13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

193. mál, endurvarpsstöðin á Gagnheiði

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Það er vissulega ánægjulegt, ef eitthvað hefur verið hugsað fyrir því að bæta þetta ástand, eins og hann greindi frá í svari sínu. Hins vegar sýnist mér á öllu, að þær hugmyndir, sem þarna voru uppi um örbylgjukerfi, muni eiga langt í land, miðað við þá kostnaðarhlið, sem þarna var á minnzt, svo að ekki hef ég trú á, að við njótum góðs af því í náinni framtíð, þó að vel kunni að vera, að eitthvað verði reynt að gera í þeim efnum. En það er áreiðanlegt, að það er full ástæða til þess að reyna allt, sem hægt er, til þess að auka myndgæði þar eystra, því að þau eru vægast sagt oft þannig, að segja má, að óhorfandi sé á sjónvarpið.

Ég vil líka taka það fram, að þrátt fyrir þessi svör um það, að þarna sé allt gert, sem hægt er, til þess að gera við um leið og mögulegt er, þá veit ég það frá ýmsum þeim starfsmönnum, sem að þessu vinna á vegum Landssímans eystra, að þeir eru ekki fullkomlega ánægðir með, hvernig að þeim er búið af hálfu Landssímans hér syðra með tækjakost og annað því um líkt til viðgerðanna. Það væri a. m. k. mjög æskilegt, ef það væri allt gert, sem hægt væri, til þess að leggja þeim upp í hendur þau tæki, sem þeir þurfa á að halda, til þess að þeir geti sem fyrst sinnt þeirri sjálfsögðu viðgerðarþjónustu, sem þarna hlýtur að eiga rétt á sér.