07.03.1973
Neðri deild: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

167. mál, Lyfjastofnun ríkisins

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Svo sem hv. þm. er kunnugt, liggja nú hér fyrir hv. Nd. tvö stjfrv., sem varða endurskipulagningu lyfjaverzlunar. Upphaf þeirra er að finna í málefnasamningi ríkisstj., en þar er stefnumark, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Að endurskipuleggja lyfjaverzlunina með því að tengja hana við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn:

Eins og fram kemur í grg. með þessum frv., skipaði ég í febrúar í fyrra 5 manna n. til að gera till. um slíka endurskipulagningu. Í þessari lyfjamálanefnd eiga sæti Almar Grímsson deildarstjóri, en hann er formaður n., Árni Einarsson framkvstj., Einar Benediktsson lyfjafræðingur, dr. Kjartan Jóhannsson verkfræðingur og Steingrímur Kristjánsson lyfsali. Lyfjamálanefnd hefur skilað áliti í formi tveggja frv. Annars vegar er það frv., sem hér er til umr., um Lyfjastofnun ríkisins, og hins vegar frv. til l. um lyfjaframleiðslu. N. starfar enn að þeim þætti lyfsölu, sem einkum snýr að almenningi, þ. e. a. s. rekstri lyfjabúða. Þess er að vænta, að leggja megi fram frv. um þann þátt á þessu þingi. En rétt er að benda á, að í fskj, með frv. til l. um lyfjaframleiðslu gerir n. grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem hún vinnur eftir í sambandi við tillögugerð um rekstur lyfjabúða. Þar kemur fram, að n. telur, að velja skuli lyfjabúðum og undirstofnunum þeirra stað í fullu samræmi við læknishéraðaskipan í landinu. Þá kemur og fram veigamikið nýmæli, sem n. hyggst leggja til, og er það stofnlána- og jöfnunarsjóður lyfjabúða. Hlutverk slíks lyfsölusjóðs skal vera: 1) Að greiða fyrir með lánum við nýstofnun og eigendaskipti, nýbúnað, breytingar og flutning lyfjabúða. 2) Að styrkja í undantekningartilvikum lyfjabúð, sem af eðlilegum orsökum skilar leyfishafa ekki lágmarkslaunum lyfsala. 3) Að annast framkvæmdir, þegar heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að leggja niður lyfjabúð. Hugmyndin er að afla tekna til þessa sjóðs með iðgjaldagreiðslum lyfjabúða.

Ég hygg, að þessi sjónarmið lyfjamálanefndar muni miða að mjög auknum tengslum við heilbrigðisþjónustuna og starfsemi sjóðs af því tagi, sem hér hefur verið greint, muni fella lyfsölueiningarnar í heildarkerfi. Væri þar um veigamikið skref til framfara að ræða, bæði hvað snertir þjónustu og ekki síður, að með því yrði smásala lyfja felld saman í mun sterkara heildarkerfi en nú er. Ég geri ráð fyrir, að um sameiginlegt sjónarmið heilbrigðisyfirvalda og lyfsala sé að ræða, og rekstur smásölu lyfja liggi ljós fyrir og sé ekki talinn sá myrkviður, sem hingað til hefur legið orð á.

Ég taldi rétt, að þessi meginsjónarmið kæmu fram hér, sem unnið mun verða eftir í sambandi við tillögugerð og endurskipulagningu þessa þáttar lyfsölu, þannig að engar getspár yrðu um þann þátt. Hann er í rauninni mjög aðgreinanlegur frá hinum tveimur, sem liggja hér fyrir í frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins og frv. til l. um lyfjaframleiðslu. Hins vegar verða þessir þættir að tengjast í skipulegu kerfi.

Svo að aftur sé vikið að þeim frv., sem hér liggja fyrir Alþ. og koma til umr., er þess að geta, að heilbr.- og trmrh. fékk dr. Kjartan Jóhannsson verkfræðing til að annast gagnasöfnun og gera skýrslu um lyfjamál. Hóf hann starf að þessu verkefni samhliða starfi lyfjamálanefndar, og liggur skýrsla hans nú á borðum hv. þm. Lyfjamálanefnd hefur haft einstaka þætti rannsókna Kjartans til stuðnings við tillögugerð sína, svo sem fram kom í skýrslu n. í nóv. s. l. Sú skýrsla var send nokkrum aðilum til kynningar, og var endanlega gengið frá frv. af hálfu rn. í samvinnu við Ólaf Ólafsson landlækni.

