyti, að það sé hitt sjónarmiðið, sem eigi að ráða, að það eigi að semja um hliðstæð kjör fyrir sjómennina á togurunum eins og fyrir aðra sjómenn, síðan verði að ganga út frá þessari almennu forsendu um launagreiðslur á togurunum, þegar ákveðið er, hvað skuli veita þeim mikinn sérstakan rekstrarstyrk umfram aðra útgerð. Ég teldi ákaflega óhyggilegt að málum staðið að ákveða nú fyrst rekstrarstyrkinn til togaranna og síðan ætti að halda áfram við samningaborðið og þæfa um þær kröfur, sem þar liggja frammi frá ýmsum aðilum. Ég dreg mjög í efa, að það mundi greiða fyrir lausn málsins, eins og málin liggja fyrir nú.

Ég taldi ekki rétt í svari mínu áðan og tel ekki rétt að fara á þessu stigi málsins að kveða upp neinn dóm um það, hvort ég álíti afstöðu togaraútgerðarmanna eða togarasjómanna hafa verið réttilegri í samningagerðinni. Ég læt bíða að segja álit mitt á því. Hitt hef ég sagt alveg skýrt, að ég álít, að það hefði átt að vera grundvöllur til þess að ná samkomulagi við þá, sem lýst höfðu yfir verkfalli, því að mér sýndist bera orðið svo lítið á milli og kröfur sjómanna vera svo eðlilegar.

Það er vitanlega alveg út í loftið að segja, að í sambandi við þetta verkfall hafi verið um einhvern seinagang að ræða hjá sjútvrh. Sjútvrh. ræður ekki gangi þessa verkfalls. Áður en verkfallið skall á, margræddi ég við aðila og vakti aneð þeim a. m. k. tvær nætur í röð til þess að reyna að ná samkomulagi. En það var vitanlega ekki á mínu valdi að segja togaraeigendum fyrir um það að semja og ekki heldur sjómönnum. Ef útgerðarmenn hefðu lagt fram sérstakar kröfur um stuðning sér til handa og þeim hefur ekki verið svarað, þá hefði mátt segja, að staðið hafi á ríkisvaldinu. Hins vegar hefur því verið lyst yfir af hálfu ríkisstj., að hún væri fús til þess að ræða um sérstakan stuðning við togaraútgerðina, en hún teldi, að áður en sá stuðningur væri ákveðinn, væri eðlilegt, að búið væri að semja um þennan þýðingarmikla kostnaðarlið, sem er laun áhafnar.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal, að samkomulag hafði tekizt á milli togaraeigenda og sjómanna um mannafjöldann á skipunum. Það tel ég hafa verið mjög þýðingarmikið atriði í samningunum. Einnig höfðu náðst samningar um önnur mjög mikilvæg atriði, sem samningamálin snerust um. En það hafði ekki orðið fullt samkomulag um fastakaupið, sem átti að greiða, og á því strandaði a. m. k. að forminu til.

Ég efast ekkert um, að hv. 2. þm. Reykv., fyrrum borgarstjóri í Reykjavík, gæti lagt fram mikinn stuðning í að leysa þessa deilu. Hann hefur allmikið að segja í stærsta útgerðarfélaginu, sem hér á hlut að máli. Og ég held, að ef hann stæði í reynd við að telja, að það yrði að tryggja sjómönnum á skipunum sambærileg launakjör við það, sem sjómenn hafa á öðrum fiskiskipum, þá trúi ég því ekki, að það stæði lengi á því að fá samninga við sjómannasamtökin, eins og kröfur þeirra hafa verið settar fram.

Ég get vel tekið undir það, að ég tel það ekki aðeins skaða, heldur tel ég það í sjálfu sér hneyksli, að hinir stærri togarar skuli allir vera bundnir við bryggju aðgerðalausir, eins og nú er ástatt í okkar landi. Ég tel það vera hneyksli. Við þurfum sannarlega á öðru að halda en því að leggja okkar framleiðslutækjum, eins og nú standa sakir. En ef samningar takast ekki eftir venjulegum og réttum leikreglum, er vitanlega komið að því, — hv. 8. landsk. þm. virtist hneykslast á þeim orðum, sem ég hafði um það að segja, — þá er vitanlega komið að því, hvort ríkisvaldið á að skerast í leikinn eða ekki. Ég tel slíkt yfirleitt óæskilegt og samningsaðilar eigi að reyna að gera út um slíkt sjálfir. En mér dettur ekki í hug að neita því, að slíkt ástand geti komið upp, að það verði að grípa til þess. En það á ekki að grípa til slíks, nema það sé talið alveg óhjákvæmilegt.

Ég tel fyrir mitt leyti ekki viðunandi, að þetta verkfall þurfi að standa öllu lengur en það hefur staðið, þar sem ágreiningur milli samningsaðila er ekki meir en raunverulega liggur fyrir. Ég tel, að þeir hafi fengið nægilegan tíma til að gera upp þennan ágreining. En sé hér um að ræða, að verið sé að binda togarana til að knýja fram, að ríkisvaldið segi fyrir fram, hvað eigi að styrkja togarana mikið, þá verða vitanlega þeir aðilar, sem að slíku standa, að koma fram með sínar kröfur, þá verða þær að liggja fyrir.

Ég viðurkenni ekki, að af hálfu ríkisstj. hafi hér verið um neinn seinagang að ræða eða hún eigi neinn þátt í því, að verkfallið hafi staðið svona lengi. En það er sjálfsagt að skoða allar leiðir og kanna, hvað er til ráða í þessum efnum.

Það má vel segja, að það sé rétt að reyna að leysa þessi atriði nokkuð jafnhliða, að útgerðarmenn fái vitneskju um, hvað á að styrkja rekstur þeirra mikið umfram annan skiparekstur í landinu, og að samið sé um launakjörin. Ég hef ekki á móti því fyrir mitt leyti, að það sé reynt að hnýta þetta saman og reyna að standa þannig að lausn málsins. En þá er það vitanlega aðilanna, sem hér deila, að segja til um það, hvort þeir óska eftir, að þannig sé að málunum staðið.