26.02.1973
Sameinað þing: 49. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég heyrði því miður ekki þá útvarpsfrétt, sem hv. þm. nefndi, en ég dreg ekki í efa, að hann skýri rétt frá því, hvar þar hefur verið sagt. Hins vegar verð ég að segja, að mér finnst þessi frétt með nokkrum ólíkindum, m. a. ef það er staðhæft, að togarar séu að veiðum innan 12 mílna. Fyrir nokkrum dögum var mér sýnt afrit af skeyti, sem þm. Austf. hafði verið sent, þar sem kvartað var yfir ágangi togara. Ég lét þegar á eftir athuga það, og ég vil vona, að það hafi verið gert, að varðskip hafi verið þar nálægt. En til mín eða til dómsmrn. hafa ekki, svo að mér sé kunnugt um, borizt neinar kvartanir út af þessu. En það er alveg sjálfsagt að láta athuga þetta nánar.

Ég vil taka það fram, sem öllum hv. alþm. er kunnugt, að varðskipin voru um langan tíma mjög bundin við björgunarstarf í Vestmannaeyjum og í framhaldi af því voru þau bundin við leit að björgunarbátum af Sjöstjörnunni, þannig að það er ekki nema síðustu 2–3 daga, sem varðskipin hafa verið til reiðu varðandi þetta aðalstarf sitt, að verja landhelgina. Ég veit, að öllum hv. þm. er ljóst, að það var undir þeim kringumstæðum, sem fyrir hendi voru, ekki annað hægt en láta varðskipin sinna þessum verkefnum, sem þau fengust við um tíma. En ég skal sem sagt láta kanna þetta.