Svo sem ég nefndi áðan, er upphaf þeirrar endurskipulagningar, sem felst í frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins og frv. til l. um lyfjaframleiðslu, að finna í málefnasamningi ríkisstj., en að baki stefnumarkinu um að endurskipuleggja lyfjaverzlunina liggur vilji til að koma félagslegri og nútímalegri skipan á lyfsölumál, miðað við þær skyldur og þá ábyrgð, sem ríkisvaldið hefur með höndum í þessum málaflokki. Lyf eru viðkvæmur og hættulegur varningur, og er heilbrigðisyfirvöldum skylt að vaka yfir meðferð þeirra. lyf kostar samfélagið verulegar fjárupphæðir, bæði gegnum tryggingakerfið og notkun sjúkrahúsa á lyfjum. Í raun er ríkissjóður langstærsti greiðandinn á öllum lyfjakostnaði á Íslandi. Verzlun með lyf og meðferð lyfja almennt eru liðir í almennri heilsugæzlu og því eðlilegt, að tengsl komist á með beinni aðild ríkisins að verzlun með lyf. Lyfjafræðingar eru til þess menntaðir að annast framleiðslu lyfja, rannsóknir og eftirlit með lyfjum og gæzlu lyfjabirgða. Enn fremur er það í verkahring lyfjafræðinga að hafa eftirlit með höndum um afhendingu lyfja til almennings. Í því sambandi vil ég einmitt geta þess hér, að ég taldi mjög mikilsvert, að till., sem gerðar yrðu um endurskipulagningu lyfjaverzlunarinnar, mótuðust af þekkingu fagmanna á viðfangsefninu. Til þess að svo mætti verða, tók ég þann kost að skipa í lyfjamálanefnd 3 nm. af 5, sem væru lyfjafræðingar að mennt. Ég tel, að störf n. beri þess glöggt vitni, að þessir menn hafi gjörla þekkt verkefni sitt. Með augum leikmannsins vil ég halda því fram, að n. hafi sameinað hinar samfélagslegu og faglegu kröfur eins og bezt verður á kosið.

Ég vil þá víkja sérstaklega að frv. því, sem hér er til umr., frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins. Það frv. fjallar um fyrirkomulag innflutnings og heildsölu lyfja. Í því felst nær alger nýskipan þeirra mála, og mun ég rekja hér, í hverju sú breyting er fólgin. Nú eru talin vera 12 innflutnings- og heildsölufyrirtæki með sérlyf hér á landi. Þar að auki flytja nokkrar hinna stærri lyfjabúða allverulegt magn af sérlyfjum inn til eigin þarfa. Þeir innflytjendur, sem nú annast lyfjainnflutning, skiptast í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru það einkaumboðsmenn, þ. e. a. s. þeir aðilar, sem flytja einir inn eða hafa fulla yfirsýn með innflutningi ákveðins erlends umbjóðanda. Í öðru lagi má telja innflytjendur, sem flytja inn lyf frá erlendum umbjóðanda, en eru aðeins einir af mörgum innflytjendum þess umbjóðanda hérlendis. Í þriðja lagi eru það svo lyfjabúðirnar sjálfar, eins og ég nefndi áðan, þ. e. a. s. hinar stærri, sem annast verulegan innflutning til eigin þarfa. Einn mesti ókostur þessa kerfis hefur verið skortur á yfirsýn yfir þann lyfjainnflutning, sem hefur átt sér stað hingað til lands.

