30.10.1972
Efri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

39. mál, orlof

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til I. um breyt. á l. um orlof þarf ekki langrar framsögu. Efnisatriði þess eru þrjú.

Það er í fyrsta lagi að fella niður 3. mgr. í 7. gr. gildandi orlofsl. Þessa mgr.: „Eigi skal reikna orlofsfé af greiðslum, sem ekki eru tekjuskattskyldar hjá orlofsþega.“ Eins og menn muna, var alger samvinna milli vinnuveitendasamtakanna og Alþýðusambandsins um samningu laga um orlof, einnig um þetta atriði, en skömmu eftir að lögin tóku gildi fékk ég vitneskju um það frá sjómannasamtökunum, að þau töldu, að þessi mgr. skerti þann rétt, sem sjómenn hefðu áður notið, og vildu fara fram á, að sett væru brbl. um að nema þetta ákvæði úr gildi. Ég vildi ekki verða við þeim tilmælum sjómannasamtakanna og taldi, að það yrði að bíða aðgerða Alþingis. Þess vegna er þetta frv. fram horið. Með þessu frv. er þá orðið við ósk sjómannasamtakanna um að fella þessa mgr., 3. mgr. í 7. gr. l. um orlof, niður. Ýmsir útgerðarmenn hafa nú sagt mér, að þeir hafi ekki talið taka því að breyta framkvæmdinni frá því, sem áður var, þar sem sjómenn nutu orlofsfjár af skattskyldum tekjum, því að þeir höfðu ekki fengið út úr því annað en óánægju hjá sínum mönnum, og höfðu því framkvæmt þetta með sama hætti og áður en þessi setning komst inn í lögin. Ég hygg því, að í reynd hafi þetta ekki mikla breytingu í för með sér, nema sá réttur, sem sjómenn og sjómannasamtökin höfðu áður, verður viðurkenndur í lögum áfram, þegar þessi setning hefur verið felld í burtu úr gildandi orlofslöggjöf. Það má raunar segja, að þetta sé meginefni frv.

Annað efnisatriði er svo það, að vangreitt orlofsfé megi taka lögtaki og auðvelda þannig innheimtu á gjaldföllnu orlofsfé. Í sambandi við þetta er rétt að skýra frá því, að hvort eð var hefði þurft að bera fram breytingu á orlofslöggjöfinni nú, vegna þess að með setningu orlofslaganna á s.l. ári var fastlega ráð fyrir því gert, að sú breyting yrði á framkvæmd orlofslöggjafarinnar, að orlofsmerki og orlofsbækur skyldu hverfa úr sögunni og nýtt kerfi tekið upp. Þetta kerfi var nokkurn veginn fullmótað á liðinu ári, en það þótti sjálfsagt, að það tæki ekki gildi fyrr en á næsta orlofsári, þ.e.a.s. 1. maí 1973. Hér verður um verulega breytingu á framkvæmd orlofslaganna að ræða, og ég vona, að sú breyting verði mjög til bóta, verði til þess að draga úr allmiklu skriffinnskukerfi, sem fylgdi orlofsbókunum og orlofsmerkjaútgáfunni, og þar að auki verði hið nýja kerfi til þess, að lagaákvæðin um orlof verði virkari en áður, því að vissulega er það á flestra vitorði, að bæði atvinnurekendur og verkafólk brutu lögin að þessu leyti. Það voru ekki alltaf gefin út orlofsmerki fyrir orlofsfénu, heldur orlofsféð borgað út í peningum ásamt vinnulaunum og þannig ekki tryggt, að þeim tilgangi laganna væri náð, að menn fengju orlofsféð þá fyrst í hendur, er fólk ætlaði sér að fara í orlof og hefði vottorð um, að það væri fastráðið, að það færi í orlof. Núna verður þetta þannig í nýrri framkvæmd, að í hvert skipti sem laun eru greidd skal launagreiðandi afhenda launþega launaseðil, sem sýni fjárhæð launa og orlofsfjár, og félmrn. lætur gera eyðublað fyrir launaseðil til þæginda fyrir aðila. Innan þriggja virkra daga frá útborgun vinnulauna skulu launagreiðendur svo greiða gjaldfallið orlofsfé til næstu póststöðvar samkv. nánari fyrirmælum póst- og símamálastjórnar. Orlof sjómanna á fiskiskipum má þó inna af hendi þrisvar á ári, þar sem ákvæði er í kjarasamningum um kauptryggingu og kauptryggingartímabil eftir 15. maí, eftir 15. sept. og í árslok. Greiðslunni skal fylgja skilagrein á þar til gerðu eyðublaði, sem rn. lætur gera í samráði við póst- og símamálastjórnina, eða á öðru því eyðublaði, sem samþ. væri af henni. Eyðublöð þau, sem ég hef hér rætt um, fá launagreiðendur afhent á póststöðvum. Póststöðvarnar eiga að gera grein fyrir innborguðu orlofsfé ásamt nánari reglum Pósts og síma ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Þar sem kannske mestu máli skiptir um, að þetta geti ekki brugðizt, skal Póstur og sími sjá um nauðsynlega úrvinnslu þeirra gagna, sem berast frá póststöðvunum. Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar annast skýrsluvélavinnslu eftir nánari ákvörðunum póst- og símamálastjórnar. Á þriggja mánaða fresti skal svo Póstur og sími senda launþegum reikningsyfirlit, sem sýni fjárhæð móttekins orlofsfjár, frá hvaða launagreiðendum það er og fyrir hvaða tímabil. Auk þess getur svo launþegi fengið slíkt yfirlit hvenær sem er gegn því að greiða sérstakt gjald. Þegar launþegi hefur fengið reikningsyfirlit Pósts og síma, skal hann með samanburði við launaseðla sína ganga úr skugga um það, að orlofsfé hafi verið greitt hans vegna, svo sem fyrir er mælt. Ef launþeginn telur, að misbrestur hafi orðið á skilvísri greiðslu orlofsfjár, ber honum að tilkynna það næstu póststöð og leggja fram launaseðla og reikningsyfirlit eða myndrit af launaseðlunum máli sínu til stuðnings. Skal þá póststöð gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna vanskilanna, og kemur þá til framkvæmda annað efnisatriðið frv., sem sé, að vangreitt orlofsfé megi taka lögtaki.

