27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

140. mál, virkjun Jökulsár eystri í Skagafirði

Fyrirspyrjandi (Gunnar Gíslason) :

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v. till. til þál., sem fól í sér áskorun á ríkisstj. að láta fara fram athugun á virkjunaraðstæðum í Jökulsá eystri í Skagafirði. Þessi till. var afgreidd með þeim hætti, að henni var vísað til hæstv. ríkisstj., og var þá farið að till. allshn. Sþ., sem hafði málið til meðferðar. En í umsögnum, sem n. bárust frá þeim aðilum, sem hún vísaði málinu til, kom fram, að þegar væri hafin athugun á möguleikum til virkjunar í þessu vatnsafli. Þess vegna hef ég nú leyft mér að flytja fsp. til hæstv. iðnrh., og er fsp. á þskj. 267 þess efnis, hvað þessari athugun líði og hver sé orðinn árangur af þeirri athugun.