01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

146. mál, skólakerfi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég tel rétt að koma hér á framfæri á þessu stigi málsins sjónarmiðum tveggja húsmæðra í Borgarfirði, tveggja kvenna, sem búa í sveit, tveggja mæðra. Konur þessar eru báðar í forustu fyrir Sambandi borgfirzkra kvenna og hafa að tilmælum stallsystra sinna í sambandinu athugað grunnskólafrv. rækilega. Þær taka báðar fram, að þær telji, að þetta frv. horfi til stórra bóta að mörgu leyti, en það, sem ég mun vitna í af þeirra ummælum, er helzt það, sem þær hafa við frv. að athuga. Og nú skulum við heyra það, með leyfi hæstv. forseta. Önnur þeirra segir í athugasemdum sínum:

„Lenging árlegs skólatíma í sveitum upp í 3 mánuði er ekki raunhæf. Í fyrsta lagi geta sveitaheimilin alls ekki misst stálpuð börn og unglinga frá bústörfunum vor og haust, og mun þetta ákvæði, ef beitt verður, stuðla að brottflutningi fólks úr sveitum. Í öðru lagi er það hrein fjarstæða að ætla 7–9 ára börnum að dveljast í heimavist í 7 mánuði. hvað þá 9 mánuði. Þótt í frv standi, að stefnt skuli að heimanakstri, er daglegur heimanakstur ekki framkvæmanlegur í sveitaskólunum, nema þar sem bezt hagar til. Í minni sýslu,“ segir þessi kona, „Mýrasýslu, er starfandi einn barna- og unglingaskóli fyrir alla sveitahreppa sýslunnar, 7 talsins. Daglegur heimanakstur yrði líklega nokkurn veginn framkvæmanlegur í 3 þessara hreppa. Útilokað er að aka meiri hluta barnanna heim daglega. Skólanefnd viðkomandi skóla,“ en kona þessi á sæti í þeirri n., „hefur oftsinnis rætt um og athugað þetta mál.

Útibú frá aðalskóla fyrir 7–8 ára börn, sbr. 4, gr., tel ég tvímælalaust spor í rétta átt,“ segir hún, „þar sem hægt er að koma slíku við. En þegar ég hugsa um Mýrasýslu með tilliti til þess, tel ég, að hvergi sé hægt að ná saman nægilega mörgum nemendum í þessum aldursflokkum með því að hafa daglegan heimanakstur. Þetta atriði yrði því ekki raunhæft í framkvæmd hér, og ég er því miður hrædd um, að sú verði reyndin víða.

Lengingu skólaskyldu um eitt ár er ég í raun og veru fylgjandi,“ segir hún. „Þó sýnist mér, að dreifbýlinu muni verða mjög torvelt að gera 9. bekk grunnskólans þannig úr garði, að réttlætanlegt sé að skylda alla nemendur til að sækja hann. Ég álít nauðsynlegt, að nemendur í 7.–9. bekk geti valið um allmargar námsgreinar eftir hæfileikum og áhuga. Þeir eiga hvort sem er eftir að gegna ákaflega mismunandi störfum í þjóðfélaginu, og þeim hentar ekki öllum sami undirbúningurinn. Það er ekkert smáræðisátak að byggja upp kennslu í margvíslegum verklegum greinum á grunnskólastigi t. d., en að því ber að stefna. Meðan sú aðstaða er ekki fyrir hendi, er óhjákvæmilegt að veita ýmsum nemendum undanþágu frá skólasetu í 9. bekk og e. t. v. í 8. bekk einnig í einstaka tilfellum. Finnst mér vanta í frv. rýmri ákvæði um þetta:

Síðar segir hún: „Í grunnskólafrv. vantar skýr ákvæði um mál, sem foreldrar heimavistarskólabarna telja afar nauðsynlegt að fá framgengt, en það er, að í heimavistarskólum á grunnskólastigi starfi kona, sem hafi það hlutverk að ganga börnunum í móðurstað eftir getu, en sé ekki bundin við kennslu. Sá starfskraftur mundi fá yfrið nóg verkefni, en sálfræðingar þá e. t. v. eitthvað minna. Það væri svo sem gott og blessað, að „móðirin“ eða „mamman“ væri sérmenntuð, en ég tel það ekkert aðalatriði. Það eru mannkostir hennar, sem mestu skipta. Ég tel mjög þýðingarmikið, að ákvæði um þetta verði tekið inn í frumvarpið.“

