30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tel rétt að þakka, að hæstv. forsrh. ætlar að koma því til utanrrn., að leiðrétta þá grein, sem hér er til umr., ef það hefur ekki verið þegar gert. En ég vil benda á, að kjarninn í ræðu hv. G. þm. Vesturl. var í sjálfu sér ekki bað, sem gerðist nú um helgina, heldur aðvörun um, hvað felst í viðbrögðum Breta. Ef eitthvað kemur fyrir, þá er sýnilega ætlunin að sjá svo til með öllum mætti brezkra fjölmiðla, að okkur verði kennt um. Það er ekki nóg að leiðrétta þetta eina atriði, heldur ber okkur að haga gagnkynningu og gagnáróðri okkar eftir þessu.

Ég vil vekja máls á því, hvort upplýsingastarfsemi okkar, sérstaklega í Bretlandi sjálfu, sé í nógu góðu lagi. Við höfum að vísu ráðið upplýsingaskrifstofu, en ég hef séð ákaflega litlar upplýsingar um það, hver hún er eða hvað hún hefur gert, þó að ég hafi heyrt hæstv. ráðh. eða fulltrúa ráðh. fullyrða, að hún vinni vel. Hitt vitum við, að mótaðili okkar, brezki fiskiðnaðurinn, hefur ráð á að eyða 300 þús. sterlingspundum í að fá einhverja illræmdustu áróðursskrifstofu, sem til er í veröldinni, í Sviss, til þess að vinna gegn okkur og grafa undan okkur. Og ég óttast því miður, að í þessum hluta átakanna förum við á ýmsum sviðum halloka. Ég óttast t.d. mjög alvarlega, að þessari skrifstofu í Genf takist að breiða út þann áróður, að okkur Íslendingum sé ekki trúandi fyrir neins konar vernd á fiskistofnum. Þetta er eitt af því, sem þeir hafa lagt mikla áherzlu á.

Ég vil leggja mjög ríka áherzlu á, að það verði litið á þetta ekki aðeins sem eitt atvik, heldur verði könnuð aðstaða okkar í upplýsinga- og áróðursstríðinu, sem er einn hluti af landhelgisdeilunni.