Ef litið er á þróun lyfjaheildsölunnar hér á landi, má segja, að hún hafi þróazt samhliða rekstri lyfjabúða á þann veg, að allt frá upphafi, þegar hér var einungis ein lyfjabúð á landinu, að Nesi við Seltjörn, þá annaðist sú lyfjabúð og þær, sem síðar komu, eigin innflutning á lyfjum. Síðan kemur að því, að einstakar lyfjabúðir mynda heildsölur, og var sú skipan mála allt til loka fjórða tugs þessarar aldar. Þá fóru að hasla sér völl ýmsir aðilar í innflutningi á lyfjum og heildsölu þeirra, og væri of langt mál að tíunda það, en eins og ég sagði áðan, eru um 12 aðilar, sem flytja inn og selja í heildsölu nú, og auk þess flytja nokkrar lyfjabúðir inn til eigin þarfa.

Hvernig er þá ástand lyfjaheildsölunnar um þessar mundir? Þetta er spurning, sem að sjálfsögðu verður að svara, þegar svo viðamiklar brtt. sem um ræðir eru til meðferðar. Í stuttu máli skal því haldið hér fram, að þeir séu sárafáir, sem taka að sér að verja ástandið í innflutningi og heildsölu lyfja hér á landi um þessar mundir. Menn kann að sjálfsögðu að greina á um leiðir til úrbóta. Það er mjög athyglisvert að sjá sem dæmi, hversu margir aðilar annast þann litla lyfjamarkað, sem er hér á landi. Á það má t. d. benda, að lyfjaheildsala í margfalt stærri löndum að íbúatölu, bæði í Danmörku og Svíþjóð, er á hendi 5 aðila í hvoru landi að langmestu leyti. Einnig má benda á fyrirkomulagið í Noregi, þar sem ríkisvaldið tók sér með lögum einkarétt á innflutningi og útflutningi og heildsölu lyfja, en þessi skipulagsbreyting í Noregi átti sér stað fyrir rúmlega 15 árum, eftir að norska Stórþingið hafði samið löggjöf um miðskipaða lyfjaheildsölu árið 1953 eða fyrir hartnær tveimur áratugum. Það þarf engan sérfræðing til þess að sjá að hinu dreifða innflutningskerfi á lyfjum, hlýtur að fylgja mjög mikil óhagkvæmni, og er þá einnig ástæða til þess að spyrja, hvort núverandi innflutningsaðilar hafi myndað með sér einhvers konar samtök til þess að auka á hagkvæmnina. Eftir því sem bezt er vitað, hefur engin slík viðleitni af hálfu lyfjainnflytjenda átt sér stað, og getur því hver maður séð, hvílík óhagkvæmni og aukakostnaður er hér með í ferðum.

Ég hygg, að lyfjadreifingin, öryggið við hana og kostnaður sé mál alls þjóðfélagsins. Þessu til stuðnings má benda á þá staðreynd, að sá aðili, sem greiðir langmestan hluta af lyfjakostnaði landsmanna, er tryggingakerfið og heilsugæzlan, þ. e. a. s. sjúkrahúsin. Af þessum sökum er augljóst, að allir liðir lyfjadreifingarinnar, hvort sem það er lyfjainnflutningur, heildsala, framleiðsla eða smásöludreifing, eru tengdir heilbrigðisþjónustunni, og er afar nauðsynlegt, að þeir séu undir öflugu eftirliti hjá heilbrigðisyfirvöldum. Þetta er hreint heilbrigðis- og öryggissjónarmið. Ríkisvaldið hefur verið aðili að innflutningi, heildsölu og framleiðslu lyfja um áratugaskeið. Lyfjaverzlun ríkisins hefur verið rekin í tengslum við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, hefur sameiginlegt skrifstofuhald, en aðskilinn fjárhag frá Áfengisverzluninni. Löggjöfin hefur lagt því fyrirtæki þá skyldu á herðar að útvega lyf, sáraumbúðir og hjúkrunargögn fyrir ríki og ríkisstofnanir, þó ekki til endursölu einstaklingum, ennfremur fyrir lækna og dýralækna, sem rétt hafa til lyfjasölu, svo og fyrir sjúkrahús. Enn fremur er Lyfjaverzlun ríkisins skylt að útvega hvers konar efni til ónæmisaðgerða. Þá fer Lyfjaverzlun ríkisins með einkaréttindi Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins, að því er varðar verzlun með vínanda til lyfja og vínandalyf. Verksvið Lyfjaverzlunar ríkisins hefur þannig verið fyrst og fremst sniðið að þörfum sjúkrahúsa, bæði sjúkrahúsa ríkisins og annarra sjúkrastofnana. Þá hefur Lyfjaverzlun ríkisins verið nánast eini aðilinn, sem annazt hefur heildsölu á hráefnum til lyfjagerðar svo að einhverju magni nemi.

