26.02.1973
Efri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

172. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ef ég man rétt, eru liðlega 2 ár síðan við ræddum hliðstætt mál hér í Ed. Var það flutt af varaþm. í Reykjaneskjördæmi, sem sat hér á þingi. Þá sáum við fram á, að svipuð þróun mundi gerast á Suðurnesjum og hv. flm. hefur talað um að væri að gerast og jafnvel hefði gerzt nokkuð á Vestfjörðum. Sjútvn. fékk þessa þáltill. til meðferðar og mælti einróma með henni, þ. e. a. s. að höfð yrði gát á allri uppbyggingu og athugað gaumgæfilega, áður en menn færu í slíka fjárfestingu, sem hefði svo mikla afkastagetu, að það væri langt umfram hugsanlegt veiðimagn, eins og flm, ræddi hér skilmerkilega áðan. Deildin samþ. síðan þessa ályktun, og hún var send ríkisstj. Síðan hefur það gerzt, að við höfum fengið stofnun mikla í landinu, sem á að skipuleggja ýmsa hluti, og ef ég man rétt, er flm. frv. stjórnaraðili í þessari stofnun. Hefur Framkvæmdastofnun ríkisins ekki fengið þetta vandamál til meðferðar, sem frv. fjallar um? Er hún á miklu stærra sviði? Eða hvað hefur hún skipt sér af slíkri uppbyggingu, sem frv. gerir ráð fyrir? Hefur ekki borizt til hennar þessi ályktun, sem var gerð hér í hv. deild fyrir u. þ. b. tveimur árum? Ályktunin er í anda þessa frv., og vildi ég þess vegna vita um afdrif hennar, áður en ég færi að taka afstöðu til frv. sjálfs. Ef stofnunin gegnir því hlutverki, sem sagt var hér á sínum tíma, þá á hún að hafa hemil á þessu, sem þarna er sagt alveg réttilega frá, að hefur átt sér stað.

Ég vildi aðeins fá þessar upplýsingar á þessu stigi málsins og vita, hvernig málunum hefur reitt af í tímans rás, s. l. 2 ár, því að ef ekkert hefur verið gert í þessu, þá sé ég varla, að svona lög mundu bæta úr. Þá er eitthvað annað, sem þrýstir á, jafnvel að það komi upp hagsmunapólitík á viðkomandi svæðum, og það er hlaupið til manna, sem bjarga þessu við, leitað fyrirgreiðslu hjá okkur á Alþ. o. s. frv. Ég sem sagt vildi nota tækifærið til að spyrja flm. um þetta, sem ég drap á, ef hann hefur tök á að svara því með svona stuttum fyrirvara.