08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

170. mál, orkulög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka þessum tveimur fulltrúum Alþfl., sem hér hafa talað, fyrir þær jákvæðu undirtektir við þá heildarstefnu, sem felst í þessu frv. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson vildi þó, að ég gerði enn þá betur, og vafalaust gæti ég gert það. En ég er hér að reyna að koma fram máli, sem ég hygg, að það sé þingmeirihl. fyrir. Hér er um að ræða stjfrv., sem ríkisstj. stendur að í heild, og ég hygg, að það séu allar horfur á því, sem betur fer, að þetta frv. nái fram að ganga. Ég hygg, að um frv. af því tagi sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson talaði um, sé svo mikill ágreiningur að eins og sakir standa mundi ekki vera meiri hl. fyrir því hér á þingi. Ég er sömu skoðunar og hann um það mál, en sem stjfrv. væri ekki kleift að leggja það fram, og ég sit nú í ríkisstj. til að koma málum í framkvæmd á þann veg, sem framkvæmanlegt er.

Í sambandi við brtt. hv. þm. Stefáns Gunnlaugssonar, þá finnst mér hún vera byggð á algerum misskilningi. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi tegund jarðhita eða orku á háhitasvæðum sé alþjóðareign, eign okkar allra, og með þá eign fer ríkið að sjálfsögðu. Framkvæmdin á vinnslu þessarar orku verður síðan í höndum alþingis. Það þarf leyfi Alþingis til allrar slíkrar vinnslu. Ég teldi algerlega óeðlilegt, að þarna yrði skilinn eftir eignarréttur, þótt í höndum sveitarfélags sé, því að þá væri opinn möguleiki, að slíkt sveitarfélag færi að gera kröfur til fjármuna, verulegra fjármuna, ef Alþ. ákvæði að hagnýta háhitasvæði, sem þetta sveitarfélag hefði ekki aðstöðu til eða vilja til eða getu til að hagnýta sjálft. Slík skipan, held ég, að væri óeðlileg með öllu. Með þessu er ég á engan hátt að halda því fram, að ríkið eigi ekki að taka það tillit til Hafnarfjarðar, sem nauðsynlegt er í sambandi við Krísuvík. Því miður getur orðið miklu minna úr hagnýtingu Krísuvíkur en Hafnfirðingar hugsuðu sér á sínum tíma. Ef eitthvað er í sambandi við þá samningsgerð, sem þyrfti að athuga betur en gert er með þessu frv., þá finnst mér það alveg sjálfsagt. 1 frv. eru m. a. ákvæði um það, eins og menn hafa séð, að „sá, sem borað hefur eftir jarðhita á háhitasvæði, en ekki byrjað vinnslu hans við gildistöku laga þessara, á ekki rétt til frekari borunar eða hagnýtingar jarðhitans, nema til komi leyfi samkv. 1. mgr., en ríkinu sé skylt að greiða honum kostnaðarverð borunarinnar, ef þess er óskað og hún hefur verið framkvæmd árið 1963 eða síðar, enda verði borholurnar þá eign ríkisins: Ef um einhver hliðstæð vandamál þessu getur verið að ræða eða samningsatriði þessu líkt getur verið að ræða milli Hafnarfjarðar og ríkisins, þá er ég reiðubúinn til þess, að það verði kannað. En að skilja eftir hluta af eignarrétti alþjóðar hjá einhverjum sveitarfélögum, það finnst mér stríða gersamlega gegn þeirri meginhugmynd, sem felst í þessu frv., og það gæti leitt til afls konar annarlegs ágreinings síðar, þannig að ég vil beina því til hv. þm., hvort hann við nánari athugun mundi ekki falla frá þessari till., en hugleiða, hvort ekki er hægt að vernda þá hagsmuni, sem Hafnarfjörður telur sig e. t. v. eiga þarna, eftir einhverjum öðrum leiðum.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson las hér upp samþykkt Búnaðarþings í tilefni af þessu frv. Ég hafði lesið þá samþykkt áður, og ég verð að segja það, að mér varð hún til sárrar skapraunar. Mér hefur verið það mikið undrunarefni að fylgjast með því á undanförnum árum, hversu ákaflega þrönga og einstaklingshyggjubundna afstöðu kjörnir fulltrúar bænda taka til einkaeignarréttar á þessu sviði. Hafa komið fram margar samþykktir af þessu tagi, og eftir því sem ég þekki til íslenzkra bænda, þá er ég sannfærður um, að sjónarmið af þessu tagi eru mjög fjarlæg viðhorfum alls þorra bænda á Íslandi. Í sambandi við háhitasvæðin er um að ræða hugsanlegan, fræðilegan eignarrétt manna, sem eru áreiðanlega innan við 1% af þjóðarheildinni.

Engu að síður telur Búnaðarþing, að það eigi að reyna að tryggja það, að þessi fámenni hópur eigi að geta hirt mjög verulega fjármuni, ef þjóðin í heild reynir að nýta orku úr háhitasvæðum, — orku, sem er þannig geymd, að þessir einstaklingar, sem þarna er um að ræða, hafa ekki nokkra minnstu aðstöðu til þess að nýta hana, — orku, sem til er komin án þeirra tilverknaðar að nokkru leyti. Ég tel þessa afstöðu f'ulltrúa bænda vera ákaflega furðulega, og ég er eins og ég sagði áðan, sannfærður um, að hún er í algeru ósamræmi við skoðanir bænda. Ég er alveg viss um, að ef talað er við bændur um þetta mál, hvar sem er á landinu, þá mundu þeir telja það algerlega sjálfsagt mál, að með þessa orku yrði farið svo sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Þessi eignarréttarmál hafa verið á dagskrá um langt skeið og mér finnst, að þau hafi lent úti á æðimiklum villigötum. Mér hefur virzt, að sumir þjóðfélagshópar, þ. á m, nokkrir bænda, séu að ímynda sér, að þeir séu þarna að vernda réttindi, sem þeir eigi, en reynslan vilji verða sú, að með því að reyna að vernda svokölluð réttindi af þessu tagi séu bændur að kalla yfir sig hvers konar gróðabrallsaðila, sem sízt af öllu verða heilbrigðum landbúnaði eða heilbrigðu lífi í sveitum til framdráttar.