21.02.1973
Neðri deild: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Íslenzku dagblöðin hafa, held ég, öll haft fréttaritara á þingi Norðurlandaráðs. Það er þess vegna eðlilegt, að fréttaritararnir sendi blöðunum fréttir. Þar, sem hæstv. forsrh. vitnaði hér til áðan, var algerlega áreitnislaust sett fram í Morgunblaðinu og ég held Alþýðublaðinu líka. Fréttaritararnir sögðu aðeins, að það hefði vakið athygli, að forsrh. Íslands var farinn af þinginu, þegar till. var afgreidd, og hefur þótt miður heppilegt, að hann var ekki til staðar til þess að þakka ráðinu, sem samþykkti till. einróma. Þetta er það, sem fréttaritararnir segja. Ég kem ekki hér upp í ræðustólinn núna með neina áreitni til hæstv. forsrh., en ég get ekki að því gert, að mér hefði fundizt eðlilegra, að hann hefði verið þarna staddur og þakkað ráðinu fyrir að samþykkja þessa till.

Þetta Norðurlandaráðsþing markar tímamót, eins og sagt hefur verið. Nú efast enginn lengur um, að norræn samvinna er annað en orðin tóm. Norræn samvinna er staðreynd í verki. Við Íslendingar höfum að vísu oft orðið varir við, að það er gott að vera Íslendingur á Norðurlöndum. En við höfðum ekki búizt við því, að bræðraþelið væri þó eins mikið og fram kom á Norðurlandaráðsfundinum í Osló núna þessa dagana. Þess vegna var það vitanlega vel viðeigandi, að forsrh. hefði sjálfur verið þarna og þakkað fyrir, að þessi till. var samþ. einróma.

Hæstv. forsrh. kvaddi sér hljóðs utan dagskrár vegna þess, sem fréttaritararnir sendu heim og birt var í blöðunum, alveg bein frásögn og engin áreitni til hæstv. ráðh. Ég gæti eigi að síður trúað því, að mörgum finnist, að hann hafi farið einum degi of fljótt heim, af því að svona stóð á, ekki vegna þess, að hann hafi staðið sig illa á fundinum, ekki vegna þess, að hann hafi ekki verið búinn að þakka forsrh. og forsetum þingsins fyrir, og ekki vegna þess, að hann hafi ekki ætlað að gera sitt bezta á allan hátt, heldur aðeins vegna þess, að það voru fundarmennirnir allir, sem tóku þátt í að greiða atkv. með till. Þeim hafði ekki verið þakkað beinlínis, og það var eftir því tekið, að forsrh. var farinn heim.

Ég ætla ekki að segja neitt meira um þetta og hefði áreiðanlega ekki kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða við forsrh. um þetta mál. En að gefnu tilefni fannst mér ástæða til að segja mína persónulegu skoðun, eins og þar stendur, á þessu máli. Ég hygg, að það séu fjöldamargir Íslendingar, sem líta þannig á, enda þótt ekki sé ástæða til að vera með áreitni í garð hæstv. ráðh. út af þessu. Málið er einnig yfir það hafið, að það skuli gert, og hefði ekki verið á þetta minnzt hér í þingsölunum, ef hæstv. forsrh. hefði ekki gert það að fyrra bragði. Hæstv. forsrh. eyddi þó nokkuð mörgum orðum til þess að afsaka þetta. Blöðin hafa ekki skrifað um það í ádeilutón, að hæstv. ráðh. var farinn heim, aðeins sagt það, sem fréttaritararnir símuðu.

Við getum vissulega, Íslendingar, verið þakklátir Norðurlandabúum fyrir þeirra stórkostlega framlag. Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að það hefur verið eftir því tekið, hvað við sjálfir vorum búnir að gera með setningu laga um Viðlagasjóð og framlag okkar í hann. Það er einmitt þess vegna, sem við getum með fullri sjálfsvirðingu tekið við þessu framlagi, sem er fram rétt af bróðurhug til okkar, og það er eins og forsrh. Svía sagði: Nú er aðstoð veitt. Norðurlandaþjóðirnar taka höndum saman og veita aðstoð til Íslands vegna þess, að það þarfnast aðstoðar í dag. Og það er gott til þess að vita að eiga bróður að baki, hvenær sem aðstoðar er þörf annars staðar, því að enginn veit, hvar aðstoðar er þörf næst.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vildi vekja athygli á því, að það, sem sagt var í blöðunum, var ekki sagt í áreitnistón til hæstv. ráðh. Að gefnu tilefni vil ég segja það hér, að mér finnst, að hæstv. ráðh. hefði átt að vera einum degi lengur og þakka fyrir sig, enda þótt forseti ráðsins, Jón Skaftason, hafi gert það með þeim hætti, að ekki sé aðfinnsluvert.