05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. S. l. laugardag átti sjónvarpið viðtal við búnaðarmálastjórann, Halldór Pálsson. Hann sagði í því viðtali, að afkoma íslenzks landbúnaðar væri betri á s. l. ári en nokkru sinni fyrr. Þar fór sá, sem vissi, hvað hann talaði um, og gerði grein fyrir hlutunum, eins og þeir raunverulega eru. Það kvað við nokkuð annan tón en hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. hér áðan, er hann talaði, enda talaði hann til þess að þjóna sínum flokki og reyndi að haga málflutningi sínum í samræmi við það. Staðreyndin er þessi, að síðan viðreisnarstjórnin fór frá völdum, hafa bændur notið kjarabóta eins og aðrar stéttir í þjóðfélaginu og betri lánafyrirgreiðslu, bæði stofnlána og afurðalána, heldur en áður fyrr.

Nú er unnið að merkilegri lagasmíð í þágu landbúnaðarins. Það eru jarðalög og ábúðalög til að tryggja stöðu landbúnaðarins í þjóðfélaginu. Búnaðarþing hefur nú fjallað um þessi frv., og vonandi ná þau fram að ganga hér á hv. Alþ. fyrr en seinna.

Stjórnarandstæðingar hafa gert sér tíðrætt um fjármál ríkisins og afkomu ríkissjóðs á árinu 1971 og 1972. Í sambandi við afkomu ársins 1971 hafa þeir þó forðazt að geta þess, að fjárlagaafgreiðsla fyrir það ár var með sérstökum hætti. Þar voru nefnilega útgjöldin færð tekjumegin, og er það einsdæmi við fjárlagaafgreiðslu. Svo var um nýgerða kjarasamninga, sem kostuðu ríkissjóð þó á árinu 1971 yfir 500 millj. kr. Sama var að segja um útgjöld vegasjóðs, sem ákveðin voru í sambandi við þá fjárlagaafgreiðslu á þriðja hundrað millj. kr. Þeirra var þó að engu getið í fjárlögunum. 130 millj. kr. vantaði vegna útflutningsuppbóta, svo að endar næðu saman á árinu 1971, og 80 millj, kr. voru færðar á þann reikning vegna greiðsluhalla ríkissjóðs frá fyrri árum. Það vantaði 200–300 millj. kr., til þess að niðurgreiðslum væri hægt að halda áfram til ársloka, eins og þær hófust í upphafi þess árs. Það er því ýkjalaust, að það vantaði a. m. k. 1200 millj. kr., til þess að útgjöld fjárlaga árið 1971 væru í samræmi við venju um gerð fjárlaga.

Ef samanburð á að gera á hækkun fjárlaga 1969–1971, eins og gert hefur verið fyrir árið 1971–1973, þá verður hann að vera hliðstæður og þá verður að leiðrétta fjárlögin frá 1971, eins og hér hefur verið gert. Er þá hækkun á fjárlögum milli þessara tveggja ára bæði tímabilin rúmlega 70%. Þeim ferst því ekki, stjórnarandstæðingum, sem tala mikið um hækkun fjárlaga nú eins og óeðlilega hluti. Farið er í þeirra eigið kjölfar. Hins vegar er rétt að gera sér grein fyrir því, að núv. ríkisstj. tók ekki við neinum innistæðum á vegum ríkissjóðs, eins og fyrirrennarar hennar hafa haldið fram. Það var skuld við Seðlabanka Íslands, það voru skuldir upp á hundruð millj. við vegasjóð, sem höfðu safnazt hjá viðreisnarstjórninni. Það var skuld hjá Síldarverksmiðjum ríkisins um 100 millj, kr., sem var í algerri óreiðu og engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að greiða, en nú er verið að greiða. Sama er að segja um fyrirtæki eins og Slippstöðina á Akureyri, Rauðku á Siglufirði, Norðurstjörnuna í Hafnarfirði. Allt voru þetta fyrirtæki, sem ríkissjóður var meira og minna flæktur í. Þau voru á hausnum, og núv. ríkisstj. hefur orðið að ganga í að rétta þeirra fjárhag, en það hefur að sjálfsögðu kostað stórar fjárhæðir.