Það er ekki aðeins sjónarmið hagræðingarinnar, eins og áður er getið, sem lögð skulu til grundvallar við uppbyggingu nýs kerfis. Minnzt hefur verið á það sjónarmið, að þjóðfélagið eða réttara sagt tryggingakerfi þess sé stærsti lyfjakaupandinn. Þá verður að geta mjög mikilvægs atriðis, sem er öryggissjónarmiðið. Á það hefur verið lögð áherzla af hálfu þeirrar nefndar, sem samdi meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir, að tryggja beri lyfjabirgðir í landinu á hverjum tíma, eins og bezt verður á kosið. Nefndin hefur m. a. bent á, að nauðsynlegt kynni að verða að koma öryggisbirgðum lyfja fyrir utan Reykjavíkur, t. d. á Akureyri eða á öðrum hentugum stað eða stöðum. Þarna er í raun um almannavarnasjónarmið að ræða, og að sjálfsögðu mun þetta verða til aukins kostnaðar. En þetta er þó mjög mikilvægt, þegar haft er í huga, hvers konar aðstæður geta komið upp, bæði að lyfjabirgðir eyðileggist og einangrist frá stórum hluta þjóðarinnar.

Þá vil ég telja fram hin faglegu sjónarmið, sem lyfjaflutnings- og heildsölukerfið ættu að þjóna. Þar má t. d. nefna upplýsingaskyldu gagnvart yfirvöldum um lyfjanotkun og þá ekki sízt notkun ávana- og fíknilyfja hér á landi. Þetta er stjórnunarlegt atriði, sem verður mjög einfalt í framkvæmd með miðskipaðri lyfjaheildsölu. Þá er einnig það sjónarmið, að innflutningur á lyfjum frá útlöndum, eigi að greiða að einhverju leyti uppbyggingu lyfjaframleiðslu innanlands, og má telja það mjög eðlilega ráðstöfun út frá því sjónarmiði, að Ísland sem smáþjóð sé miklu meiri hætta búin í samkeppni við erlenda framleiðslu en öðrum þjóðum.

Þau sjónarmið, sem ég hef hér í stuttu máli reifað, liggja til grundvallar því frv., sem hér er til umr. um Lyfjastofnun ríkisins. Mun ég nú leitast við að skýra að nokkru þau ákvæði, sem frv. hefur að geyma.

Gert er ráð fyrir, að Lyfjastofnun ríkisins sé ríkisstofnun með sjálfstæðum fjárhag og reikningshald og lúti sérstakri stjórn undir yfirstjórn heilbrrh. Stjórn stofnunarinnar á samkv. 11. gr. frv. að vera skipuð 5 mönnum til þriggja ára í senn, þar á að vera einn starfandi lyfsali samkv. tilnefningu Apótekarafélags Íslands, einn starfandi læknir samkv. tilnefningu Læknafélags Íslands, einn fulltrúi samkv. tilnefningu fjmrn. og tveir fulltrúar án tilnefningar, og skal annar þeirra vera lyfjafræðingur að mennt. Skipun stjórnar stofnunarinnar ætti að tryggja bæði fagleg sjónarmið, sjónarmið ríkisvaldsins og ekki sízt sjónarmið þeirra aðila, sem mest skipti eiga við þessa grein, sem eru lyfsalar og læknar. Þannig er gert ráð fyrir því í þessu frv., að samtök lyfsala og lækna tilnefni fulltrúa í stjórn stofnunarinnar, og ættu með því að fást bæði tengsl milli þessarar starfsgreinar og stofnunarinnar og ekki síður aðhald frá þeim um stjórn og framkvæmdir þess málaflokks, sem stofnuninni er ætlað að annast.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að Lyfjastofnun ríkisins hafi einkarétt á Íslandi til að selja sérlyf, bóluefni og ónæmisefni í heildsölu, að flytja inn og út og selja í heildsölu hráefni til lyfjagerðar, að flytja inn og út og selja í heildsölu lyf samkv. löggiltri lyfjaskrá, lyfsalasöfnum og forskriftum. Frv. gerir ráð fyrir, að heilbrn. sé heimilt að veita einstakar undanþágur frá einkaréttinum að fengnum till. stjórnar stofnunarinnar. Undanþáguákvæði getur átt við ýmiss konar tilvik. Og þá er þess helzt að geta hér, að eðlileg ráðstöfun má teljast að veita öðrum ríkisstofnunum, þ. e. a. s. rannsóknastofnunum á vegum háskólans eða sjálfstæðum rannsóknastofnunum á vegum ríkisins, undanþágu til að flytja inn til eigin rannsókna og í sérstökum tilvikum lyf eða hráefni til lyfjagerðar. Ég vil taka það fram hér, að ég mun flytja brtt., sem mundi lögfesta rétt tilraunastöðvarinnar að Keldum til framleiðslu innflutnings og sölu á eigin framleiðslu undir umsjón dýrayfirlæknis, enda sé það háð almennu lyfjaeftirliti.

