22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. hóf mál sitt á því, að menn tækju hér undarlega oft til máls utan dagskrár eingöngu í auglýsingaskyni. Já, skyldi ekki formaður Alþfl. hafa tekið oftast hér til máls utan dagskrár og er mjög ánægjulegt að fá þá staðfestingu á því, og ég vona, að hv. 8 landsk. þm. bendi formanni flokks síns á þessa staðreynd.

Í öðru lagi vil ég benda þessum lífsreynda og þingreynda hv. 8. landsk. þm. á, að hann getur varla ætlazt til þess, að ég beri ábyrgð á þeim afleiðingum, sem gengisfellingin í des. veldur þjóðarbúinu, þar sem ég var andvígur þessari gengisfellingu og mótmælti henni. Ég held, að hann sé farinn að rugla þessum hlutum.