Aðalástæðan fyrir hækkun ríkisútgjalda hjá núv. ríkisstj. eru félagslegar umbætur, sem hv. þm. Oddur Ólafsson sagði, að væri ekki hægt að gera nema með traustum fjárhag. Það eru félagslegar umbætur almannatrygginga, sem eru fyrirferðamestar, ný verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga, þeim síðarnefndu í hag, aukin uppbygging í skóla-, heilbrigðis-, samgöngu- og raforkumálum og margvíslegar almennar félagsmálaumbætur. Menn geta að sjálfsögðu deilt um það, hversu hratt á að fara í slíkum umbótum, en þörfin á að hrinda þeim áfram var mikil, og hefur verið reynt að sinna henni. Og svo hafa launagreiðslur að sjálfsögðu hækkað vegna kjarasamninganna frá 1970, sem voru gerðir með áföngum, og kjaradóms, sem tók gildi 1. marz s. l.

Fjölgun ríkisstarfsmanna, sem stjórnarandstaðan hefur haldið á lofti, er ekki raunhæf nema að litlu leyti. Þar munar mest um tilfærslu lögreglumanna, sem sveitarfélögin höfðu áður greitt, um 320 talsins. Auk þess er fastráðning á fólki á ríkisspítölunum, sem áður hafði verið lausráðið, og hafði verið gerð áætlun um að ráða það, þó að einnig hafi þar átt sér stað fjölgun vegna vinnutímastyttingar og nokkur fjölgun kennara. Raunveruleg fjölgun hjá rn. og ríkisstofnunum er 2–3 tugir manna. Unnið er nú að því að gera starfsmannaskrá, örugga á milli ára, en það hefur hún alls ekki verið til þessa. Þá hefur ríkissjóður tekið að sér greiðslu á skuldum vegasjóðs í ríkara mæli en áður fyrr, en skuldir hans námu í lok viðreisnarinnar mörg hundruð millj. kr., en voru engar, er þeir tóku við stjórnartaumunum. Auk þess er nú á fjárl. fjárveiting til að koma upp rekstrarsjóði ríkisins.

Við 1. umr. fjárl, fyrir árið 1973 gerði ég grein fyrir viðskiptum ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands, eins og þau höfðu verið um nokkurra ára bil, miðað við 1. okt. Nú vil ég gefa hv. þm. og öðrum áheyrendum yfirlit yfir viðskipti ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands miðað við áramót um nokkurt árabil einnig og þá jafnframt tekin inn í það dæmi sjóðseign ríkissjóðs í árslok og skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann, hvort sem þær hafa verið á hlaupareikningi eða á skuldabréfi til nokkurra ára. En svo var gert á árinu 1969, þáv. fjmrh. tók lán hjá Seðlabanka Íslands, og einnig var það gert á s. l. hausti. Inn í þetta dæmi er að sjálfsögðu tekin sú innstæða, sem ríkissjóður átti á sínum hlaupareikningi þau ár sem þetta tímabil nær yfir. Yfirlit þetta er því nettóstaðan, eins og hún hefur verið í árslok frá og með 1967 til ársins 1972. Yfirlitið er svo hljóðandi:

Árið 1967 skuldaði ríkissjóður 80.1 millj. kr. 1968 skuldaði hann 325 millj. kr. og hafði þó á því ári losað 100 millj. kr. innstæðu, er var á sérstökum reikningi frá fjmrh.-tíð Gunnars Thoroddsens. Árið 1969 skuldaði ríkissjóður 529.5 millj. kr., árið 1970 51.8 millj. kr., 1971 184.4 millj. kr. og 1972 5.9 millj.. kr. Þessi er niðurstaðan af áramótauppgjöri ríkissjóðs og Seðlabankans, þegar sjóðseign ríkissjóðs er tekin með, skuldabréfalán við Seðlabankann og innistæður á hlaupareikningi. Sannar þetta, að staða ríkissjóðs við Seðlabankann og í sjóði í árslok 1972 hefur verið betri en nokkru sinni fyrr á þessu tímabili og hefur batnað um 178.5 millj. kr. á s. l. ári. Þá voru greiddar rúmar 100 millj. kr. af skuldabréfaláninu frá 1969 og yfirdráttur skulda á hlaupareikningi frá fyrra ári.