Auk þeirra atriða, sem einkaréttur stofnunarinnar mundi ná til, er henni ætlað að flytja inn t. d. eiturefni og hættuleg efni, hjúkrunar- og sjúkragögn og aðrar skyldar vörur, sem lyfjabúðir og sjúkrahús selja og nota. Stofnuninni er einnig ætlað að vinna með stöðugum athugunum gegn hvers konar óhóflegri notkun lyfja og stuðla að hagsýni í lyfjanotkun meðal almennings og á sjúkrahúsum. Henni er og gert að vinna úr og safna upplýsingum um lyfjanotkun í samráði við heilbrigðisyfirvöld. Með þessu ákvæði um athuganir á lyfjanotkun og stuðlun að hagsýni í henni meðal almennings og á sjúkrahúsum felst mjög yfirgripsmikil og veigamikil skylda. Þessi starfsemi Lyfjastofnunarinnar mun að sjálfsögðu kosta nokkra fjármuni. En mjög eðlilegt er, að einmitt það fé, sem þetta kostar, komi frá sjálfri lyfjadreifingunni í landinu. Þá verður það að teljast mjög athyglisvert framfaraspor, að þeim aðila, sem annast lyfjainnflutning og lyfjaheildsölu, séu settar þær skyldur á herðar að veita gagnlegar upplýsingar um lyf og vara við hættum af þeim.

Með frv. er gert ráð fyrir, að umboðsmannakerfinu verði haldið áfram. Er jafnvel gert ráð fyrir því, að umboðsmaður erlends sérlyfjaframleiðanda geti flutt inn sérlyf umbjóðanda síns, enda uppfylli hann kröfur um geymslu lyfja, eins og þær eru á hverjum tíma, þ. e. a. s. hann er einnig háður almennu lyfjaeftirliti. Þess skal þó getið og það skýrt tekið fram, að stofnuninni sem slíkri er ætlað að halda innlendri heildsöluálagningu óskertri. Ef innflutningur fer fram í gegnum umboðsmann, er ætlað, að Lyfjastofnunin kaupi birgðir af honum gegn staðgreiðslu á kostnaðarverði, þar sem með eru talin umboðslaunin. Það getur verið mikið matsatriði, hvort umboðsmenn eigi rétt á sér í einkasölukerfi, en að mati fróðra manna er það nauðsynlegt í þessu tilviki, þar sem lyfjaaðföng byggjast oft á skjótum viðbrögðum. Umboðsmenn geta verið hentugir aðilar til fyrirgreiðslu í slíkum tilvikum. Þá eru og verkefni umboðsmanna að vera hér á landi í forsvari fyrir umbjóðendur sína í sambandi við málefni sérlyfjaskráningar og allt, er að því lýtur. Innkaupsverð á sérlyfjum er liður í mati lyfjaskrárnefndar á sérlyfjaumsóknum. N. getur t. d. lagt til, að umsókn verði hafnað, ef verð þykir of hátt. Til viðmiðunar í þessu tilviki er að sjálfsögðu ekki annað en verð á markaði erlendis, og er í sjálfu sér ekki flókin aðgerð að fylgjast með því á hverjum tíma, því að flest sérlyf hér á landi eru skrásett í nálægum löndum og viðmiðun því einföld. Öðru máli gegnir um öflun hráefna. Þar er um að ræða frjálsan markað og er verð á erlendum mörkuðum mjög háð magninnkaupum. Nú er staðreyndin sú, að innflutningur á hráefnum til landsins hefur verið mjög dreifður, þannig að hver innflytjandi, smár eða stór, á mælikvarða, sem við höfum, hefur annazt sinn eigin innflutning frá aðila erlendis, sem oftast er heildsöluaðili, og liggur þannig í hlutarins eðli, að verð á því hráefni, sem hingað hefur komið, hefur oft verið óhóflegt. Með miðskipuðum innflutningi á hráefnum er um beinan hag að ræða, þannig að öll innkaup verða gerð í einu lagi og ákvæði um rannsóknir á aðkeyptum hráefnum þurfa einungis að uppfyllast á einu stóru vörumagni í staðinn fyrir fjölda rannsókna á dreifðum innflutningi. Hér er um mjög mikið hagkvæmnisatriði að ræða og því rétt að taka það sérstaklega fram hér.