Það er og sett að skilyrði til öryggis í þessum efnum, að hlutaðeigandi stéttarfélag og vinnuveitendafélag fær skýrslur um greiðslu orlofsfjár. Verða þannig bæði samtökin þess einnig vör strax, ef um vanskil á orlofsfé er að ræða, svo að það er ekki eingöngu byggt á því, að launþeginn sé svo vakandi um sinn hag, að hann beri saman launaseðla sína og orlofsmerkjagreiðsluna samkv. uppgjörinu frá póst- og símamálastjórninni. Þetta ætti því að vera undir eftirliti þriggja aðila, allra þeirra aðila, sem málið varðar. Þetta er orðið umsamið mál, öll framkvæmdin. Reglugerð hefur verið gefin út um framkvæmdina, og hún befur verið sett í samráði við bæði Vinnuveitendasamband og Alþýðusamband Íslands. Allir þessir aðilar eru sammála um að nota póstgírókerfið til þess að framkvæma þetta og láta framkvæmdina ganga þá leið í staðinn fyrir með orlofsmerkjaútgáfu og orlofsbókum, sem hingað til hafa verið í gildi og eru í gildi til 1. maí n.k.

Þriðja efnisatriðið í frv. er svo breytingin við 11. gr. í gildandi orlofsl., þ.e.a.s. það er engu breytt, sem í þeirri gr. stendur, en viðbót á að koma, sem er á þessa leið: „Kostnaður við framkvæmd gr. þessarar greiðist úr ríkissjóði, að svo miklu leyti, sem vaxtatekjur af orlofsfé hrökkva ekki til að bera kostnaðinn.“ Ríkissjóður hefur borið kostnaðinn af framkvæmdinni, eins og hún hefur verið og er, þ.e.a.s. við merkjaútgáfuna og útgáfu orlofsbókanna, en sá kostnaður fellur nú niður. Vissulega verður kostnaður við fyrirgreiðslu þá, sem Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar koma til með að annast, en það er talið, að rétt sé að halda þessu ákvæði í lögum, að ríkissjóður beri kostnaðinn, sem af þessu kann að leiða. Hins vegar er talið víst, að vaxtatekjur þær, sem koma af geymdu orlofsfé hjá Pósti og síma, muni að öllum líkindum nægja og e.t.v. gera betur en að standa undir þessum kostnaði, svo að væntanlega ætti ekki að koma til þess, að ríkið þyrfti að bera af þessu ákvæði neina byrði.

Þessi þrjú efnisatriði eru í frv. og önnur ekki, Eru þau vegna breytts fyrirkomulags á tilhögun orlofsfjár og innheimtu þess og til leiðbeiningar samkv. ósk sjómannasamtakanna, að því er varðar niðurfellingu á mgr. í 7. gr., og í þriðja lagi til þess að gera innheimtu orlofsfjárins auðveldari með því að heimila lögtaksrétt.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.