Eins og að líkum lætur, er uppgjör á ríkisreikningi fyrir árið 1972 ekki svo langt á veg komið, að ég geti hér gefið glögga mynd af endanlegri niðurstöðu ríkissjóðs á því ári. Hitt mun þó nær sanni, að lengra er nú komið með ársuppgjör ríkisreiknings en áður hefur verið á sama tíma, og treysti ég því, að uppgjör hans geti orðið svo snemma, að A-hluti ríkisreikningsins liggi fyrir hér á hv. Alþ. fyrir þinglok. Hitt er þó ljóst af því, sem þegar liggur fyrir, að nokkurn veginn er öruggt að hvorki verður halli á rekstrarreikningi né greiðslureikningi ríkissjóðs á árinu 1972, eins og spáð hafði verið af stjórnarandstæðingum mjög dyggilega á s. l. ári. Hver niðurstaðan kann að öðru leyti að verða skal ég ekki segja frekar um að þessu sinni.

Þegar fjárl. fyrir árið 1972 voru afgreidd hér á hv. Alþ., var það mjög til umr. hjá stjórnarandstæðingum, hve illa væri frá þeim gengið, og meira að segja kom fram till. frá öðrum stjórnarandstöðuflokknum um að vísa þeim frá vegna ónógs undirbúnings. Nú liggur senn fyrir sú staðreynd, hvort þessi andstaða hafi við rök að styðjast, að fjárl. fyrir árið 1972 hafi verið verr úr garði gerð en önnur fjárlög íslenzka ríkisins. Ég tel, að bilið milli fjárlaga og ríkisreiknings segi til um nákvæmni í gerð fjárl. Mér er það að sjálfsögðu ljóst, að eitthver frávik verður alltaf um að ræða þar. Ég vil leyfa mér að nefna tölur um frávik frá fjárl. til ríkisreiknings, síðan farið var að gera ríkisreikninginn upp með þeim hætti, sem nú er gert. 1968 var frávikið tæp 4%. 1969 4.1%, 1970 10.3%, 1971 14.8% og 1972 4.1–4.3%, eftir því sem bezt verður séð. Ég leyfi mér að halda því fram, að það hafi sýnt sig nú, að fjárlagagerðin fyrir árið 1972 hafi verið með þeim hætti, sem bezt hefur reynzt á fyrri árum, þ. e. næst raunveruleikanum, sbr. það, sem ég las hér áðan. Það var því óþarfi fyrir hv. Alþ. að gera sérstaka aths. við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1972, og framkvæmdin hefur einnig tekizt vel.

