27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

156. mál, fjöldi og ráðstöfun ríkisjarða

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Í útvarpserindi í byrjun jan. s. l. vék Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri nokkuð að ríkisjörðum og sagði þá m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á landi á ríkið margar jarðir, og er eðlilegt, að svo verði um ókomin ár. En eins og lög gera ráð fyrir, eiga bændur, sem búa á ríkisjörðum, að geta fengið þær keyptar með vissum skilyrðum, en aðeins til búskapar, en ekki til að braska með þær eða brytja niður í sumarbústaða- eða veiðilönd. Einnig á jarðeignadeild ríkisins að kaupa jarðir, sem bændur vilja losna við, en geta ekki selt öðrum til að stunda þar búskap. Slíkt ónytjað land er eðlilegt, að ríkið eða sveitarfélög eigi, en það verði ekki í eigu brottflutts fólks, sem setzt hefur að í kaupstöðum og gerir ekki ráð fyrir, að það sjálft eða niðjar þess flytji aftur til búskapar í sveitina:

Síðar vék búnaðarmálastjóri aftur að þessum málum og þá í víðari merkingu og algildari og sagði m. a.:

„Sú þróun, sem mjög hefur færzt í vöxt síðustu árin, að efnamenn eða félagssamtök í þéttbýlinu komi með fulla vasa fjár og kaupi landspildur eða heilar úrvals bújarðir á margföldu verði, miðað við eðlilegt verð á landinu til landbúnaðar, — sú þróun er óþolandi fyrir landbúnaðinn. Þótt þorri bænda sé gæddur þeim félagsþroska og manndómi að láta ekki ginnast af gylliboðum hinna nýríku einstaklinga og stétta, sem bjóða gagnslitla, síminnkandi seðla fyrir óðul þeirra, þá finnast alltaf nokkrir, því miður, sem falla í freistni og láta landið af hendi vitandi vits, að það verður aldrei notað aftur til eðlilegs búskapar til blessunar fyrir alda og óborna.“

Ég vildi mega gera þessi orð búnaðarmálastjóra að eins konar formála fyrir þeirri fsp., sem ég hef leyft mér að beina til hæstv. landbrh. um fjölda og ráðstöfun ríkisjarða. Ástæðurnar fyrir þessari fsp. eru einmitt nátengdar því mikla vandamáli, sem búnaðarmálastjóri fer um svo ómyrkum orðum. Mér þykir sem sé hlýða, að upplýst sé hér á Alþ., hvernig ráðstöfun ríkisjarða sé varið í dag, hverjir eigi þar leigurétt og hvernig jarðirnar séu nýttar. Þar sem miklu varðar, að ríkið gangi hér á undan með góðu fordæmi með landhúnaðarsjónarmiðið efst á blaði í ráðstöfun jarða sinna, hef ég flutt svo hljóðandi fsp., sem svar við gæti gefið þar nokkra hugmynd um:

„a. Hver er fjöldi bújarða í eigu ríkisins í hverju kjördæmi?

b. Á hve mörgum þeirra er búið sjálfstæðu búi ?

c. Hve margar jarðanna eru nytjaðar frá öðrum bújörðum?

d. Hve margar ríkisjarðir eru leigðar öðrum en bændum?

e. Til hve langs tíma eru jarðirnar að jafnaði leigðar, og eftir hvaða reglum er farið við ákvörðun um það, hverjum skuli leigja þær jarðir, er losna á hverjum tíma?“