Til að undirstrika þá faglegu stöðu, sem Lyfjastofnun ríkisins er ætlað, skal bent á ákvæði í frv., þar sem segir, að stofnunin skuli stuðla með fjárframlögum í mennta- og rannsóknarskyni, að framförum í lyfjafræði, lyfjaframleiðslu og skyldum greinum. Þetta atriði minntist ég á hér áðan, en í frv. er gert ráð fyrir, að þróunar- og vísindasjóður stofnunarinnar veiti sérstakar fjárupphæðir í þessu skyni. Að öðru leyti er greindur þróunar- og vísindasjóður varasjóður stofnunarinnar og til þess að þróa hana sjálfa og byggja hana upp með tíð og tíma.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að hin nýja stofnun taki við eignum og skuldum Lyfjaverzlunar ríkisins. Hins vegar er ekki um að ræða, að ríkissjóður láti af hendi óafturkræft framlag til hennar. Í 17. gr. frv. er ákvæði um 25 millj. kr. framlag, sem endurgreiðist með jöfnum ársgreiðslum á 5 árum. Auk þess er gert ráð fyrir ríkisábyrgð á lánum, allt að 100 millj. kr.

Heildarinnflutningur á tilbúnum lyfjum og vörum til lækninga er áætlaður 222.6 millj. kr. á cif-verði á árinu 1971. Árleg aukning þessa innflutnings á undanförnum árum hefur numið að meðaltali um 13%, þegar leiðrétt hefur verið fyrir gengisbreytingu. Samkv. því er þessi innflutningur áætlaður um 255 millj. kr. á árinu 1972. Í þessum tölum er ekki meðtalinn innflutningur ýmissa hráefna til lyfjagerðar. Heildarverðmæti innflutnings reiknað á verðlagi þessa árs hefur vaxið úr 56.5 millj. kr. á árinu 1965 í 222.6 millj. kr. á árinu 1972, og árleg meðalaukning er því 13% á ári, eins og ég gat um áðan. Innflutningsaukningin er þannig 14.4% á árinu 1966, 12.8% á árinu 1967, 14.1% á árinu 1968, 26.7% á árinu 1970 og 12% á árinu 1971. Hins vegar varð minnkun á árinu 1969 um 1%. Hin mikla aukning á árinu 1970 á vafalaust rót sína að rekja til birgðaminnkunar árið áður, sbr. samdrátt innflutningsins á því ári. Samkv. þessu mætti áætla innflutning næstu ára þannig, að því er varðar cif-verðmæti í millj. kr.: árið 1972 255 millj., árið 1973 286 millj., árið 1974 324 millj. og árið 1975 366 millj. Mestur hluti lyfjainnflutningsins hefur komið frá Bretlandi og Danmörku. Árið 1970 voru 58% af öllum innfluttum vörum samkv. 30. tollflokki til lækninga flutt inn einmitt frá þessum tveimur löndum, Bretlandi 30% og Danmörku 28%. Þrjú önnur lönd, Vestur-Þýzkaland, Sviss og Holland, seldu samtals 31% af lækningavörum, sem fluttar voru til Íslands, þannig að 89% af vörunum voru fluttar inn frá 5 af þeim ca. 20 löndum, sem flutt var frá árið 1970. Árið 1965 voru flutt frá þessum 5 löndum 81% cif-verði innfluttra lækningavara, og hafa hlutföllin breytzt lítið síðan. Nokkrar breytingar hafa orðið á innflutningi frá öðrum löndum, en fáar verulegar, enda hefur í fæstum tilvikum verið um svo mikinn innflutning að ræða, að máli skipti. Undantekning er þó innflutningur frá Bandaríkjunum. Þaðan voru flutt 14% af vörum til lækninga árið 1965, en ekki nema 4% árið 1970.

