14.03.1973
Neðri deild: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

23. mál, framkvæmd eignarnáms

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langan formála að mínu máli, og ekki ætla ég að fara að hefja hér deilur við hv. 9. landsk., en þótt ég sé samþykkur þessu frv., sem hér er til 3. umr., og andvígur brtt. hv. 9. landsk, þm., vil ég ekki sitja undir því, að ég sé á nokkurn hátt aðdáandi þeirra stjórnmálastefna, sem leggja sig fram um það að skerða eignarrétt manna. Ég lít ekki svo á, að með þessu frv. sé gengið frekar á rétt einstaklinganna en áður var, þvert á móti eru með þessu frv. settar ákveðnari reglur og á ýmsan hátt tryggður réttur eignarnámsþola frekar en áður var. Þar vil ég t. d. nefna ákvæði í 14. gr., sem hv. 9. landsk. leggur til, að verði felld brott. Þar er beinlínis tekið fram, að ef krafa komi fram um það af hálfu eignarnámsþola, skuli eignarnemi setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum. Þessi ákvæði eru ekki til í núgildandi löggjöf. Það er sett sú meginregla í 13. gr., að eignarnemi geti ekki krafizt þess að fá umráð þess verðmætis, sem eignarnám beinist að, fyrr en hann hefur innt af hendi eignarnámsbætur. 14. gr. er hins vegar undantekning frá þessari höfuðreglu, og eins og ég sagði áðan, fær eignarnemi ekki umráð eignar, þótt mati sé ekki lokið, nema hann setji tryggingu fyrir greiðslu eignarnámsbóta, ef sú krafa kemur fram frá eignarnámsþola.

Varðandi 12. gr. og till. um, að 3. mgr. hennar falli brott, get ég verið stuttorður. Ég nefndi þetta um daginn í framsöguræðu minni fyrir nál. Ég greindi þar frá, hver væri skilningur nm. í hv. allshn. á þessu ákvæði, og þarf ekki að endurtaka það, en okkur þótti liggja í augum uppi, að það væri ekki hægt að greiða fasteign, sem tekin er eignarnámi, með annarri óskyldri fasteign. Við töldum, að þetta ákvæði ætti fyrst og fremst við, ef tekinn væri hluti af landi og hægt væri að bæta það með öðrum landskika og þá jafnverðmætum og samtengdum hinum. Mér sýnist ekki vera ástæða til að fara mörgum orðum um þetta, það liggur svo í augum uppi, að landskiki, sem tekinn er eignarnámi, verður ekki greiddur með t. d. húseign einhvers staðar annars staðar á landinu. Þetta hljóta allir að sjá. Það þarf enginn að sætta sig við slíka málsmeðferð. Í 1. mgr. 12. gr. sýnist mér líka, að eignarnámsþoli fái fullgilda tryggingu, vegna þess að þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar, sem eftir er, verður ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, getur matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar.“

Þá verður það vitanlega greitt með peningum, en ekki annarri fasteign. Með þessu ákvæði get ég ekki betur séð en eignarnámsþoli fái fullnægjandi tryggingu.

Ég ítreka svo þá skoðun mína, að ég tel, að þetta frv. eigi að verða að lögum, vegna þess að það er til mikilla bóta frá því, sem nú er.