05.03.1973
Efri deild: 65. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

183. mál, lögreglustjóri í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu

Alexander Stefánsson; Herra forseti. Í sambandi við þetta mál vil ég aðeins leyfa mér að vekja athygli á þeirri miklu nauðsyn úrbóta sem virðist vera ljóst að þurfi að gera í sambandi við dómsmál almennt úti um landsbyggðina. Ég vil koma því að, að ég tel, að það sé mjög brýnt í sambandi við þetta mál, að fram fari allsherjarendurskoðun á skipan lögreglu- og dómsmála úti um landið. Ég vil minna á, að nú eru tímamót í þessum málum að vissu leyti, þar sem ríkið hefur nú algerlega yfirtekið þann þátt löggæzlumála, sem sveitarfélögin hafa áður haft með að gera, svo sem var orðið mjög aðkallandi.

Ég held, að það fari ekki fram hjá neinum, sem hefur kynnt sér þessi mál, að það virðist vera svo víða úti um landið, þar sem staðir eru í örri uppbyggingu, að það form, sem hefur verið undanfarna áratugi, hentar ekki lengur, og ég tel, að margir staðir séu að vissu leyti í sömu sporum og Höfn í Hornafirði, að mjög er til baga, að löggæzla eða dómgæzlumál yfirleitt eru ekki í betra horfi. Ég vil segja það í sambandi við Snæfellsnesið, að útgerðarstaðir á utanverðu Snæfellsnesi eru í mjög örum vexti og þar er mjög mikill hraði á ýmsum málum. Ég nefni þar t. d. tollgæzlumál og tollafgreiðslu. Það er of seinvirkt að þurfa að fara með þetta inn á einn stað í sýslunni. Ég tel þess vegna, að einmitt á svona útgerðarstöðum, sem hafa allt að eða yfir 1000 íbúa, sé nauðsynlegt, að löglærður fulltrúi hafi fast aðsetur á þessum stöðum. Ég held í heild, að það sé þess vegna tímabært að taka þessi mál öll til endurskoðunar og ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. dómsmrh. hlutist til um, að slík endurskoðun fari fram.