Við ríkjandi skipulag á að heita frjáls samkeppni milli heildsölufyrirtækja um lyfjainnflutning og lyfjaheildsölu. Rúmur tugur heildsölufyrirtækja skiptir markaðinum á milli sín, eins og ég gat um í upphafi. Eitt þessara fyrirtækja er rekið af ríkinu, Lyfjaverzlun ríkisins, og starfar hún í samkeppni við heildsölur einkaaðila. Löggjafinn hefur lagt þessu fyrirtæki ríkisins vissar skyldur á herðar umfram önnur fyrirtæki í greininni. Þannig ber lyfjaverzluninni að útvega lyf, efni til ónæmisaðgerða og hjúkrunargögn fyrir ríkið og ríkisstofnanir, svo og lækna og dýralækna, sem rétt hafa til lyfjasölu. Hins vegar ber þessum aðilum engin skylda til þess að skipta við Lyfjaverzlunina nema varðandi spírituslyf, en á þeim hefur Lyfjaverzlunin einkasölu. Í reynd hefur lyfjaverzlunin ekki haldið fram viðskiptum við sig og ekki leitazt við að halda í eða auka markaðshluta sinn. Verulegur hluti lyfjakaupa sjúkrahúsanna er því frá öðrum heildsölum. Með skyldu Lyfjaverzlunarinnar til þess að útvega 1yf er því boðið heim, að hún sé látin ein um óarðbærari hluta lyfjasölunnar. Bendir ýmislegt til þess, að þessi hafi orðið þróunin, en heildsölur einkaaðila hafi náð stærri hlutdeild í þeim lyfjum, sem arðbærari eru í sölu.

Viss miðskipun lyfjainnflutnings verður að teljast óhjákvæmileg vegna smæðar þjóðfélagsins, þar eð ýmsir viðskiptaaðilar eru mjög tregir til að afgreiða mjög litlar vörusendingar. Hefur Lyfjaverzlunin í reynd gegnt þessu hlutverki óhjákvæmilegrar miðskipunar.

Þegar skoða á skipulagsform lyfjaheildsölu verður að hafa í huga þau almennu sjónarmið, sem stefna á að. Þrenns konar sjónarmið verður að hafa að leiðarljósi: þjónustusjónarmið, öryggissjónarmið og hagkvæmnisatriði. Þjónustan verður að vera af því tagi, að jafnan sé tryggt, eftir hví sem unnt er, að lyfjagjöf sé sem réttust með tilliti til þess,. hvað við á í hverju tilviki. Að þessu markmiði verður helzt unnið með öflugu rannsókna- og fræðslustarfi. Þannig verður að sjá læknum fyrir sem raunbeztum upplýsingum um lyfin og eiginleika þeirra og auðvelda læknunum að tileinka sér síbreytta og vaxandi þekkingu í þessum efnum með öflugu upplýsinga- og fræðslustarfi. Öryggissjónarmið varðar bæði hindrun rangrar lyfjagjafar eða notkun ónýtra lyfja, svo og að ævinlega séu fyrir hendi nægilegar birgðir hvers konar lyfja, jafnt til venjulegrar notkunar sem við náttúruhamfarir, styrjaldarástand, farsóttir eða aðra óáran. Hagkvæmnissjónarmið varða annars vegar kostnað af innkaupum og dreifingu lyfjanna og hins vegar tilstuðlan þess, að ódýrari lyf séu notuð frekar en dýr að öðru jöfnu, ef vænta má sama árangurs. Séu þessi þrjú sjónarmið, sem fela í sér markmiðsatriði lyfjasölunnar, skoðuð og litið annar vegar á núverandi skipan og hins vegar miðskipan í formi einkasölu, kemur í ljós, að einkasala fellur að ýmsu leyti betur að þessum markmiðum, eins og hér verður nánar rakið.