Í athugunum hinnar konunnar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á landi hefur hingað til tíðkazt miklu styttri árlegur starfstími skóla en í nágrannalöndum. Aldrei hefur heyrzt talað um, að Íslendingar stæðu öðrum þjóðum að baki þrátt fyrir það, þvert á móti. Það er nefnilega fleira en seta á skólabekkjum, sem hefur þroskandi áhrif á unglinga. Fátt er hollara unglingum en vinna með fullorðna fólkinu að framleiðslustörfum. Hér hefur hið langa sumarleyfi gert það að verkum, að skólafólk hefur haft tækifæri til að gerast ómissandi þátttakendur í sköpun verðmæta og öðlazt þannig skilning á atvinnulífinu, jafnframt því, sem öllum þorra þess hefur verið brýn nauðsyn að vinna fyrir kaupi til þess að geta haldið áfram námi. Ef árlegur skólatími verður lengdur, minnka möguleikar að sama skapi fyrir fátækari hluta nemenda til að kosta nám sitt sjálfir, og þá sitjum við í sömu keldunni og nágrannaþjóðirnar: Þeir einir, sem komnir eru af ríku foreldri úr hálaunastéttunum, geta lært eins og þá langar til. Menntun í framhaldsskólum annars vegar og menntunarskortur hins vegar gengur þá í ættir mann fram af manni.

Við sveitafólk,“ segir þessi kona, „vitum, að það er undir hælinn lagt, hvort bændur geta kostað börn sín til náms. Bændur eru, eins og allir vita, með tekjulægstu stéttum landsins, og þar við bætist, að flestir eru þannig í sveit settir, að þeir verða að kosta börn sín úr fjarlægð í dýrum heimavistarskólum eða kaupa þeim fæði og húsnæði á uppsprengdu verði á þéttbýlissvæðunum. Ef bændur fá ekki að njóta aðstoðar barna sinna mestu annatíma ársins, um sauðburð og á haustin, í annríkinu þá og endranær, er sjálfgert að hætta að kosta þau í skóla, því að afleiðingar þess verða niðurskurður bústofns. Það fólk, sem heima er, kemst ekki yfir að hafa svo stórt bú, að hægt sé að kosta unglingana af tekjum þess.“

Og hún heldur áfram: „Þegar búið er að gera bændum ókleift að kosta börn sín, en ástandið má ekki versna frá því, sem verið hefur, hljóta þeir að velja milli þess að búa og þess að mennta börn sín. Og sé þeim annt um, að þau standi ekki verr að vígi en annarra börn, er ekki um annað að ræða en yfirgefa eigur sínar, eins og Vestmanneyingar, og láta ráðast, hvað um ævistarfið verður. Þetta er slæm hagfræði,“ segir þessi kona, „því að það kemur að því, að við þurfum á öllu okkar landi að halda eins og aðrar þjóðir, og það er hægara að styðja en að reisa.“

Hún heldur áfram: „9 mánaða dvöl ungra barna í heimavist er fjarstæða, sem engum gæti dottið í hug, sem átt hefur barn í heimavistarskóla. Í Varmalandsskóla er 7 ára börnum ætlaður 8 vikna kennslutími í vetur. Þetta er hámark þess, sem nokkurt vit er í og talizt getur forsvaranlegt að leggja á svo ung börn. Börn eru lifandi verur, en ekki bara númer í kerfi. Það er glæpur gegn þeim að svipta þau með einu pennastriki því tilfinningalega öryggi, sem fylgir eðlilegu heimilislífi og daglegri umönnun foreldra sinna ¾ hluta ársins, eins og 42. gr. gerir ráð fyrir, og enda þótt ekki sé nema í 7 mánuði. Kennarar eru út af fyrir sig ágætir, en ætli það færi ekki að verða erfitt að fá kennara til starfa úti á landi, ef ætlazt væri til þess af þeim, að þeir gengju öllum nemendum sínum í foreldra stað?“

Hún heldur áfram: „Hingað til hefur börnunum lítið verið sinnt og látið ráðast nokkurn veginn, hvernig þeim vegnaði í þessu oft og tíðum miskunnarlausa samfélagi. Sumum börnum líður illa alla sína skólatíð og öllum einhvern hluta hennar: Og ég bið menn að taka vel eftir því, sem hún segir næst: „Þá morgna, sem börnin eiga að mæta í skólanum til a. m. k. viku dvalar í senn, þurfa mæðurnar oft að ýta þeim frá sér nauðugum og grátandi. Þetta finnst engri móður skemmtilegt verk, og því færri skipti sem þetta kemur fyrir, því betra, enda þrífast börnin þá hvorki andlega né líkamlega. Og þegar þau loks losna á vorin, fara þau fljótlega að kvíða fyrir næsta vetri. Fráfærulömbin,“ segir þessi kona, „í gamla daga þrifust aldrei almennilega. Þessi langa skólaskylda ungra barna, sem boðuð er í 42. gr., er ekkert annað en fráfærur hvað snertir heimavistarbörn og getur haft alvarlegar afleiðingar. og hver vill bera ábyrgð á þeim?“

Svo mörg voru þau orð.