Þegar viðreisnarstjórnin hafði setið að völdum á annan áratug, lýsti fjmrh. þeirrar ríkisstj. því yfir, að ástandið í skattamálum væri með þeim hætti, er nú skal greina, með leyfi hæstv. forseta: Skattakerfið er allt of flókið, álögð gjöld allt of mörg, frádráttarreglur flóknar, allt of þungt á unglingum, allt of mikið af undanþágum og sérreglum. Það var því hlutverk núv. ríkisstj. að taka skattamálin til gagngerðrar endurskoðunar, er hún kom til valda, og leiðrétta þau mistök, sem viðreisnarstjórnin hafði gert með því að taka það eitt til endurskoðunar í skattalögunum. sem var þeim mest í hag, sem bezta höfðu aðstöðuna í þjóðfélaginu. Til þessa verks var þegar gengið haustið 1971. Kerfið var gert einfaldara, persónusköttum og þ. á m. sköttum á unglingum aflétt og hlutur sveitarfélaga bættur. Um framkvæmd þessara mála hefur mjög verið deilt, og skal ég ekki fara langt út í það. Ljóst er þó, að ef óbreytt hefði verið verkaskiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga á árinu 1972 frá því, sem áður var, hefði hækkun vegna ríkisins á sköttum ekki þurft að vera nema 31%, en hjá sveitarfélögunum, miðað við þá fjárhagsáætlun, sem þau lögðu á eftir, yfir 50%. Ég vil einnig vekja athygli á því, að ef sveitarfélögin hefðu ekki notað sér hækkunarheimildir þær, sem þau höfðu vegna útsvara og fasteignaskatts, hefði álagningin á milli áranna 1971 og 1972, heildarálagningin, verði svipuð og hún var á milli áranna 1970 og 1971. Hins vegar var það svo, að þar sem sjálfstæðismenn réðu ríkjum, eins og í Reykjavík, þá hlífðu þeir ekki gjaldendunum við háum sköttum og notuðu allar þær álagsheimildir, sem þeir höfðu. Þrátt fyrir tal þeirra um spennu á vinnumörkuðum hækkuðu þeir framlag til verklegra framkvæmda um 100%. Ljóst var þó þegar á s. l. ári, að hér var um algeran óþarfa að ræða, og hefði verið hægt að komast hjá því að nota þessar álagsheimildir, og það mun sýna sig á árinu 1973, að þetta er á rökum reist. Hins vegar var fjárhagur sumra sveitarfélaga orðinn þannig, að þeim bar nauðsyn til að nota þessa heimild að einhverju leyti til að rétta fjárhag sinn við eftir viðreisnarárin enda stefndi þá mjög í óefni, eins og sýndi sig, þar sem jöfnunarsjóður varð að aðstoða í kringum 20 sveitarfélög á árinu 1971, þrátt fyrir það að þau hefðu þá notað allar þær heimildir, sem þau höfðu til aukaálagningar á þegna sína. Það var líka ljóst með þeim breytingum á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, sem gerð var á s. l. ári, að hér er meiri jöfnuður á milli byggðarlaga en áður var. Ég leyfi mér að fullyrða, að það er eitt stærsta átakið, sem gert hefur verið til þess að jafna á milli byggðarlaganna í landinu. Útgjöldum var létt af sveitarfélögum, og ég vona, að þau hagnýti sér það til fyllstu hagsbóta og tryggi þar með stöðu sína. Enda þótt mikið hafi verið rætt um of háa beina skatta hér á landi á s. l. ári, eru þeir þó lægri hér en í nágrannalöndum okkar.

Ég vek athygli á því, að stefnumörkun á milli beinna og óbeinna skatta getur ekki farið fram með eðlilegum hætti, nema tekjuöflun ríkissjóðs í óbeinum sköttum og af munaðarvörum sé öll óháð vísitölu. Ég vek einnig athygli á þeirri ákvörðun ríkisstj. að hækka skattvísitöluna í 128 stig í staðinn fyrir 110, eins og gert var við fjárlagagerðina í haust, svo sem framfærsluvísitalan þó sagði til um. Það þýðir í raun og veru 700–800 millj. kr. raunverulega skattalækkun á þessu ári. Áfram er nú unnið að gerð nýrra skattalaga, og er lögð mikil áherzla á að koma í veg fyrir skattsvik og að skattsvik verði gerð refsiverð með sama hætti og auðgunarbrot samkv. hegningarlögunum.

Herra forseti. Ég legg að lokum áherzlu á það, sem ég hef þegar leitt rök að, að ríkisstj. hefur tekizt að halda þannig á málum þjóðarinnar, hvort sem litið er á svið félags-, atvinnu- eða fjármála ríkisins, að hún hefur fylgt fram frjálslyndri umbótastefnu, en þó sýnt fulla festu og aðhald. Þó ber hæst málefnum núv. ríkisstj. lífbeltin tvö, verndun landgrunnsins og verndun gróðurríkis landsins, enda á þjóðin framtíð sína undir því, að þetta hvort tveggja takist. Vitað að meiri hluti þjóðarinnar treystir ríkisstj. og styður hana til góðra verka, þó að skammsýnir stjórnmálamenn hafi löngun til annars, e. t. v. ekki sízt vegna þess, að þeim finnst sjálfum, að þeir hafi gleymt erindi sínu í valdastólunum, meðan þeir sátu þar. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.