Við umr. um miðskipun er oft á það bent, að frjáls samkeppni margra aðila geti tryggt lægra verðlag og hærra þjónustustig. Með þjónustustigi er þá m. a. átt við, að ávallt séu nægar birgðir af vörunni, þannig að hún sé ætíð á boðstólum. Áður hefur verið vikið að því, að við núverandi fyrirkomulag hafi verið brögð að skorti á vissum lyfjum, og er því ekki unnt að telja, að hin frjálsa samkeppni hafi stuðlað að góðri þjónustu. Augljóst er, að þegar margir aðilar flytja inn sama lyf, skortir yfirsýn yfir það birgðamagn, sem fyrir hendi er. Við einkasölufyrirkomulag yrði yfirsýn betri og aukast mundi öryggi fyrir því, að nægar birgðir séu haldnar. Jafnframt yrði auðleyst að koma upp öryggisbirgðum í hinum ýmsu landshlutum. Áhrif samkeppni á verðlag er erfiðara að meta til nokkurrar hlítar, en þó virðist ekki nema í undantekningartilvikum hafa verið verðsamkeppni í þessari grein, heldur hafi verðbandalag verið tíðara. Þó eru dæmi þess, að lyfjaskrá ríkisins hafi tekizt að ná mjög verulegri verðlækkun á innfluttum lyfjategundum með því að ota saman erlendum framleiðsluaðilum. Þessi þáttur verðsamkeppni mundi haldast, þótt um einkasölu væri að ræða, og er reyndar líklegt, að hann yrði öllu auðveldari við það form en núverandi skipan. Með einkasölu er enn fremur stóraukinn möguleiki á magnafslætti við innkaup. Lyfjaheildsalar og umboðsmenn dreifa upplýsingum og auglýsingum um lyf sín til lækna, en læknarnir ráða í reynd eftirspurninni. Mörgum hefur verið það áhyggjuefni, að þessi sölustarfsemi miðast ekki nægilega vel við að veita læknum sem staðbeztar upplýsingar um verð og eiginleika lyfjanna, heldur stefndi frekar að aukinni sölu vörunnar eða ágóða. Óhætt mun að fullyrða, að ótti við áhrif af þessu tagi hafi ýtt undir þær breytingar, sem hafa verið gerðar í lyfsölumálum í Noregi og Svíþjóð. Einkasalan auðveldar yfirsýn yfir lyfjanotkun og eftirlit með sölustarfsemi. Félagslegri einkasölu má gera að skyldu að leggja fé til fræðslustarfsemi, og ætti það raunar að vera ein af skyldum hennar. Einkasala í höndum opinberra aðila yrði ekki rekin með ágóða eða sölumark. mið í huga og mundi því eiga auðveldara með að beita sér fyrir óhlutdrægu upplýsinga- og sölustarfi.

Að því er varðar upplýsingamiðlun til lækna og skort á vissum lyfjategundum er athyglisvert, að þjónustuskortur á þessu sviði kemur ekki eins glöggt fram og á ýmsum öðrum sviðum, svo sem í almennri verzlun, því að þessi atriði snúa ekki beint að almenningi og áhrifin eru komin undir viðbrögðum lyfsala og lækna.

Ég hef nú reynt að rekja allítarlega stöðu innflutnings og heildsölu lyfja og þær till. til úrbóta, sem hér liggja fyrir í frv. formi.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.