26.10.1972
Sameinað þing: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

264. mál, útbreiðsla sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, en ég verð að segja það, að af þeim upplýsingum, sem Ríkisútvarpið og Landsíminn hafa lagt honum í hendur, er sýnilegt, að þar er um allmikla ónákvæmni að ræða. Ég gat um það í minni fyrri ræðu, að t.d. í Öxnadal og Þelamörk væru um eða yfir 20 býli á sama svæði, sem ekki hafa sjónvarp, en ég veit náttúrlega ekki, hvað tæknimenn Landsímans telja viðunandi skilyrði. Ég kom t.d. á einn af þessum bæjum og þar var talið, að það væru viðunandi skilyrði. En ég er vanur sæmílegum skilyrðum, og ég hefði ekki sætt mig við þau skilyrði. Ég veit t.d., að í Öxnadal og Hörgárdal eru þetta einhvers staðar nær 30 en 20 býlum, sem má segja, að séu samfelld byggð. Alveg sama er í Bárðardal. Það má heita, að þar séu engin skilyrði í öllum þeim dal, a.m.k. ekki viðunanleg skilyrði. Og ég harma, að það skuli ekki koma fram í þessum svörum, að það sé gert ráð fyrir því, að sú byggð fái betri skilyrði, t.d. á næsta ári, vegna þess að á bæjum t.d. í Bárðardal eru til sjónvarpstæki að ég held á hverjum einasta bæ eða svo til. Og ég held, að það verði að stefna að því og raunar gera kröfu til þess að koma sjónvarpinu, eftir því sem það er hægt, í þessar byggðir. Ég skil, að það er ekki hægt að gera allt í einu. En það verður að athuga, hvernig á að leysa þennan vanda, því að einmitt þessum afskekktu byggðum er hvað mest nauðsyn á því að hafa sjónvarpið, miklu meir en þéttbýlinu, og þess vegna þyrfti að vinna að því. Mér var t.d. kunnugt um það, að á áætlun Landsimans fyrir s.l. ár var þessi stöð að Ytri-Bægisá í Hörgárdal, og fólkið varð því mjög óánægt, þegar það kom í ljós, að af framkvæmdum gat ekki orðið nú. En ég verð að treysta því, að þetta mál verði skoðað af fjárveitingavaldinu og Ríkisútvarpinu og það verði gerð áætlun um það, hvernig á að leysa þetta mál, því að ég er sannfærður um, að hæstv. félmrh. er mér sammála um, að það þurfi eins fljótt og hægt er að koma sjónvarpinu á þá staði, sem það er mögulegt.