13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

300. mál, rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslensku þjóðfélagi

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Hinn 5. apríl 1971 var samþ. á Alþ. þál. um rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að láta framkvæma rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi. Sérstaklega skal rannsóknin beinast að því, hvernig háttað er raunverulegu jafnrétti karla og kvenna að því er varðar menntun, störf, launakjör og hvers kyns þátttöku í félagslegum verkefnum. Jafnframt skal kanna, hverjar breytingar á gerð þjóðfélagsins gætu stuðlað að því að auka jafnrétti manna. Að rannsókn lokinni skulu niðurstöður hennar birtar.“

Mál þetta var á sínum tíma flutt af núv. hæstv. iðnrh., og óhætt er að segja, að samþykkt þál. á hv. Alþ. markaði viss tímamót í jafnréttisbaráttunni hér á landi. Í öðrum löndum, t. d. öllum Norðurlöndum nema Íslandi, höfðu stjórnvöld þá þegar talið skyldu sína að láta kanna raunverulega stöðu kvenna í þjóðfélögum sínum og látið rannsaka, að hve miklu leyti konur gætu talizt búa við raunverulegt jafnrétti. Er afraksturinn af þessum könnunum ítarleg nál. stjórnskipaðra nefnda eða bækur unnar og gefnar út af rn. og opinberum aðilum. Var vitað mál, að ekki var síður þörf á, að slík rannsókn færi fram hér á landi, sem síðan, eins og þál. segir, gæfi vísbendingu um, hverjar breytingar þyrfti að gera á gerð þjóðfélagsins, sem stuðlað gætu að auknu jafnrétti. Slíkar kannanir geta því eðli málsins samkv. engan veginn talizt einkamál einstakra áhugahópa, enda þótt slíkum aðilum hafi orðið talsvert ágengt á þessu sviði. Því vil ég spyrja hæstv. félmrh., hvað liði framkvæmd þessa máls, hvaða aðilar hafi hana með höndum og hvenær megi vænta niðurstaðna.